Aðalfundur 2008
- Nánar
- Skrifað þann Þriðjudagur, janúar 20 2009 23:08
Hestamannafélagið Hörður
Aðalfundur 4. Desember 2008 kl. 20.00. mættir fyrir utan stjórn 96 manns.
DAGSKRÁ
-
Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.
- Formaður flytur skýrslu stjórnar.
- Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör.
- Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
- Reikningar bornir undir atkvæði.
- Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.
- Árgjald ákveðið.
- Lagabreytingar.
- Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga.
- Önnur mál.
- Fundarslit.
Formaður setur fund og stingur upp á Marteini Magnússyni sem fundstjóra og Ólöfu Guðmundsdóttur sem fundaritara sem er samþykkt af fundarmönnum.
Fundarstjóri þakkar traustið og ber upp breytingu á áður auglýstri dagskrá og fær samþykki um að fyrst skuldi fara fram athöfn um inngöngu Hestamannafélagsins sem fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.
Frá ÍSÍ eru komin Sigríður Jónsdóttir og Hafsteinn Pálsson. SJ fær orðið og veitir félaginu viðurkenningu og fána fyrir hönd ÍSÍ og óskar félaginu til hamingju með inngönguna hún minnist á að með þessari viðurkenningu þá vinni félagið með handbók sem stjórntæki ásamt því að innleiða vönduð vinnubrögð og verklag til fyrirmyndar. Formaður tekur við viðurkenningu og færir ÍSÍ þakkir fyrir.
Fundarstjóri tekur við og fer yfir 5. gr. félagsins og ályktar fundin lögmætan.
Formaður flytur skýrslu stjórnar
Haldnir voru 11 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni. Nýja heimasíðan var mikið notuð og hefur upplýsingaflæði til félagsmanna aldrei verið meira, bæði um heimasíðuna og upplýsingatöfluna sem við létum gera upp og koma í nothæft stand. Einnig var gefið út fréttabréf á árinu, hugmyndin var að gefa út annað fréttabréf eftir Landsmót, en það fórst fyrir vegna anna og veikinda útgáfustjóra.
Liðið ár hefur verið spennandi og gott ár fyrir okkur sem starfað hafa fyrir félagið, þrátt fyrir mótbyr í reiðhallarmálum, almennan samdrátt, vaxtahækkanir og nú síðast kollsteypu alls þjóðfélagsins. Félagsstarfið var líflegt og er gaman að sjá hvað félagshyggjan virðist vera að vakna aftur, kvennadeildin er stórefld og kemur nú að matseld hér í Harðarbóli, æskulýðsnefndin hefur stýrt glæsilegu barna og unglingastarfi í vetur og ætlar sér enn meiri hluti næsta vetur, fræðslunefndin hefur unnið stórvirki þegar tillit er tekið til þeirrar erfiðu aðstöðu eða aðstöðuleysi sem hrjáir hana, reiðveganefndin vinnur hörðum höndum að bættum reiðvegum og svo mætti lengi telja.
Við höfum lagt áherslu á að praktísku atriðin séu í lagi og sömdum við bæjarfélagið um snjómokstur reiðleiða, en það varð til þess að við gátum, og getum nú látið ryðja reiðvegina strax og þörf er á, en þurfum ekki að bíða eftir að búið sé að moka allt annað í bæjarfélaginu eins og áður.
Landslag ehf er að vinna að tillögu um stækkun hesthúsa hverfisins, en hugmyndin er að stækka það í átt að skólanum þar sem nú er Sorpa. Hvernig framhaldið á því málið verður er óljóst þar sem ekki er vitað hvaða áhrif kreppan hefur á framboð og eftirspurn hesthúsa, en deiliskipulagið ætti að klárast fljótlega.
Hörður er loksins orðinn fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ og var sá gjörningur gerður formlega hér á undan.
Mosfellsbær hefur keypt líkamsræktarkort hjá nýrri líkamsrækt við Varmárlaug fyrir afreksmenn í Íþróttum í Mosfellsbæ. 10 kort koma í hlut Harðar. Þeim var deilt út til afreksmanna félagsins, en það er synd að við notum ekki nema um 5 kort, áhuginn fyrir líkamsrækt virðist ekki meiri en það. Eina skilyrðið sem við setjum er að korthafinn sé „afreksmaður í íþróttinni" og að kortin séu notuð og fólk mæti reglulega í ræktina, að minnsta kosti tvisvar í viku.
