Skýrsla stjórnar 2021
- Nánar
- Flokkur: Fréttir
- Skrifað þann Miðvikudagur, október 27 2021 21:45
- Skrifað af Sonja
Skýrsla stjórnar 2021
Skrifað 17.10.2021
Stjórn Hestamannafélagsins Harðar:
Formaður:
Margrét Dögg Halldórsdóttir
Aðalstjórn:
Anna Lísa Guðmundsdóttir Kjörin 2019
Einar Guðbjörnsson Kjörinn 2019
Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir Kjörin 2019
Rúnar Þór Guðbrandsson (fyrir Hauk Níelsson) Kjörinn 2019
Jón Geir Sigurbjörnsson Kjörinn 2021 (2020)
Aðalheiður Halldórsdóttir Kjörin 2021 (2020)
Magnús Ingi Másson Kjörinn 2021 (2020)
Ragnhildur B. Traustadóttir Kjörinn 2021 (2020)
Áheyrnarfulltrúi:
Ásta Björk Friðjónsdóttir
Skoðunarmenn:
Sveinfríður Ólafsdóttir
Þröstur Karlsson
Starfið
Hestamannafélagið Hörður telur í dag 623 félaga. Yfirstandandi starfsár hefur fyrir margar sakir verið býsna sérstakt. Fyrir það fyrsta hefur sitjandi stjórn aðeins starfað í 9 mánuði í stað 12 vegna þess að fresta þurfti síðasta aðalfundi margsinnis til að virða sóttvarnarreglur. Þær sömu reglur hafa sett mark sitt á félagsstarfið almennt sem hefur verið með daprara móti, ekki mátti koma saman að neinu ráði allan síðasta vetur og áttum við fullt í fangi með að fylgja reglum sem breyttust títt og starfa eins og okkur var uppálagt, undir sóttvarnarreglum sem ÍSÍ gaf út í samræmi við almennar reglur stjórnvalda.
Allt gekk það þó áfallalaust og mesta furða hvað hægt var að starfa, námskeið og mót voru nærri óskert allt tímabilið, en aðrar samkomur var varla um að ræða. Eins féllu niður félagsreiðtúrar vegna samkomutakmarkana og félagsstarf Heldri manna og kvenna var í algeru hléi. Þannig að við höfum til margs að hlakka næsta vetur, að geta sinnt okkar félagsstarfi á eðlilegan hátt. Endurvakin kynbótanefnd gat til dæmis ekki tekið til starfa síðasta vetur, en nú horfir það til betri vegar.
Það er líka svolítið sérstakt að taka við formennsku Harðar á slíkum tímum, fundir utan félags eru fæstir í raunheimi og erfiðara að kynna sig fyrir félagsmönnum sem maður má eiginlega ekki hitta. En það hefur þó auðvitað ýmislegt verið unnið á þessu stytta starfsári og hugur í okkur stjórninni.
Stjórn hefur fundað mjög reglulega, jafnvel ört í vor og hefur verið hægt að halda alla fundi í raunheimi, örsjaldan þurfti að grípa til fjarfundarbúnaðar ef ekki allir gátu setið fundi. Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins, þær hafa fundað eftir þörfum og eru nokkuð sjálfstæðar í sínum verkefnum.
Reglulega fundaði formaður og stjórnarmenn með starfsmönnum Mosfellsbæjar.
Formenn Hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarin ár hist reglulega til að ræða ýmis sameiginleg mál, aðeins var einn slíkur fundur haldinn síðasta vetur vegna samkomutakmarkana og annarra aðstæðna.
Formönnum allra hestamannafélaga á landinu var boðið af LH í reiðtúr og kvöldverð á Skógarhólum og var það vel heppnað, sköpuðust skemmtilegar umræður í því fallega umhverfi sem þjóðgarðurinn býður uppá. Vonandi verður þetta árlegur viðburður og enn betur sóttur.
