Aðalfundur 2004
- Nánar
- Skrifað þann Föstudagur, mars 16 2007 13:46
Haldinn í Harðarbóli þann 1. desember 2004
1. Formaður setur fundinn kl. 20.10. Hann tilnefndi Martein Magnússon sem fundarstjóra og Guðjón Magnússon sem fundarritara og var það samþykkt einróma. Staðfest var að fundur er löglega boðaður og því verður gengið til dagskrár samkvæmt lögum félagsins.
2. Formaður flytur skýrslu stjórnar.
3. Halldór Guðjónsson gjaldkeri félagsins les upp rekstrarreikning ársins 2003, en hagnaður á árinu var um 1,9 millj. Efnahagsreikningur sýnir að eignir hafa aukist um liðlega 800.000.- frá árinu 2002. Lesið upp 9 mánaða uppgjör rekstrar- og efnahagsreikninga ársins 2004 frá 1. janúar til 30. september.
4. Leifur Jóhannesson félagskjörinn skoðunarmaður félagsins minnti á hlutverk skoðunarmanna sem má ekki rugla saman við hlutverk endurskoðenda. Hlutverk skoðunarmanna er fyrst og fremst að skoða rekninga félagsins gagnrýnum augum og benda á það sem betur má fara en kemur ekki í stað endurskoðunar hjá endurskoðanda.
Skoðunarmenn hafa ekki undirritað reikninga ársins 2003 þar sem í ljós hefur komið að skekkja er í þeim. Reikningar bárust seint og því hefur gefist fremur lítill tími til skoðunar, en þó skekkja sé í reikningum er ljóst að rekstrarafkoma félagsinns er mjög góð og ekki er verið ásaka neinn þar sem skekkjan er talin eiga sér bókhaldstæknilegar skýringar. Ábending til stjórnar að gera reikninga upp fyrr á árinu þannig að góður tími sé til yfirferðar og að bókhaldið verði fært á bókhaldsskrifstofu þar sem um mikla nákvæmnisvinnu sé að ræða og umsvif félagsins orðin þó nokkur.
Yfirlit yfir einn bankareikning vantar, en þeir eru 13 talsins, allir hinir 12 eru réttir. Spurning hvort ekki sé rétt að fækka reikningum til að auðvelda yfirlit. Huga að því hvort ekki sé hægt að fá betri ávöxtun af því fé sem geymt er á bankareikningum
Skekkja í reikningum: Á blaðsíðu 9 kemur fram færslan: “Leirðétting vegna fyrri ára 259.688.- “ Þessi leiðrétting hefur áhrif á sjóð, birgðarstöðu, viðskiptaskuldir auk þess að um 46 þúsund krónu skekkja er í dagbók gjaldkera, sem á í eðli sínu að stemma upp á eyri. Vegna þessa treysta skoðunarmenn sér ekki til að undirrita reikninga ársins 2003.
Leifur stingur upp á því að reikningum verði vísað aftur til stjórnar þar sem skekkjan verði fundin og leiðrétt og eftir það skoðaðir aftur af skoðunarmönnum.
Guðni kannast við vandamálið frá sinni tíð. Líklegt sé að skekkjan sé þess eðlis að gjaldkeri fyrri ára hafi fært útistandandi skuld sem tekjur í ársreikningi. Næsti gjaldkeri fái síðan skuldina greidda og færi hana aftur sem tekjur, en átti sig ekki á því að færa hefði átt innborgunina á viðksiptamannareikning. Þannig er færslan tvítekin og skekkja myndast.
Ása upplýsir að búið er að breyta öllum reikningum félagsins í Íslandsbanka í reikninga sem bera góða vexti.
Konráð ber upp fyrirspurn hvers vegna þær birgðir sem til eru af Litlu hestabókinni séu ekki eignfærðar sem birgðir í bókhaldi.
Hreinn spyr afhverju séu svona margir bankareikningar í gangi
Halldór hefur ekki hugmynd af hverju reikningar eru svona margir, en hann hefur nú þegar fækkað þeim í 5. Upplýsir einnig að enn séu miklar birgðir til af Litlu hestabókinni þó þær séu ekki færðar til birgða í bókhaldi.
Einar upplýsir að starf nefnda í gegnum árin hafi verið nokkuð sjálfstætt, bæði hvað varðar fjáröflun og útgjöld. Því hafi margar nefndir haft sérmerkta bankareikninga.
Fundarstjóri ber fram tillögu um að reikningum verði vísað aftur til stjórnar, síðan verði haldinn framhaldsaðalfundur í febrúar þar sem leiðréttir reikningar verði teknir fyrir ásamt reikningum ársins 2004.
Einar telur að ekki sé hægt að halda fundi áfram verði reikningar ekki samþykktir og leggur til að fundurinn samþykki reikningana eins og þeir eru, en skora um leið á nýja stjórn að leitast við að leiðrétta skekkjuna í bókhaldinu.
Fundarstjóri leggur fram eftirfarandi tillögu til atkvæðagreiðslu eftir að hafa ráðfært sig við gjaldkera og skoðunamenn félagsins. “ Reikningar verði samþykktir með þeim fyrirvara að ný stjórn leitist við að laga reikninga fyrir næsta aðalfund.” Samþykkt með öllum atkvæðum.
5. Gjaldkeri leggur fram rekstraráætlun fyrir árið 2005 sem sýnir hagnað, en bendir á að fjáröflunarnefnd var ekki starfandi á þessu ári og úr því þurfi að bæta ef áætlanir eiga að ganga eftir.