Hestamaðurinn og Harðarfélaginn Halldór Guðjónsson var valinn íþróttamaður Mosfellsbæjar í ár og var það mikill heiður, bæði fyrir hann persónulega og hestaíþróttina í bænum.
Reiðveganefnd lét gera reiðleiðakort af öllum Mosfellsbæ, en þetta er sama vinna og hin hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að gera. Kort voru lögð til af Mosfellsbæ endurgjaldslaust, og reiðveganefndin skráir leiðirnar í sjálfboðavinnu en kaupa þurfti vinnu við að teikna leiðirnar upp og er sú vinna unnin af Landslagi ehf. Þessar teikningar liggja hér frami til skoðunar.
Gerðir voru samningar við Mosfellsbæ um æskulýðsstarfið og afreksmannastarfið, en þessir samningar verða til þess að nánast tvöfalda þá styrki sem félagið fær frá Mosfellsbæ á næstu 4 árum. Afreksmannasjóðurinn er til þess ætlaður að styrkja einstaklinga sem skara fram úr í íþróttinni, þjálfara til námsferða o.þ.h. Allir Harðarfélagar geta sótt um styrk úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins skipa fulltrúi Mosfellsbæjar, sem í dag er Sigurður íþróttafulltrúi, Formaður Harðar og einn kosinn á aðalfundi. Síðastliðið ár sat gjaldkeri félagsins í stjórninni þar sem sjóðurinn var stofnaður eftir síðasta aðalfund.
Einnig eru uppi áform um að koma afreksmannamálunum í farveg, en fram að þessu hafa þeir afreksmenn sem komnir eru úr ungmennaflokki þurft að sjá um sig algjörlega sjálfir og fá litla aðstoð frá félaginu.
Eins og kunnugt er mun Hörður halda Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna á næsta ári. Mótið verður haldið daganna 24 til 28 júní og er undirbúningur þegar hafinn. Undirbúningsnefnd samanstendur af fólki úr mótanefnd, æskulýðsnefnd, vallarnefnd og aðalstjórn félagsins, auk þess að fleiri nefndir verða kallaðar til þegar nær dregur.
Skógarhólar standa okkur Harðarmönnum nær en flestum öðrum hestamannafélögum. Staða Skógarhóla í dag er óljós og hugmyndir eru uppi um að Þingvallanefnd yfirtaki staðinn. Gerði Hörður tillögu um það á Landsþingi hestamanna að gerð yrði krafa um það að LH verði áfram með umsjón með staðnum, en Þingvallanefnd komi að málinu með okkur og styðji við bakið á okkur í uppbyggingu og rekstri staðarins. Var tillagan samþykkt og verður sett á laggirnar sérstök nefnd innan LH til að fjalla um málið.
Fastir liðir eins og reið í Fák og Gust voru á sínum stað auk þess sem við tókum vel á móti félögum okkar þegar þeir komu í heimsókn.
Gott samstarf hefur verið við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar og gildir þá einu hvort um stjórn- eða stjórnarandstöðu var að ræða, en við teljum okkur vera að merkja að aukinn skilningur er á íþróttinni á meðal bæjarfulltrúa frá ári til árs. Bent hefur verið á að Mosfellsbær hefur algjöra sérstöðu hvað varðar hlutfall bæjarbúa sem eru í hestamennsku, en það lætur nærri að um 8 % bæjarbúa séu í hestamannafélaginu.
Fjölmörg metnaðarfull mót voru haldin á árinu undir stjórn mótanefndar, bæði innanfélagsmót og opin mót.
Félagsgjaldið var, 8.500.- krónur á ári (eða 708.- krónur á mánuði) fyrir fullorðna og 3000.- krónur fyrir unglinga, frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Auk þess er boðið upp á hjónagjald sem er 11.000.- krónur fyrir hjónin og fjölskyldugjald sem er 16.000.- krónur fyrir fjölskyldu og öll börn undir 16 ára aldri. Innifalið í árgjaldinu var frjáls aðgangur að Worldfeng, og er Hörður eina hestamannafélagið sem er með slíkan samning við Worldfeng.