Fasteignir
Rekstur reiðhallarinnar gekk vel og var nokkuð eðlileg útleiga á henni síðasta vetur, minni notkun Framhaldsskólans en áður þó. Aðgangur félagsmanna með lyklum var í samræmi við fyrri ár, ívið meiri ef eitthvað og hófst fyrr að haustinu. Ákveðið var að leggja í nokkrar endurbætur á gólfi hallarinnar og var því að ljúka nú um daginn. Gólfið var tætt verulega upp og blandað sandi við efnið sem fyrir var. Svo var sett furuflís yfir sem gerir gólfið mýkra og bjartara. Sandurinn kemur svo vonandi í veg fyrir að gólfið verði eins hart og áður, undir flísinni. Stjórn hefur verið í góðu sambandi við önnur félög til að leita ráða varðandi hvernig gólfinu er best sinnt. Að auki er búið að festa kaup á tæki til að setja aftan í litla traktorinn okkar með snigli til að jafna gólfið dags daglega, það tæki mun jafnvel einnig nýtast á keppnisvöllinn og mögulega einhverja reiðvegi. Rukkað var fyrir auglýsingaskilti í reiðhöllinni samkvæmt samningum, einhverjir hættu samstarfi og vinna er í gangi að fá nýja aðila inn með auglýsingar. Reiðhallarnefnd var endurvakin og hefur hún staðið fyrir tiltekt í höllinni auk þess að skipuleggja stærri verkefni, lagfæringarnar á gólfinu og þess háttar. Sama nefnd hefur sinnt vallarsvæðinu og var ýmislegt hresst við þar í vor. Það er þó komið að verulegum framkvæmdum við völlinn og er verið að skipuleggja það verkefni.
Harðarból var ekki í útleigu síðasta vetur nema til karlakórsins Stefnis þegar þeir gátu farið að æfa aftur vegna takmarkana. Mjög glæddist svo í sumar og haust í kjölfar tilslakana og er húsið mjög mikið bókað núna og fram á næsta ár. Lokið var við að endurnýja salernin í Harðarbóli á meðan það var ekki í útleigu og ýmislegt annað var endurbætt innanhúss og utan, má segja að þetta hlé á útleigu hafi komið sér ágætlega til að sinna þessum verkum. Mikil upplyfting hefur orðið undanfarið á félagsheimilinu okkar og er rétt ólokið við að innrétta skrifstofuna, það er lokahnykkur í þessari yfirhalningu. Eiga þeir félagar okkar sem hafa staðið í þessari vinnu miklar þakkir skildar.
Umhverfi
Vinna við Ævintýragarðinn hélt áfram í ár og var töluvert mikið um framkvæmdir sem sumar snertu okkur hestamenn beint, einkum vinna við samgöngustíg. Lokun reiðleiðar neðan við íþróttasvæðið að Varmá hefur dregist úr hófi, byrjað var mun seinna en áætlað var og enn er svæðið ekki komið í ásættanlegt horf. Vinna við reiðleið innan garðsins er ekki hafin, en er á teikniborðinu.
Sett voru upp skilti við Harðarbraut og Varmárbakka og eins vegvísir að Harðarbóli. Hraðahindrun á Harðarbrautina var sett upp seinnipartinn í sumar. Vonandi er hún góð áminning til allra að draga úr ökuhraða í öllu hverfinu. Það verður að segjast að margi aka allt of greitt um göturnar í hverfinu. Fleiri götuskilti í efri hluta hverfisins eru á leiðinni og eins er verið að hefja vinnu við að skipuleggja skilti á reiðleiðum.
Kerrustæðin hafa komið vel út og eru um 80 stæði í útleigu. Þau eru öll númeruð og færri og færri að ruglast á stæðum, en vöntun er í raun á kerrustæðum og erum við að vinna í að reyna að leysa það mál.
Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta. Félagsmenn voru virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk. Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni þar sem gætt var ýtrustu sóttvarna. Ánægjuleg samvera og þessi dagur er alltaf skemmtilegur hluti af félagsstarfinu.
Lóðaúthlutun samkvæmt nýju deiliskipulagi hefur tafist og fengust þær skýringar á, að breytingin og fjölgun lóða skarast á við tvö ólík lönd sem hefur skapað mikla og flókna vinnu sveitarfélagsins því klára þarf breytingar á þessum löndum bæði hjá Þjóðskrá og Sýslumanni. Í einhverjum tilfella eru eldri gögn af skornum skammti og skráningar ekki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í dag. Því hefur átt sér stað mikil vinna í nýrri skráningu þess lands sem er meðal annars undir vegum og bílastæðum á svæðinu. Í skoðun eru nokkur verkleg atriði sem vinna þarf svo hægt sé að gera lóðirnar byggingarhæfar. Þá þarf meðal annars að færa eina stóra lögn sem liggur undir hinum þremur nýju húsum. Áætla þarf kostnað þess auk annarra innviða sem fellur inn í gjöld úthlutunar svo áætlanir standist. Við vonumst til að þessari vinnu ljúki á næstu vikum og við getum farið í að úthluta lóðunum sem allra fyrst. Sú úthlutun er á hendi bæjarins líkt og gildir með aðrar lóðir og við höfum enn ekki upplýsingar um hvernig hún fer fram.
Þrátt fyrir ítrekaða leit að hesthúsi til leigu og jafnvel kaups undir félagshesthús þá er enn ekki annað í boði en að leigja pláss í Blíðubakkahúsinu undir þessa starfssemi. Þar eigum við frátekin pláss bæði fyrir börn og unglinga sem eru með eigin hest og þá sem vilja leigja hest næsta vetur. Okkur hefur ekki tekist að ganga frá samningum við Mosfellsbæ um þátttöku í kostnaði, sem er meiri en við ætluðum með því að vera ekki í eigin húsi. Málið er í vinnslu og vonandi getum við farið af stað með félagshesthús til reynslu eftir áramót. Búið er að skipuleggja starf og kennslu í tengslum við verkefnið og gera kostnaðaráætlun. Það er bagalegt hvað þetta hefur verið löng og erfið fæðing en þannig er staðan og við viljum vita hvað við erum að fara útí og að þeir sem njóta þjónustunnar viti að hverju þeir ganga.
Starfsmenn félagsins á árinu voru Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri í 50 % starfi sem sér m.a. um reiðhöllina, hringvöllinn og allar framkvæmdir á vegum félagsins og Sonja Noack einnig í 50 % starfi sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námskeið, sendir út reikninga og sinnir dags daglegum skrifstofustörfum o.fl. Auk þess starfar Sonja sem yfirreiðkennari félagsins. Guðrún Magnúsdóttir sér nú um útleigu á Harðarbóli og starfar við veislur þar og þrif að auki.
Reiðleiðir
Reiðvegastyrkur frá Mosfellsbæ var svipaður og árið áður og styrkur frá LH var ívið hærri.
Okkar aðal reiðleiðir voru lagfærðar eins og undanfarin ár og er Tungubakkahringurinn að verða býsna góður þó leiðin sé enn í vinnslu og verið að hækka veginn upp áður en farið verður að bera betra efni í efsta lagið. Nú í haust verður lagfærð leiðin meðfram fótboltavellinum.
Haldið var áfram að vinna í Ístakshringnum og er stefnan að sú leið verði að miklu leiti opin á veturna.
Reiðleiðirnar um Skammadal og víðar í Mosfellsdal voru yfirfarnar og ræsi lagfærð.
