- Nánar
-
Flokkur: Æskulýðsnefnd
-
Skrifað þann Mánudagur, maí 01 2006 06:26
-
Skrifað af Æskulýðsnefnd
Fréttir úr hestheimaferð
Helgina 28.- 30. apríl fóru 14 hressir krakkar og 4 kellur í Hestheima á vegum Æskulýðsnefndar Harðar. Lagt var af stað frá félagssvæðinu um kl. 19.00 og komið í Hestheima rétt upp úr 20.00. Í hestheimum tóku heiðurshjónin Gísli og Ásta Begga á móti okkur á sinn einskaka hátt og öllum fannst um leið að þeir ættu heima á staðnum. Hópurinn okkar fékk gestahúsið fyrir sig þar sem við komum okkur fyrir á föstudagskvöldið. Hestunum okkar komum við fyrir í góðu yfirlæti í hestuhúsinu á staðnum. Kvöldið var síðan notað til að koma sér vel fyrir, borða, skemmta sér og fara í heita pottinn. Allir voru svo komnir í bólið sitt upp úr ellefu en sumir þurftu að tala meira en aðrir eftir að ljós voru slökkt.
Laugardagurinn var tekinn snemma, ræs kl. 7.30 og morgunmatur kl. 8.00 á heimili Ástu Beggu og Gísla. Þá fóru allir að gera sig klára í hesthúsið og kl. 9.00 var búið að leggja á og heimsmeistarinn sjálfur af næsta bæ, hann Siggi Sig. var mættur til að þjálfa keppnishópinn okkar. Fengu þau frábæra leiðsögn og tilsögn hjá heimsmeistaranum en það sem sló samt öllu við var hin frábæra snilli hans í jafnvægislistum í hjólastól. Þykir nú nokkuð ljóst að til að geta orðið heimsmeistari í hestaíþróttum þá þarf viðkomandi að ná fullkomnu jafnvægi í hjólastól og helst að geta drukkið kaffi úr bolla á meðan (það skal tekið fram að hjólastóllinn var til í Hestheimum). Á meðan Siggi Sig. leiðbeindi keppniskrökkunum fór hinn hópurinn á hringvöll fyrir utan og liðkaði hestana sína til og skrapp í stuttan reiðtúr.
Eftir hádegi tóku keppniskrakkarnir smá tæknipásu (enda komin rigning) meðan hinn hópurinn fékk Hugrúnu í Austurkoti til sín. Hugrún tók töltið fyrir og mátti sjá mikinn árangur hjá krökkunum eftir klukkutímann undir hennar leiðsögn. Það er greinilega góður efniviður í krökkunum í Herði og áhugi þeirra á hestamennsku mikill. Það er alveg með ólíkindum hversu gott vald þau hafa á hestunum sínum og hve fínstillt þau eru að verða.
Eftir kaffi fór svo allur Hesheimahópurinn í reiðtúr. Um kvöldið átti svo að vera kvöldvaka en hún snerist fljótlega upp í fótbolta, rugby og keppni í jafnvægislistum í hjólastól (það eru ýmsir sem stefna á heimsmeistaratitilinn). Það er alveg með ólíkindum hvað þessir krakkar eru duglegir og atorkusamir, kurteisir og skemmtilegir og gaman að vera með þeim í svona skemmtiferð. Þarna léku allir sér saman, hvort sem þeir voru 10 eða 16 og allir voru vinir. Nú bíðum við öll spennt eftir næstu Hestheimaferð.
Á sunnudagsmorgun var pakkað niður og tekið til áður en haldið var í hesthúsið og farið í góðan reiðtúr. Lagt var af stað frá Hestheimum kl. 13.00 og komið í bæinn rúmum klukkutíma síðar og hestarnir skömmu eftir það. Við kellurnar í Æskulýðsnefnd þökkum kærlega fyrir frábæra helgi og öll þökkum við þeim heiðurshjónum í Hestheimum kærlega fyrir okkur.