Þrátt fyrir að árgjaldið sé hóflegt miðað við árgjöld í öðrum íþróttagreinum er innheimta félagsgjalda vandamál hjá félaginu, þó heimtur í ár hafi verið betri en á undanförnum árum. Þetta fyrirkomulag á árgjaldi er þungt og erfitt er að halda utan um útgáfu greiðsluseðla og innheimtur. Það mun því verða lagt til hér á eftir að framvegis verði aðeins fjórir flokkar:
12 ára og yngri: Börn fædd 1996 eða síðar : Gjaldfrí
13-16 ára: Unglingar fæddir 1992 - 1995 : 1.500 kr.
17-20 ára: Ungmenni fædd 1988 - 1991 : 2.000 kr.
21-69 ára: Félagar fæddir 1939 - 1987 : 7.500 kr.
Nú er því langþráða takmarki náð að búið er að leggja hitaveitu í hesthúsahverfið og geta þeir sem vilja tekið inn heitt vatn fyrir veturinn. Hestamannafélagið og Hesthúseigendafélagið hafa um árabil unnið að þessum áfanga sem nú er í höfn og er afskiptum félaganna af málinu þar með lokið. Einstakir hesthúseigendur leita beint til tæknideildar Mosfellsbæjar ef þeir hafa fyrirspurnir eða þurfa aðstoð við val á útfærslum.
Reiðhallarmálin hafa legið þungt á stjórninni sem og þeim sem unnið hafa í reiðhallarnefnd, en endalausar tafir hafa knúið okkur til að slíta samstarfi við GT bygg og stál. Fyrst var það hönnuður sem skilaði ekki og var látinn fara eftir 4 mánuði, síðan var það hönnuður sem dó eftir að hafa unnið í 4 mánuði og að lokum hönnuður sem skilaði eftir 2 mánuði, eða í ágúst síðastliðinn. Á þessu tímabili var því velt upp að minnsta kosti tvisvar að skipta um verktaka og gerð verðkönnun hjá öðrum framleiðendum. Við þá skoðun kom í ljós að öll önnur tilboð voru mun hærri en við höfðum ráð á og munaði þar tugum milljóna, það var því ekki annað í stöðunni en halda áfram og vona að verkhraðinn ykist. Þegar hönnunarvinnu var loks lokið var byrjað á undirstöðum sem áttu að taka 3 vikur, en tóku 3 mánuði. Þegar svo var komið og þjóðfélagið allt komið upp á rönd ákvað byggingarnefnd í samráði við aðalstjórn að slíta samningnum og freista þess að ná samningi við annan verktaka um að ljúka byggingunni.
Byggingarnefndin hefur haldið þétt um fjármál reiðhallarinnar og gætt þess að greiða aldrei meira en búið er að gera og er staðan sú í dag að við eigum tilbúnar undirstöður undir reiðhöll skuldlausar og höfum greitt fyrir þær mjög sanngjarnt verð. Við eigum nærri hundrað milljónir sem við fáum greiddar á næstu 4 árum, að mestu með verðbótum, til að ljúka við verkið. Ef við náum samningum við annan aðila um að byggja reiðhöllina er afgreiðslutíminn í dag um 3 mánuðir. Í mars 2009 fáum við 15 millj. króna greiðslu frá Mosfellsbæ auk verðbóta sem erum um 3 millj. til viðbótar í dag. Auk þess fáum við 25 millj. króna greiðslu frá ríkinu þegar húsið er fokhelt. Í mars fáum við því um 38 millj. greiddar og þurfum því aðeins að taka 47 millj. kr. lán til þriggja ára. Í stað 90 millj. til sex ára áður.
Ef allt hefði gengið eftir áætlun þá væri reiðhöllin risin í dag. En þá hefðum við þurft að fjármagna hana að mestu með lánsfé til sex ára. Lánið hefði verið tekið í ágúst 2007, en á þeim tíma þótti ekkert vit í öðru en taka lán í erlendri minnt til að spara kostnað. Ráðgjafar bankans héldu þeirri leið að okkur sem öðrum, enda tóku starfsmenn bankanna slík lán sjálfir á þessum tíma. Lánið hefði verið upp á einar 80 til 90 milljónir, en eins og staðan er í dag stæði slíkt lán líklega í um eða yfir 150 milljónum. Jafnvel þó einhver „afturhaldsseggurinn" hefði fengið því framgengt að tekið yrði innlent vísitölutryggt lán, þá væri staða þess og afborganir þannig í dag að allt væri komið í þrot. Það má því segja að tafirnar hafi verið lán í óláni eins og allt hefur þversnúist í þjóðfélaginu.
