Nýtt, nýtt, - Fræðslunefnd fatlaðra hjá Herði

Við vigslu reiðhallar Harðar Nóv.2009Það hefur lengi verið draumur Harðarmanna að leggja okkar af mörkum til að fatlaðir einstaklingar geti stundað reiðmennsku og var það eitt af markmiðum þegar ráðist var í hönnun reiðhallarinnar sem var vígð i nóvember 2009. Draumur okkar var að þjálfun fatlaðra ætti hér góða aðstöðu og er allt fyrirkomulag reiðhallarinnar miðað við að svo geti orðið. Það voru settar stórar innkeyrsludyr á húsið og ríflegt svæði við þær framan við reiðvöllinn sem gefa færi á að keyra inn bíla með fatlaða einstaklinga en hægt er að aka að sérstakri lyftu til að auðvelda praktísku hlutina. Þessi lyfta var gjöf frá Jón Levy sem lét smíða hana þegar hann átti orðið erfitt með að komast á bak vegna MS sjúdóms. 

Fræðslunefnd fatlaðra hjá Hestamannafélaginu Herði var stofnuð 14. október 2010. Nefndina skipa: Auður G. Sigurðardóttir, Frosti Richardsson og Leifur Leifsson.

Aðaláherslur nefndarinnar er að skipuleggja og halda utan um námskeið sérhönnuð fyrir fólk með fatlanir, hreyfihamlanir og þroskahömlun. Einnig er hugur á að ná til fólks sem er í endurhæfingu.  Nefndin hefur í samstarfi við Hestamennt, en þau eru með margra ára reynslu af vinnu með einstaklingum með fatlanir, verið að skipuleggja að halda námskeið og vera með reiðkennslu, bæði í formi almennrar reiðkennslu og sjúkraþjálfunnar.

Verið að leggja línurnar fyrir starfið sem mun vonandi hefjast eftir áramótin 2010- 2011. Nefndin hefur hug á að halda úti þessum námskeiðum reglulega og jafnvel þróa þetta út í sértíma þar sem fólk getur komið og brugðið sér á bak undir handleiðslu fagfólks á þeirra eigin forsendum. Undanfarið hefur verið unnið að því að koma út styrtktarbeiðnum til fyrirtækja fyrir aðstöðu 4-5 hrossa sérstaklega valin til þessa verkefnis til að hafa í húsi í a.m.k. 1 ár til að byrja með . Einnig verða styrktarbeiðnir sendar út til að safna fyrir sérsmíðuðum hnökkum fyrir einstaklinga með fötlun. Vonast er til að einhver mynd verði komin á starfið um næstu áramót.