- Nánar
-
Flokkur: Æskulýðsnefnd
-
Skrifað þann Miðvikudagur, desember 01 2004 10:03
-
Skrifað af Æskulýðsnefndin
Vegna mistaka kom ekki fram skýrsla æskulýðsnefndar í Ársskýrslu félagsins á aðalfundinum og biðst stjórnin innilegrar afsökunar á því. Hér birtist hún í heild sinni. Starf æskulýðsnefndar hestamannafélagsins Harðar veturinn 2003 2004
Uppskeruhátíð.
Félagsstarfið hófst á veglegri samkomu en þar var slegið saman uppskeruhátíð og foreldrafundi.
Á uppskeruhátíðinni voru þau börn, unglingar og ungmenni sem skarað höfðu fram úr á keppnisvellinum heiðruð. Formaður félagins Guðmundur Björgvinsson, afhenti þeim viðurkenningu fyrir góðan árangur.
Á foreldrafundinum, sem haldinn var í beinu framhaldi af uppskeruhátíðinni, var farið yfir markmið æskulýðsstarfsins, nefndarmenn kynntir og farið var yfir dagskrá vetrarins. Að lokum var boðið upp á kaffi og kökur.
Námskeið voru ákaflega vel sótt hjá börnum og unglingum félagsins. Námskeiðin byrjuðu 1. febrúar og stóðu fram í miðjan júní. Sigrún Sigurðardóttir er fastur liður hjá félaginu, hún kenndi á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum. Námskeiðin hjá Sigrúnu eru alltaf eftirsótt og fullbókuð að venju. Þá voru Barbara Meyer og Friðdóra Friðriksdóttir með keppnisnámskeið og voru þau á mánudags- og miðvikudagskvöldum. Þau börn sem tóku þátt í keppnisnámskeiðinu fengu fallegar Mountain Horse úlpur merktar Herði en Nóatún, Íslandsbanki og Ístölt styrktu þau til úlpukaupana. Keppnisnámskeiðinu lauk með afhendingu viðurkenningarskjala og jafnframt fengu krakkarnir Litlu hestahandbókina að gjöf frá félaginu.
Hestheimar. Félagið stóð fyrir tveimur ferðum í Hestheima á liðnum vetri. Fyrri ferðin var fyrir krakkana sem voru á keppnisnámskeiðinu hjá Friðdóru og Barböru. Ferðin var vel sótt enda eru þessar ferðir orðinn fastur liður hjá félaginu og annálaðar fyrir skemmtilegheit. Þó var ekkert slegið af við vinnu. Friðdóra og Barbara höfðu yfirumsjón með ferðinni. Nokkrir krakkar í félaginu sýndu jafnvægisæfingar á hestbaki fyrir ferðamenn sem voru í heimsókn hjá þeim Ástu Beggu og Gísla í Hestheimum. Seinni ferðin var fyrir aðra félagsmenn, börn og foreldra þeirra og var sú ferð einnig vel sótt. Þessa helgi var fókusinn aðeins öðruvísi, minna var um kennslu og meira var um reiðtúra um nágrennið og leiki inni í reiðskemmu. Þau hjónin í Hestheimum eru höfðingjar heim að sækja og hefur félagið þegar bókað tvær helgar hjá þeim á komandi vetri.
Landsmót. Félagið sendi myndarlegan hóp barna, unglinga og ungmenna á Landsmót. Vel var að undirbúningi keppenda staðið og fengu krakkarnir aukarennsli á sk. Mini-gæðingamóti, en þar riðu keppendur eftir gæðingamótsprógrammi, mótanefnd á heiður skilið fyrir vasklega framgöngu í mótahaldi fyrir æsku félagsins. Skeljungur hf., Nóatún og Mosfellsbakarí styrktu krakkana til að kaupa fallega íþróttagalla sem þau notuðu óspart á Lansdmótinu. Krakkarnir stóðu sig í alla staði vel og voru félaginu til sóma.
Æskan og hesturinn. Félagið sendi, að venju, breiðan hóp sýnenda á sýninguna. Auk pollareiðarinnar sýndu unglingar skrautreið undir nafninu englar og púkar og átta börn frá okkur voru í grímubúningareiðinni. Í fánareiðinni voru að vanda unglingar og ungmenni. Félagið leggur áherslu á að sem flestir komist að og að sýnendur kæmu helst ekki fram í fleirum en einu atriði.
Uppákomur
Félagið stóð að venju fyrir barnaárshátíð félaga á stór Reykjavíkursvæðinu. Árshátíðin tókst ákaflega vel, húsfyllir var og skemmtu börnin sér vel. Á matseðlinum voru pizzur kjúklingur og franskar (nokkuð staðlaður matur). Farið var í leiki, happdrætti og svo var haldið diskótek.
Fyrsta sunnudag í hverjum mánuði hefur verið haldinn sk. Fjölskyldureiðtúr. Þessir reiðtúrar hafa satt best að segja ekki verið mikið sóttir en sá síðasti þeim mun betur sóttur. Síðasti fjölskyldureiðtúrinn var haldinn um miðjan maí í köldu veðri. Það aftraði ekki félagsmönnum við að fjölmenna. Líklega hafa verið í kringum fimmtíu manns. Lagt var af stað úr Miðdalnum hjá Svönu og Guðmundi, þaðan var riðið inn í Eilífsdal og áð áður en haldið var heim á ný. Að reiðtúrnum loknum var grillað ofan í mannskapinn. Krakkarnir skemmtu sér konunglega enda margt að skoða í sveitinni.
fh. Æskulýðsnefnd Harðar
Ása Magnúsdóttir