Staða framkvæmdanna í dag er sú að hönnun, undirbúningur, gröftur, burðarpúði og sökklar eru metnir á um 45 og 50 millj. kr. í dag. Fyrir það höfum við greitt 34 millj. Auk þess erum við búin að greiða gatnagerðargjöldin sem voru 63 millj. og fengum til þess aukastyrk frá Mosfellsbæ. Það liggja því yfir 100 milljónir í framkvæmdinni eins og hún er í dag og það eigum við skuldlaust. Auk þess eigum við eftir um 90 millj. sem duga til að koma höllinni upp.
Rafn Jónsson tilkynnti í október að hann verði að láta af störfum í stjórn Harðar þar sem hann sé að fara í stórt verkefni í Ástralíu og verður því ekki á landinu fyrr en eftir áramót. Við þökkum honum samstafið.
Skýrslu stjórnar lýkur
Guðný Ívarsdóttir, gjaldkeri afsakar uppsetningu reiknings en eitthvað hefur farið úrskeiðis hjá prentsmiðjunni, hún kynnir ársuppgjörið 2007 og árshlutauppgjör 2008. Hún útskýrir að lægri tekjur voru árið 2007 en 2006 og skýrist það af færri styrkjum, lægri tekjum vegna beitarhólfa, lottótekjur eru bókaðar við greiðslur og félagsgjöld er bókuð við greiðslu en það er breyting frá uppgjörum fyrri ára. Hún útskýrir einnig óreglulegar tekjur félagsins en það eru innkomnir styrkir vegna uppbyggingu reiðhallar kr. 20,396,855 en kostnaður vegna reiðhallar eru eignfærðir og taldir fram sem veltufjármunir kl. 19,800,000. Mismunur inn á reikningi 337 v/reiðhallar.
9 mánaðar uppgjör: Styrkir upp á 2,5 millj., tekjur vegna beitahólfa 800 þús, félagsgjöld um 2 milljónir.
9 mán. uppgjör verður birt í fyrsta fréttablaði ársins 2009.
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins:
Þröstur Karlsson: Leggur fram tillögu að framvegis verði 6 mán. uppgjör kynnt á aðalfundum. Spyr um hvernig sé farið með gatnagerðagjöld sem bærinn er búinn að kreditfæra og spyr hvort það er möguleiki að semja við Límtré um 3 ára greiðslufrest samhliða styrkjum frá Mosfellsbæ.
Sveinfríður: Gagnrýnir að fundarboð eru of mörg nægjanlegt er að senda út eitt fundarboð til fjölskyldu. Spyr um útistandandi félagsgjöld.
Guðmundur á Reykjum: Spyr um samning við Skógarhóla, hverjir það eru sem vilja ekki semja um framhaldi á leigusamningi, það er afar slæmt að missa þetta úr höndum hestamanna.
Gunnar Steinsson: Spyr um heimild til lántöku vegna reiðhallar og um samning við Límtré.
Axel Blomsturberg: Hvernig var uppgjöri við GT háttað, hverjar voru dagsektirnar.
Formaður svarar fyrirspurnum:
ÞK: Sammála um 6 mán. uppgjör í stað 9. mán uppgjörs. Hörður sendir Mosfellsbæ reikning upp á 64 milljónir vegna gatnagerðagjalda en fær á móti styrk . Beingreiðslur til Límtrés er valkostur á móti framsali á samning við Mosfellsbæ, mælir með að hagkvæmasta leiðin sé valin í framhaldi.
S: Fundarboð skal senda til allra félagsmanna skv. Lögum félagsins. Útistandandi félagsgjöld eru ekki innheimtanlegar kröfur, félagið reynir eftir fremsta megni að innheimta öll félagsgjöld.
G: Skógarhólar virðast vera klúður hjá LH. LH var með óraunhæfar kröfur og því óskaði þingvallanefnd eftir að taka Skógarhóla yfir og lágmarka aðstöðu fyrir hestafólk.
GS: Stjórn Hestamannafélagsins fékk heimild fyrir fjármögnun Reiðhallar fyrir einu og hálfu ári þegar haldinn var fundur til þess efnis að fá heimild til þess að ganga frá samningi við GT. Hestamannafélagið á fyrir reiðhöllinni miðað við samning sem liggur fyrir við Límtré.
Keli kemur með innskot: spyr um festingar á sökklum og telur að hurðagöt eru of mjó
AB: Formaður heldur áfram og upplýsir að félagið hafi lokað samningi með lægri upphæð en upphaflega var samið um, þannig hafi félagið náð dagsektunum.
