Breytingar á vörslu vegna lausra hrossa

Fyrir dyrum standa breytingar á fyrirkomulagi á vörslu vegna lausra hrossa í

umdæmi Mosfellsbæjar. Hestamannafélagið Hörður mun koma að því á

ársgrundvelli og sjá að miklu leiti um verkefnið.

Hingað til hefur félagið séð um vaktir og handsömun lausra hrossa frá 10. Júní

til 10. September ár hvert frá klukkan 17:00 til 8:00 á virkum dögum og alfarið

um helgar. Þá hefur félagið séð um geymslu handsamaðra hrossa allt árið. En nú

horfir sem sagt í að breyting verði á og félagið yfirtaki þetta verkefni að

stærstum hluta. Fram til þessa hafa starfsmenn áhaldahúss Mosfellsbæjar séð um

það að undanskildum þeim tíma sem að ofan greinir.

Tveir fundir hafa verið haldnir með fulltrúum Harðar og starfsmönnum

Mosfellsbæjar um málið og kom þar fram að hestamannafélagið myndi finna

rekstraform á þessa starfsemi/verkefni. Sú hugmynd hefur orðið ofan á að leita

til félagsmanna sem eiga flutningstæki þ.e. bíl og kerru og myndu þeir aðilar sjá

um handsömun hrossanna og koma þeim á geymslustað hverju sinni. Um yrði að

ræða fulla greiðslu fyrir viðvikið en hluti handsömunargjaldsins rynni í

sérstakan rekstrarsjóð til reksturs starfseminnar.

Er hér með óskað eftir að þeir sem reiðbúnir eru til þátttöku í þessu verkefni gefi

sig fram við beitarnefnd á netfanginu vakri hjá símnet.is eða í síma 896 6753.

Nú þegar hefur verið leitað til nokkurra félagsmanna og hafa undirtektir verið

mjög góðar. Menn almennt tilbúnir að axla þessa ábyrgð sem á okkur hefur

verið sett.

Í tengslum við þessar breytingar stefnir í að lausnargjald fyrir handtekin hross

hækki verulega og geymslugjald sömuleiðis. Lausnargjaldið er í dag kr. 15.000

og geymslugjald kr. 1.500 á dag. Reikna má með að gjaldskráin verði hækkuð

um allt að 100% og því ljóst að mikill fjárhagslegur ávinningur sé fyrir

hestaeigendur að hafa girðingar í góðu lagi og tryggja sem best að hross haldist

örugglega innan girðinga eða hesthúsa. Og svo ekki sé nú talað um öryggisins

vegna.

Beitarnefnd