6. Umræður um rekstraráætlun.
7. Árgjald, tillaga stjórnar um að árgjöld verði óbreytt borin undir atkvæði. Samþykkt einróma.
8. Lagabreytingar. Tillaga að lagabreytingu frá stjórn félagsins lög fram. Tillagan felur í sér að aðalfundur verði haldinn í janúar til febrúar ár hvert í stað september til október eins og nú er. Ástæða þessa er sú að þá getur gjaldkeri hvers árs gert upp almanaksárið fyrir aðalfund á meðan það er enn í fersku minni.
Nokkrar umræður spunnust um málið þar sem það kom meðal annars fram að stutt væri siðan fundartíma var breytt í núverandi form og var það gert með það í huga að ferskir stjórnendur og nýir nefndarmenn hefðu tíma til að skipuleggja árið sem er framundan. Menn sem tækju til starfa í febrúar hefðu hins vegar engin áhrif á starfsárið sem væri þá þegar hafið og að mestu skipulagt af öðrum mönnum. Hugsanlegt væri að halda aðalfundinn að hausti og kjósa í stjórn og nefndir á þeim tíma, en hafa sérstakan reikningsskilafund í febrúar mars þar sem reikningar yrðu lagðir fram.
Eftir stutt fundarhlé þar sem stjórnin réði ráðum sínum ákvað hún að draga tillöguna til baka.
9. Kosningar
Fyrir fundinum liggur tillaga stjórnar þess efnis að Marteinn Hjaltested verði kosinn formaður félagsins. Fundarmenn samþykkja það einróma.
Tillaga stjórnar um aðalstjórn:
Guðjón Magnússon
Guðmundur Björgvinsson
Gunnar Engilbertsson (nýr inn)
Halldór Guðjónsson
Kolbrún Haraldsdóttir
Páll Viktorsson
Í varastjórn verði:
Konráð Adolphsson
Oddrún Sigurðardóttir
Sigurður Teitsson
Úr stjórninni kusu að víkja:
Guðmundur Magnússon
Svanur Magnússon
Valdimar Kristinsson
Og eru þeim þökkuð vel unnin störf.
Tillaga stjórnar að nýrri stjórn samþykkt einróma.
Lagt var til að skoðunarmenn félagsins yrðu:
Leifur Jóhannesson og Birgir Hólm og var það samþykkt einróma.
Tillaga að fulltrúum félagsins á UMSK þing:
Formaður er sjálfkjörinn
Ása Magnúsdóttir
Kolbrún Haraldsdóttir
Oddrún Sigurðardóttir
Samþykkt einróma.
10. Önnur mál
Marteinn Hjaltested, nýkjörinn formaður, þakkar traustið.
Magnús á Blikastöðum, Langar að taka upp málið “kaffisala” í félagsheimilinu þegar fer að vora, einkum fyrir þá gesti sem leið eiga um. Þetta hafi gefist vel hjá öðrum félögum. Hann skorar á stjórnina að taka málið upp.
Ólafur Gunnarsson, situr í skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar upplýsir að á fundi nefndarinnar í gær hafi verið samþykkt að fela Reyni Viljhjálmssyni landslagsarkitekt að gera tillögu að deiliskipulagi svæðisins þar sem gert væri ráð fyrir nýrri reiðhöll.
Þröstur Karlsson færir þakkir til stjórnar- og nefndarmanna og áréttar að mikilvægt sé að huga að fjáröflun félagsins. 9 mánaða uppgjör bendir til að tap verði á rekstri félagsins árið 2004 þó uppgjörið sýni hagnað, eftir er að færa inn afskriftir og fleira í árslok.
Spurning hvort rétt sé að endurgera dómpallinn sem brann þar sem notkun hans var lítil. Notkun hans sem geymslu verður hugsanlega hægt að leysa á annan hátt, t.d. í tengslum við byggingu reiðhallar. Saknar kynbótamats og lagði til að stjórnin skoði að stofna nefnd um hrossarækt.
Valdimar ræðir um beitarmál. Stefnt er að því að halda almennan félagsfund um beitarmál á nýju ári þar sem rætt verður um endurskipulagningu beitarmála næst hesthúsahverfinu. Stefnt er að því að skipta beitarhólfum upp í smærri einingar þannig að fleiri geti notið. Þetta gæti orðið viðkvæmt mál þar sem ákveðnir félagsmenn hafa haft aðgang að sömu hólfum um árabil og jafnvel ræktað þau upp sjálfir í sumum tilfellum. Því þarf að gefa góðan aðlögunartíma auk þess að almenn sátt verður að ríkja um málið.
Það er kynbótanefnd í félaginu, en starfaði ekki mikið á síðasta ári.
Konurnar í félaginu hafa verið að sækja á þegar varðar léttar uppákomur í félaginu og nægir þar að nefna kvennadeildina sem stofnuð var á síðasta ári og hélt létt mót, Langbrókarmótið. Karlmennirnir virðast hinsvegar vera í lægð og því er lagt til að endurvekja karlrembureiðina næsta vor.
Halldór upplýsir að aðeins hafi verið smíðatrygging á dómpalli þar sem aldrei var hirt um að setja endanlegar tryggingar á eignina. Tryggingafélagið hefur samþykkt að greiða 1 millj. í bætur. Þegar hafa verið greiddar út 600 þúsund, en restin fæst ekki nema húsið verði endurbyggt en þá er spurning hvort það sé þess virði þar sem það muni kosta mun meira en eina milljón.
Fundarstjóri þakkar fráfarandi stjórn og biður nýja menn velkomna.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl.22.20