Ársskýrsla 2020 - Félag hesthúsaeigenda á Varmárbökkum Mosfellsbæ

Ársskýrsla Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ 2020

Í stjórn Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum á Varmárbökkum 2020 sátu:

Júlíus Ármann formaður

Þóra A. Sigmundsdóttir gjaldkeri

Björk Magnúsdóttir ritari

Herdís Hjaltadóttir meðstjórnandi

Kjörinn endurskoðandi: Erna Arnardóttir

Tilgangur félagsins er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthús á svæðinu og stuðla að ýmsum félagslegum umbótum. Í samningi Mosfellsbæjar og Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum frá 5. nóvember 2001 kemur fram að félagið hafi áfram til ársins 2023 réttindi sem lóðarhafi að sameiginlegu svæði hesthúsaeigenda á Varmárbökkum til sameiginlegra þarfa þeirra. Samkvæmt 11. gr. samningsins framlengist hann um fimm ár í senn, sé  honum ekki sagt upp með eins árs fyrirvara. Forsenda fyrir úthlutun svæðisins til félagsins er að félagið standi opið öllum hesthúsaeigendum á svæðinu og þeir geti nýtt alla aðstöðu á svæðinu eins og um sameign þeirra sé að ræða á grundvelli hliðstæðra reglna og kveðið er á um í lögum um fjöleignarhús, enda skulu þeir vera félagar í Félagi hesthúsaeigenda. Félagið skuldbindur sig til þess að hafa eftirlit með því að hesthúseigendur fullnægi skilmálum um umgengni og þrifnað í hesthúsahverfinu samkvæmt skipulags- og byggingarskilmálum fyrir hverfið, lóðaleigusamninga og samþykkt nr. 238/997. Verði félagsmenn ekki við tilmælum félagsins um umgengni, skal félagið leita til bæjarins, sem þá skal beita tiltækum úrræðum til bóta. Gegn þessum skilmálum greiðir félagið ekki lóðarleigu til Mosfellsbæjar.

Á starfsárinu 2020 voru haldnir þrír stjórnarfundir. Vegna fordæmalausra aðstæðna í samfélaginu vegna veirunnar Covid-19 voru ekki haldnir hefðbundnir stjórnarfundir og framan af fóru samskipti fram í gegnum tölvupóst og síma varðandi fyrirliggjandi verkefni. Vegna aðstæðna dróst að halda aðalfund félagsins vegna fjöldatakmarkana en þegar færi gafst var gætt að fjarlægðarmörkum og smitvörnum.

Sjúkragerðið er á vegum félagsins og hafa Júlíus og Herdís séð um það og liðsinnt þeim sem á því hafa þurft að halda fyrir veik og slösuð hross.

Hringgerðin eru í eigu og umsjón félagsins. Kvörtun barst um vatnsaga í gerðunum vegna þess að mölin sópast til hliðanna og lokar fyrir afrennsli. Verktaki var fenginn til að draga mölina aftur inn á miðju og gera vatnsrákir til að vatnið renni frá. Þá setti Magnús Ingi lamir á hliðin í gerðunum.

Líkt og undangengin ár sá félagið til þess að trjágróður á svæðinu væri snyrtur.

Félaginu bárust kvartanir vegna gáma og vörubílspalla sem notaðir eru sem taðþrær í hesthúsahverfinu og í framhaldinu sendi félagið fyrirspurn á þá sem við átti varðandi frekari fyrirætlanir.

Nokkrar umræður urðu um hvaða verklag félagið eigi að viðhafa við að sjá til þess að félagsmenn gangi vel um hesthús sín og nærumhverfi. Til hliðsjónar eru; samningur félagsins við Mosfellsbæ um hesthúsahverfið á Varmárbökkum, samþykkt um umgengni og þrifnað í hverfinu nr. 283/1997 samþykktar af Umhverfisráðuneytinu og lóðarleigusamningar.

Júlíus Ármann

rekstrarreikningur.JPG

efnahags.JPG