Fundastjóri ber upp reikninginn til samþykktar , sem er samþykktur samhljóða.
Næsta á dagskrá skv.lögum er fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.
Gjaldkeri var ekki tilbúin með fjárhagsáætlun en ákveðið var að kynna hana í næsta fréttablaði. Samþ. af fundarmönnum .
Árgjald: Tillaga um árgjald:
12 ára og yngri: Börn fædd 1996 eða síðar : Gjaldfrí
13-16 ára: Unglingar fæddir 1992 - 1995 : 1.500 kr.
17-20 ára: Ungmenni fædd 1988 - 1991 : 2.000 kr.
21-69 ára: Félagar fæddir 1939 - 1987 : 7.500 kr.
Gunnar Örn Steinsson: Óttaðist það að einstaklingsfélagsgjöld muni valda flótta fólks úr félaginu.
Formaður upplýsti að öryrkjar væru gjaldfríir.
Tillangan boðin upp og samþ. en einn aðili á móti.
Engar lagabreytingar lágu fyrir á fundinum.
Kosningar skv. 6. gr. Í lögum Hestamannafélagsins.
Tillaga stjórnar:
Guðjón Magnússon, formaður
Aðalstjórn: Guðmundur Björgvinsson, Guðný Ívarsdóttir, Ingvar Ingvarsson, Ingimundur Magnússon, Játvarður Jökull Ingvarsson og Ragnhildur Traustadóttir.
Varastjórn: Sigurður Teitsson, Þórir Örn Grétarsson og Ragnheiður Þorvaldsdóttir.
Skoðunarmenn: Leifur Kr. Jóhannesson og Birgir Hólm.
Aðilar á þing UMSK: Guðjón Magnússon og formaður Æskulýðsnefndar.
Í stjórn Afreksmannasjóðs: Guðnýu Ívarsdóttur og Guðjón Magnússon.
Eftir kosningu lá þetta fyrir:
Samþykkt Guðjón Magnússon, formaður
Samþykkt í aðalstjórn: Guðmundur Björgvinsson, Guðný Ívarsdóttir, Ingvar Ingvarsson, Ingimundur Magnússon, Játvarður Jökull Ingvarsson og Ragnhildur Traustadóttir.
Samþykkt í varastjórn: Sigurður Teitsson, Þórir Örn Grétarsson og Ragnheiður Þorvaldsdóttir.
Samþykkt sem skoðunarmenn Leifur Kr. Jóhannesson og Birgir Hólm.
Samþykkt sem aðilar á þing UMSK Guðjón Magnússon og formaður Æskulýðsnefndar.
Í stjórn Afreksmannasjóðs var tillaga um Guðnýu Ívarsdóttur og Guðjón Magnússon sem var samþykkt.
Önnur mál.
Davíð Jónsson: spyr um lokafrágang á reiðhöllinni.
Gunnar Steinsson: Spyr um hvort samningur við Límtré er lánasamningur.
Jón Bob: Spyr um teikningar á reiðhöllinni, hvort þær liggi fyrir eins og staðan er núna.
Formaður svarar fyrirspurnum:
DJ: Hönnun á reiðhöllinni er tilbúin, svo og hönnun á brunavörnum. Reiðhöllin verði vinnuhöll fyrir hestamenn með lágmarksaðstöðu. Markmiðið er að reiðhöllin verði skuldlaus.
Keli. Spyr um uppfyllingu .
Guðmundur Borgar: spyr um rekstrarforsendur fyrir Reiðhöllinni.
Formaður svarar:
Mælir með Jói Odds og Jón Bob verði okkur innan handar með uppfyllinguna.
Upplýsir að reksturinn á reiðhöllinni kosti 7 milljónir pr. ár., Mosfellsbær leigir reiðhöllina af Hestamannafélaginu fyrir ca. 6-7 milljónir á ári.
Sveinfríður: Spyr hvort önnur tilboð liggi fyrir.
Formaður svarar: 5 tilboð eru í gangi.
Margrét Dögg: bendir á að skýrsla fræðslunefndar er ekki í ársskýrslu.
Formaður svarar: Kemur með fréttablaðinu.
Jóhann. Spyr um frágang eftir hitaveituframkvæmdir.
Formaður svarar: Framkvæmdum lokið 1. des.
Fundi formlega slitið kl. 21.45 af formanni félagsins Guðjóni Magnússyni.