Ársskýrsla Kvennanefnd Harðar 2023
- Nánar
- Flokkur: Fréttir
- Skrifað þann Fimmtudagur, nóvember 09 2023 18:55
- Skrifað af Sonja
Harðarkonur er félagsskapur kvenna í Herði 18 ára og eldri. Ný kvennanefnd tók við 2022 og hana skipa.
Elín Hrönn Jónasdóttir
Guðný Guðlaugsdóttir
Guðrún Hildur Pétursdóttir
Harpa Groiss
Sædís Jónasdóttir
Kristjana Þórarinsdóttir
Olga Rannveig Bragadóttir
Íris Grettisdóttir.
Markmið kvennanefndar er að skapa vettvang fyrir allar konur í Herði að hittast, fara í reiðtúra saman og skipuleggja árlega Kvennareið. Nefndin hóf dagskrá sína í lok mars 2023 með reiðtúrum tvisvar í mánuði. Hugsunin á bak við reglulega reiðtúra var að þjappa hópnum saman og kynnast fyrir Kvennareið. Viðburðir voru auglýstir á facebook síðu Harðarkvenna. Boðið var upp á mat gegn vægu gjaldi eftir reiðtúra að hætti Kristjönu Þórarinsdóttur, en hún er veitingastjóri hópsins. Aðstaðan í reiðhöllinni var nýtt í hitting eftir reiðtúra og eru Harðarkonur þakklátar félaginu fyrir þá aðstöðu sem er til fyrirmyndar. Eftir einn reiðtúrinn var t.d boðið upp á kynningu á Brokk öryggisvestum fyrir hestamenn sem er bylting í öryggismálum hestamanna. Harðarkonur fóru í nokkrar heimsóknir þar sem vel var tekið á móti okkur. Olga Bragadóttir og eiginmaður grilluðu fyrir okkur í Fitjakoti og í Litlu Kvennareiðinni fórum við að heimsækja Sillu Vignisdóttur á Vindhól inn í Helgadal. Í báðum heimsóknum fengum við höfðinglegar móttökur. Í stóru Kvennareiðinni í lok maí var farið í heimsókn á Ólafshaga þar sem við dönsuðum línudans og gæddum okkur á veitingum frá Kristjönu. Um kvöldið var grill í reiðhöllinni ásamt dansi.
Góð þáttaka var á viðburðum kvennanefndar og almenn ánægja. Kvennanefndin gefur kost á sér aftur fyrir árið 2024 með smá breytingum. Íris Grettisdóttir lætur af störfum og Margrét Ólafía Ásgeirsdóttir kemur í hennar stað. Gjaldkeri Harðar Ragnhildur Birna Traustadóttir hefur verið nefndinni innan handar að halda utan um fjármál viðburða og fær hún bestu þakkir fyrir.
Kvennanefndin er spennt að fara skipuleggja viðburði fyrir Harðarkonur 2024.
Fyrir hönd Kvennanefndar
Elín Hrönn Jónasdóttir