Í vor var undirritaður samgöngusáttmáli sem hestamenn eru aðilar að í gegnum Landssamband hestamannafélaga. Sáttmálinn var gerður á milli ólíkra útivistarhópa sem í auknum mæli eru að rekast á í sinni útivist svo truflun verður á og jafnvel slys. Í kjölfarið átti sér stað mjög þarft og gott samtal sem við höldum áfram og pössum að eiga góð samskipti við þá sem deila stígum og öðru með okkur. Jafnframt þurfum við að huga að okkar sérstöðu og gæta hennar og passa upp á okkar íþróttamannvirki sem eru einmitt að mestum hluta reiðvegir. Það er stöðug ásókn í að nota reiðvegi undir annað og við verðum að taka jákvætt á þeim málum sem upp koma og vinna úr í sátt. Við eins og aðrir þurfum að læra að njóta útivistar við breyttar aðstæður, þær eru breyttar til frambúðar og við verðum að einhverju leiti að aðlagast. Því betra samtal sem við eigum því meiri líkur eru á að hlaupandi, gangandi og hjólandi fólk læri að umgangast okkur og hestana okkar og árekstrum fækki.
Ýmislegt
Beit var úthlutað venju samkvæmt og var 1 hólf tekið nýtt í notkun. Skil voru il fyrirmyndar og öll hólf í góðu ástandi við lok beitar. Sum hólfanna hefðu raunar þolað meiri beit og mun stjórn hafa bæði ofnot og vannýtingu til hliðsjónar við næstu úthlutun.
Framkvæmdaáætlun til næstu ára er uppfærð og send Mosfellsbæ. Gott er að vinna eftir slíkri áætlun og hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem við viljum fara í og hver aðkoma bæjarins er að þeim. Aukinn íbúafjöldi þýðir aukningu í hestamennskunni og nú þegar er töluverður skortur á hesthúsplássum í hverfinu.
Í vor voru settir inn á heimasíðu félagsins tveir hnappar, annar fyrir ábendingar um það sem má bæta í okkar umhverf og mannvirkjum. Hinn er til að tilkynna um atvik sem verða á svæðinu, slys eða óhöpp. Mjög mikilvæg er að slík mál berist rétta leið svo hægt sé að gera úrbætur ef þarf. Báðir þessir hnappar eru rétt og stutt boðleið til stjórnar svo við fáum einhverja yfirsýn yfir það sem þarf að laga og almennir félagsmenn geti lagt sitt af mörkum til innra starfs félagsins.
Benedikt Ólafsson og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar 2020 eins og fram kom á síðasta aðalfundi í janúar og óskum við þeim innilega til hamingju með þann titil. Viðurkenningar hafa verið veittar á árshátíð félagsins, en engin slík var haldin 2021 frekar en 2020. Vonandi verður hægt að veita viðurkenningar á næstu árshátíð félagsins sem væntanlega verður á fyrstu mánuðum næsta árs.
Nefndir félagsins hafa að venju staðið sig afburða vel, þrátt fyrir mótlæti vegna Covid. Eiga nefndarmenn þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig fyrir félagið. Án sjálfboðaliðastarfsins væri félagið ekki til. Nefndakvöld verður haldið í nóvember sem smá þakklætisvottur til þessa hóps. Vert er einnig að þakka Mosfellsbæ fyrir öflugan stuðning við félagið.
Skýrslur frá nefndum félagsins eru birtar á heimasíðu félagsins, ásamt ársreikningi og skýrslu stjórnar.
Hestamannafélagið varð 70 ára 26. febrúar 2020 og enn bíða veisluhöld þess vegna betri tíma. Vonandi getum við gert eitthvað skemmtilegt af þessu tilefni í vetur.
Félagið stendur vel fjárhagslega þó aðstæður hafi verið erfiðar á köflum undanfarið ár. Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ. Auk þess á félagið nú fulltrúa í varstjórn UMSK og er það áhugaverð tenging inn í íþróttahreyfinguna, mikill stuðningur sem við getum sótt þangað og reynsla sem nýtist.
Stjórn félagsins þakkar félagsmönnum fyrir árið og hlakkar til samstarfs og ríkari samveru í framtíðinni.
Fh stjórnar Harðar
Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður