Aðalfundur 2021

Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar

haldinn í reiðhöll Harðar og rafrænt á Teams,

miðvikudaginn 27. janúar 2021 kl. 20:30

Fundinum hefur verið frestað síðan 28. október 2020 og var ekki hægt að halda fundinn í Harðarbóli vegna fjöldatakmarkana. Í reiðhöll mættu 27 félagsmenn og 25 mættu á Teems. Mættir stjórnarmeðlimir voru Hákon Hákonarson formaður, Ragnhildur Traustadóttir gjaldkeri, Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir ritari, Haukur Níelsson meðstjórnandi, Anna Lísa Guðmundsdóttir meðstjórnandi, Einar Guðbjörnsson meðstjórnandi. Rúnar Guðbrandsson var á Teems og Gígja Magnúsdóttir boðaði forföll.  

Formaður fór yfir sóttvarnarreglur á fundinum. Fundarmeðlimir voru spurðir hvort þeir hefðu athugasemdir varðandi boðun fundarins og hvernig hann færi fram og voru engin mótmæli. Ársskýrsla félagsins, ásamt rekstrarreikningum 2019 og 2020 voru birtir á netinu fyrir fundinn, sem og rekstraráætlun 2021.

Dagskrá:

  • Formaður setur fundinn og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.
  • Formaður flytur hluta af skýrslu stjórnar.
  • Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins.
  • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
  • Reikningar bornir undir atkvæði.
  • Fjárhagsáætlun næsta árs kynnt og umræður.
  • Árgjald ákveðið
  • Lagabreytingar
  • Kosningar samkvæmt 6. grein þessarar laga
  • Önnur mál
  • Fundarslit
  • Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. 

Hákon Hákonarson setti fundinn og tilnefndi Sigurð Guðmundsson sem fundarstjóra og Ingibjörgu Ástu Guðmundsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri athugar hvort fundurinn hafi verið boðaður á lögmætan hátt, sem hann var, kannar mætingu og úrskurðar fundinn lögmætan samkvæmt lögum félagsins. Fundarstjóri kynnti dagskrá fundarins, skv. 5. grein laga Hestamannafélagsins Harðar. 

  • Formaður flytur skýrslu stjórnar 

Formaður fór stuttlega yfir ársskýrslu sem var einnig birt á netinu.  Þar var farið yfir hvað stjórnin hefur verið að vinna í og framkvæma á síðastliðnu ári. 

Má þar nefna kaup á traktor og pöntun á sand- og saltdreifara til að hálkuverja göturnar í hverfinu. 

Nýtt deiluskipulag er komið í gegn fyrir svæðið þar sem fleiri lóðir koma í gagnið fyrir nýbyggingar á hesthúsum. 

Gatan Skólabraut sem liggur í gegnum hverfið hefur nú fengið nafnið Harðarbraut og gatan að Harðarbóli heitir Varmárbakki. 

Stjórn hefur kynnt fyrir sveitarfélaginu hugmynd um félagshesthús og er mikill áhugi þar fyrir hendi. Félagshesthús er hugsað til að efla nýliðun og aðstoða unga upprennandi hestamennt við að hasla sér völl í hestamennskunni. Blíðubakkahúsið myndi henta vel í þessa starfsemi og er vilji til að kaupa það hús eða leigja. Fyrsta niðurstaða varð sú að bærinn er til í að styrkja félagið með að leigja nokkur hesthúspláss til að byrja starfsemina og mun hún fara í gang næsta haust. Áframhaldandi skoðun á kaupum eða byggingu félagshesthúss mun halda áfram á komandi árum. 

Nánari upplýsingar um skýrslu stjórnar er hægt að nálgast inná heimasíðu Hestamannafélagsins Harðar. 

  • Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins 2019 og kynnir 12 mán uppjgör fyrir 2020.

Gjaldkeri félagsins renndi lauslega yfir reikninga félagsins, en verulegt tekjutap hefur orðið á þessu Covid ári. Félagið átti þó til varasjóð sem hægt var að grípa í til að halda starfseminni óskertri. 

  • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. 

Engar spurningar varðandi skýrslu stjórnar eða rekstrarreikninga félagsins bárust til stjórnar. 

  • Reikningar bornir undir atkvæði

Engin mótmælu bárust og voru reikningarnir samþykktir samhljóða. 

  • Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Áætlun að tekjur verði um 52 milljónir fyrir árið 2021. Áætlun hefur verið birt á netinu og stefnt að ná aftur upp í varasjóðinn sem nýttur var á síðastliðnu ári. Engar spurningar bárust úr sal. 

  • Árgjald ákveðið

Formaður kynnti tillögur stjórnar til aðalfundar um breytingar á árgjaldi félagsins. Sér gjald hefur verið fyrir 16-18 ára og annað sér gjald fyrir 18-22 ára, fullt gjald fyrir 22-70 og gjaldfrjálst fyrir 70+. Gjaldið hefur verið síðastliðin ár 12.500kr á ári og er það lægsta árgjald sem sést hjá hestamannafélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan var svo hljóðandi: Að hækka árgjaldið fyrir 22-70 ára upp í 15.000kr, að 18-22 greiði 50% árgjalds og gjaldfrjálst verði fyrir born að 18 ára aldri, 70 ára og eldri greiði 50% árgjalds, sem er nýtt hjá félaginu. Innifalið í árgjaldi verði . En gjaldið fyrir aðgang í reiðhöll og gjald fyrir kerrustæðin haldist óbreitt. 

Tillaga kom úr sal kom að 70+ ætti enn að vera gjaldfrjálst, jafnvel lækka það niður í 67+ aldur. 

Fundarmeðlimir samþykktu með miklum meirihluta tillögu stjórnar um breytingar á félagsgjaldi, þrjú á móti. 

  • Lagabreytingar

Ekki bárust neinar tillögur um lagabreytingar. 

  • Kosningar samkvæmt 6. grein þessarar laga

Hákon formaður gengur út eftir að hafa sinnt formennsku félagsins í 4 ár. Einn einstaklingur hefur boðið sig fram til formennsku í félaginu og er það Margrét Dögg Halldórsdóttir. Ekki barst neitt mótframboð og Margrét því sjálfkjörin sem formaður. Að auki voru kosnir 4 meðstjórnendur á þessum aðalfundi. Þeir sem ganga út eru Gígja Magnúsdóttir og Ólafur Haralds. Anna Lísa gefur kost á sér áfram og Rúnar Þór Guðbrandsson gefur kost á sér áfram til eins árs í staðinn fyrir Hauk Níelsson sem óskaði eftir að ganga úr stjórn, en hann átti eftir eitt ár í stjórnarsetu. Þeir sem að sitja áfram eru Einar Guðbjörnsson, Ragnhildur Traustadóttir og Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir. Þrír einstaklingar gáfu kost á sér í stjórn og eru það Magnús Ingi Másson, Aðalheiður Halldórsdóttir og Jón Geir Sigurbjörnsson. Engin önnur framboð bárust.  Skoðunarmenn félagsins voru kjörin þau Þröstur Karlsson og Sveinfríður Ólafsdóttir. 

  • Önnur mál

Enginn tók upp önnur mál og dagskrá því tæmd.

  • Fundarslit

Nýkjörinn formaður félagsins sleit fundi kl 21:26.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir.