Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2020 - fundargerð

 

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar:

 

Formaður:

Hákon Hákonarson

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir                Kjörin   2019

Einar Guðbjörnsson                          Kjörinn 2019

Gígja Magnúsdóttir                           Kjörin   2018

Haukur Níelsson                               Kjörinn 2019

Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir          Kjörin   2019

Ólafur Haraldsson                            Kjörinn 2018

Ragnhildur B. Traustadóttir               Kjörin   2018

Rúnar Þór Guðbrandsson                   Kjörinn 2018

Áheyrnarfulltrúi:

Ásta Björk Friðjónsdóttir

Skoðunarmenn:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson

 

Skýrsla stjórnar 

Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir 12 stjórnarfundir, þar af 2 netfundir.  Auk þess funduðu nefndir reglulega um  sín málefni.  Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins. Reglulega fundaði formaður, stjórnarmenn og nokkrir formenn nefnda með starfsmönnum Mosfellsbæjar, auk funda Framkvæmdanefndar félagsins. 

Formaður félagsins hefur fundað reglulega með formönnum Hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem samræmd eru hin ýmsu mál.  

Árið var mjög sérstakt vegna farsóttarinnar.  Loka þurfti reiðhöll félagsins hluta úr árinu og útleiga á Harðarbóli lagðist af. Tekjur félagsins drógust verulega saman og 1,4 milljóna króna tap varð á rekstri félagsins 2020. Tapið er vegna samdráttar á rekstrartekjum og sem dæmi má nefna að útleigutekjur á Harðarbóli drógust saman um 3,2 milljónir og ekki þó rétt að innheimta tekjur vegna auglýsinga úr reiðhöll, félagsins, engar tekjur af árshátíð né öðrum veislum á vegum o.fl.  Á móti minnkaði kostnaðurinn eitthvað, en stórir liðir eins og rafmagn, hiti og almennt viðhald breyttust lítið.  Gjöld vegna kerrustæða 2020 verða innheimt núna í vor og næsta haust vegna 2021. Rúmlega 400 þús kr styrkur fékkst frá ÍSÍ vegna tapaðra tekna og búið er að auglýsa frekari styrki sem félagið mun sækja um á næstu dögum. 

Félagið keypti lítinn traktor til afnota í reiðhöllinni og eins nýtist hann í ýmis önnur verkefni. Búið er að panta sand- og saltdreifara fyrir traktorinn, en með honum getur félagið sjálft séð um að sand- og saltdreifa í hverfinu.

Nýtt deiliskipulag var samþykkt fyrir hverfið og helstu breytingar eru þær að gatan frá hringtorginu heitir nú Harðarbraut, gatan að Harðarbóli heitir Varmárbakki, reiðgatan vestan við neðra hverfið færist norðan við Skiphól og tengist Tungubakkahringnum við vaðið. Lögð var áhersla á að minnnka umferðarhraðann í hverfinu og settar verða hraðahindranir á Harðarbraut þar sem ekið er inn í hverfið, en þar er hámarkshraði nú 30 km/klst.  Auk þess eru allar malargötur í hverfinu nú skilgreindar sem vistgötur eða reiðgötur, en þar er leyfilegur hámarshraði 10 km/klst.  Sett verða upp fleiri hringgerði og nýjum lóðum verður úthlutað austast í hverfinu. Í 1. áfanga verður úthlutað 3 hesthúsalengjum. 

Hætt var við þéttingu hverfisins og 2. áfangi verður auglýstur þegar Sorpa fer af svæðinu.  Óvíst er með tímasetningu á flutningu Sorpu.

Það er verið að skipuleggja Ævintýragarðinn í samvinnu við hestamannafélagið og er gert ráð fyrir sérstakri braut fyrir okkur hestamenn.  En meira um það síðar. Beitarúthlutun gekk vel og fengu nær allir sem uppfylltu skilyrði úthlutun. Gerður var ótímabundinn samningur við Segulmælingastöðina um afnot af þeirra landi og einnig gerður samningur við Landsbankann um svæðið frá reiðstígnum við Leirvogsá að Útilegumanninum og verður því svæði úthlutað næsta vor.

Félagshesthús – nýliðun

Það er sívaxandi þörf fyrir félagshesthús. Börn, unglingar og aðrir nýliðar eiga undir högg að sækja með að prófa sig áfram í hestamennsku ef þau hafa enga aðstöðu.  Stjórnin lagði fram áætlanir og kynnti vel fyrir bæjarstjóra og bæjarfulltrúum, en til þess að hægt sé að koma upp félagshesthúsi, þarf styrk frá Mosfellsbæ.  Eftir allmarga kynningarfundi, tók bæjarráð þá ákvörðun að fela framkvæmdastjórum bæjarins að vinna með stjórn hestamannafélagsins að útfærslu á leigu á 5 – 6 básum til prufu.  Stjórnin mun vinna málið áfram og stefnir að starfsemi næsta haust.  

Starfsmenn félagsins á árinu voru Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri sem sér m.a. um reiðhölllina, hringvöllinn og allar framkvæmdir á vegum félagsins, Sonja Noack sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námsskeið, senda út reikninga o.fl. auk þess að vera yfirreiðkennari félagsins og til loka mars Hólmfríður Halldórsdóttir sem sá um útleigu á Harðarbóli.

Helstu framkvæmdir félagsins voru:

Harðarból:

Nýtt og vandað hljóðkerfi sett í salinn. Nýr þakkantur var settur á eldri hluta hússins, ásamt lýsingu. Harðarból var málað af félögum út 8 villtum og lögðu þeir einnig til málninguna. Nýir ofnar voru settir í eldri hlutann og verið er að endurnýja salernin. Settar verða upp nýjar WC skálar, endurnýjaðar hurðir og lýsing og anddyrið og salernin verða flísalögð að nýju. Parketið á skrifstofunni var slípað, veggir málaðar og gömlu skáparnir rýmdir og fjarlægðir og verða nýir skápar settir upp innan skamms.  Gamla stéttin var fjarlægð og búið er að steypa nýja stétt með snjóbræðslu. Lítill hluti bílastæðisins var malbikaður og sett snjóbræðsla, en þar verður merkt bílastæði fyrir fatlaða næst aðaldyrum hússins. 

Reiðhöllin:

Settir voru speglar á battana og battarnir hvíttaðir. Skipt var út allri lýsingu og settir upp Led lampar. Gólfið var jafnað og sett furuflís á gólfið. Nýtt vökvunarkerfi var sett í höllina og hefur það reynst vel.  Hljóðkerfið var endurstillt og 6 nýjum hátölurum bætt við í loft hallarinnar.

Reiðleiðir:

Reiðvegastyrkur frá Mosfellsbæ var 3 milljónum krónum lægri 2020, en 2019 var styrkurinn óvenjuhár vegna lagfæringa undir brúm Köldukvíslar og Varmár.

Okkar aðal reiðleiðir voru lagfærðar og settir 80 - 90 bílar af reiðvegaefni á Tungubakkahringinn. Næsta sumar verður haldið áfram og að lokum sett vandaðri möl sem yfirborðsefni. Leiðin í kringum tjörnina við Leirvogsá var lagfærð og sett ræsi. 

Byrjað er á lagfæringu á Ístakshringnum, en verið er að vinna með Mosfellsbæ með þá hugmynd að færa reiðleiðina meðfram Ístaksplaninu lengra í norður og losna þannig við vatnselginn frá planinu.  Félagið fékk að gjöf ræsisrör frá góðum félagsmanni, sem verða notuð í ræsi á helstu reiðleiðum félagsins.

Skeiðvöllurinn var heflaður og saltborinn.

Kerrustæðin hafa komið vel út og eru um 80 stæði í útleigu, öll númeruð og um 6 gestastæði. Það er mikill munur að geta gengið að sínu stæði. 

Benedikt Ólafsson og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar 2019 og 2020 og óskum við þeim innilega til hamingju með þann tiltil.  Viðurkenningar hafa ætíð verið veittar á árshátíð félagsins, en engin slík var 2020.  Vonandi verður hægt að veita viðurkenningar á næstu árshátið félagsins hvenær sem hún verður.

Eins og fram hefur komið hafa miklar framkvæmdir staðið yfir þetta árið og framkvæmdaáætlun fyrir félagið til næstu 5 ára var endurgerð og send Mosfellsbæ.  Með slíkri áætlun er reynt að horfa heildstætt á svæðið og nauðsynlegar framkvæmdir, en áætlanir Mosfellsbæjar gera ráð fyrir mikilli fjölgun bæjarbúa og eðlilegt að gera ráð fyrir að sú fjölgun íbúa, kalli á aukna starfsemi íþróttafélaganna og þ.m.t. hestamannafélagins.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta.  Félagsmenn voru virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk.  Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni.

Í maí var Formannsfrúarreið Harðar.  Þar mættu 50 konur úr Herði, en að þessu sinni voru engin veisluhöld að reið lokinni. 

Skýrslur frá nefndum félagsins verða birtar á heimasíðu félagsins, ásamt ársreikningi og skýrslu stjórnar.  Enginn bauð sig fram í Veitinganefndina og var hún því lögð niður. 2 stjórnarmenn tóku að sér að hafa umsjón með Harðarbóli.

 

Nefndirnar hafa lagt mikla vinnu af mörkum og staðið sig afburða vel.  Eiga nefndarmenn þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig fyrir félagið.  Án sjálfboðaliðastarfsins væri félagið ekki til.  Einnig vill stjórnin þakka Mosfellsbæ fyrir öflugan stuðning við félagið.  Framundan eru mörg og flest nauðsynleg verkefni fyrir félagið og má þar nefna öðru fremur að koma upp félagshúsi og þá er sérstaklega horft til nýliðunar í hestamennsku.  Önnur hestamannafélög víða um land hafa komið sér upp slíku húsi og hefur það gengið  vel og bætt nýliðun. Það er erfitt fyrir börn og unglinga að byrja í hestamennsku ef þau eiga ekki ættingja eða fjölskylduvini til þess að hýsa hestinn og að hjálpa þeim af stað í hestaíþróttinni.

Hestamannafélgið varð 70 ára 26. febrúar og til stóð að bjóða til afmælisveislu, en af því varð ekki vegna farsóttarinnar. 

Stjórn félagsins er ánægð með rekstrarafkomuna 2019 og afkoman ásættanleg 2020 með tilliti til aðstæðna. Ekki þótti ástæða til að slaka á framkvæmdum þrátt fyrir samdrátt í tekjum, en félagið stendur fjárhagslega mjög vel. Vonandi verður 2021 aðeins eðlilegra og rekstur félagsins komist í sitt vanabundna form. Allar framkvæmdir á árinu voru gjaldfærðar og skuldir félagsins eru engar. Horft er til þess að Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.  Stjórn félagsins þakkar félagsmönnum fyrir árið og hlakkar til samstarfs á árinu.