Leirvogstunga styður unga hestamenn
- Nánar
- Flokkur: Æskulýðsnefnd
- Skrifað þann Þriðjudagur, janúar 15 2008 10:32
- Skrifað af Super User
Leirvogstunga og æskulýðsnefnd Hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ hafa undirritað samstarfssamning sem beinist að því að efla hestamennsku æskunnar í Mosfellsbæ.
Samkvæmt samningnum verður Leirvogstunga aðalstyrktaraðili æskulýðsnefndarinnar næstu þrjú ár. Fyrsta árið verður styrknum meðal annars varið í að greiða Hestheimaferð og kaupa hljóðkerfi fyrir reiðkennslu í nýja reiðhöll Harðar. Næstu tvö ár verður féð notað til að stuðla að aukinni keppnisþjálfun ungra félagsmanna og halda sérstakt Leirvogstungumót en æskulýðsnefnd Harðar stefnir að því að festa æskulýðsmót í sessi á næstu árum.
Guðjón Magnússon formaður Hestamannafélagsins Harðar: „Æskulýðsstarf skipar veglegan sess í starfi Hestamannafélagsins Harðar. Með tilstyrk Leirvogstungu getum við eflt það enn frekar og það skiptir okkur miklu máli, sérstaklega nú á Landsmótsári.“
Katrín Sif Ragnarsdóttir hjá Leirvogstungu: „Öflugt starf Hestamannafélagsins Harðar hefur ekki farið framhjá okkur í Leirvogstungu. Við sjáum það daglega. Það er okkur sönn ánægja að eiga þess kost að styðja það enn frekar.“
Mynd: Guðjón Magnússon formaður Hestamannafélagsins Harðar og Katrín Sif Ragnarsdóttir hjá Leirvogstungu handsala samninginn.