Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2019 - skýrsla

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar:

 

Formaður:

Hákon Hákonarson

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir       Kjörin   2017

Erna Arnardóttir                      Kjörin   2017

Gígja Magnúsdóttir                  Kjörin   2018

Ólafur Haraldsson                   Kjörinn 2018

Haukur Níelsson                      Kjörinn 2017

Kristinn Már Sveinsson            Kjörinn 2017

Ragnhildur B. Traustadóttir      Kjörin   2018

Rúnar Guðbrandsson               Kjörinn 2018

Áheyrnarfulltrúi:

Thelma Rut Davíðsdóttir

Skoðunarmenn:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson

 

Skýrsla stjórnar

Haldnir voru 12 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.  Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins. Reglulega fundaði formaður, stjórnarmenn og nokkrir formenn nefnda með starfsmönnum Mosfellsbæjar og einnig áttum fundi með UMSK.

Formaður félagsins hefur fundað s.l. ár með formönnum Hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem farið er yfir hin ýmsu mál. 

Hulda Gústafsdóttir arkitekt hjá Landslagi, kynnti fyrir félagsmönnum nýtt deiliskipulag á Harðarsvæðinu 4. september sl.  Deiliskipulagið var síðan samþykkt í auglýsingu af Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar 13. september.  Í 1. áfanga verður úthlutað 3 hesthúsalengjum austast í hverfinu, nýtt svæði undir rúllubagga og Trek svæði, þar sem rúllubaggastæðið er núna.  Samfélagssjóður Kaupfélags Kjalnesinga veitti félaginu 2 milljóna króna styrk í væntanlega Trek braut félagsins og eru þeir peningar geymdir á sér reikningi, en Trek braut er þrautabraut fyrir hesta, bæði í keppni og til þjálfunar.  Í 2. áfanga verður núverandi byggð þétt.  Mesta aukningin verður síðan í 3ja áfanga, þegar Sorpa fer af svæðinu og þar  er gert ráð fyrir ca 10 - 12 hesthúsalengjum til viðbótar.  Þarna er verið að horfa til næstu 10 – 15 ára.  

Starfsmenn félagsins á árinu voru Hólmfríður Halldórsdóttir, sem sér um skráningu og utanumhald á Harðarbóli, Sonja Novak sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námsskeið, senda út reikninga o.fl. auk þess að vera yfirreiðkennari félagsins og  Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri sem sér m.a. um reiðhölllina, hringvöllinn og allar framkvæmdir á vegum félagsins. Ráðning framkvæmdastjóra var mikil lyftistöng fyrir félagið.  Rúnar þekkir félagið betur en nokkur annar, er vakinn og sofinn yfir starfsemi félagsins og hefur stjórnað framkvæmdum félagsins af mikilli rögggsemi. Helstu framkvæmdir félagsins voru:

Harðarból:

Ný lýsing var sett í eldri hluta hússins.  Gamli þakhlutinn var málaður og búið er að mála allan salinn og gluggana í eldri hlutanum.  Einnig var anddyrið og salernin máluð. Steypt var stétt við húsið austanvert og byggð skjólgirðing fyrir ruslatunnur og grillið.  Nýr ofn var keyptur í eldhúsið að upphæð 1 milljónir króna, en sá gamli var orðinn ónýtur.  Harðarból er mjög vinsælt í útleigu og því var talið nauðsynlegt að vera með góðan ofn.

Reiðhöllin:

Reiðhöllin var háþrýstiþrifin í sumar og nýtt hitakerfi sett undir áhorfendabekkina.  Búið er að byggja veglega sjoppu í höllina, sem er bæði ryk- vatns- og músaheld. Það var ekki forsvaranlegt að bjóða upp á veitingar í fyrri aðstöðu. Búið er að fá tilboð í vökvunarkerfi og verður það sett upp á næstu vikum.  Í framhaldinu verða settir speglar á battana, svo að knapar geti séð sjálfa sig og ganglag hestsins.

Reiðleiðir:

Blikastaðaneshringurinn var lagfærður, sem og Tungubakkahringurinn.  Leiðin frá brúnni að Fitjum að Varmadalsbrúnni var lagfærð og nýr vegur gerður í brekkuna fyrir ofan Varmadalsbrúna að Ístaki.  Stærsta framkvæmdin var lagfæring undir brúna við Köldukvísl.  Árfarvegurinn dýpkaður og lagfærðir árbakkarnir, ræsið stækkað og lagfært.  Er það von okkar að með þessu verði komið í veg fyrir skemmdir eða amk að skemmdir verði í lágmarki þegar árin ryður sig næsta vor.  Einnig var reiðleiðin á vesturbakka árinnar að vaðinu, lagfærð.  Reiðleiðin undir Varmárbrúna var einnig lagfærð og reiðleiðin frá Varmárbrúnni að vaðinu við Köldukvísl var lagfærð, sem og vaðið við trébrúna yfir Köldukvísl.  Hestamannafélagið lagði til 10 vörubíla af reiðvegaefni í nýju/gömlu reiðleiðina við Esjurætur.  En opnun þeirra reiðleiðar er mikið fagnaðarefni öllum hestamönnum.

Vegagerðin lagði varanlegt slitlag á veginn að Hafravatni og misstum við því reiðleiðina sem tengir Skarhólabraut við Hólmsheiði.  Ekki hefur fundist lausn á því, en verið er að vinna með hugmyndir.

Skeiðvöllurinn:

10 cm lag af vikri var keyrt í völlinn og hann grófjafnaður.  Á næstunni verður völlurinn heflaður og saltborinn, en með því á að binda efnið betur.  Okkur var ráðlagt að gera þetta að hausti og leyfa yfirborðinu að setjast vel yfir veturinn.

Sú breyting varð á styrkveitingum Mosfellsbæjar til reiðvegagerðar, að styrkjunum var úthlutað til félagsins og félagið bar síðan ábyrgð á og greiddi fyrir reiðvegaframkvæmdir. Það er til mikilla bóta, því féð nýtist þannig mun betur og framkvæmdir ganga greiðar fyrir sig. 

Mosfellsbær lagði fræs frá enda reiðhallarinnar við Harðarból og að gámnum og eins var lagt fræs á veginn milli efra og neðra hverfisins.

Kerrustæðin hafa komið vel út, en ákveðið var að hafa árgjaldið það lágt eða 6 þúsund krónur, að enginn mundi setja gjaldið fyrir sig og hefur það mælst vel fyrir. Hestamannafélagið hefur óskað eftir því við Mosfellsbæ að sett verði hraðahindrun við Blíðubakkahúsið, en alltof margir keyra of hratt í hverfinu, sem getur valdið stórlsysi. Beinir stjórn því til félagsmanna að þeir taki sig verulega á í þessum efnum. 

Einnig hefur félagið óskað eftir að lýsingu verði komið á frá hverfinu að Tungubakkahring og helst auðvitað að allur Tungubakkahringurinn verði upplýstur.

Á síðasta ári kom fram kæra um meint einelti. Þegar sú kæra barst, var undirritaður að endurskrifa Handbók Harðar, en eitt af skilyrðum þess að geta verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ, er að hafa slíka handbók.  Þar er ítarlegur kalfi um meint einelti og hvernig skuli taka á slíku. Aldrei áður á mínum félags- og stjórnunarferli til 30 ára, hef ég þurft að eiga við slíkt mál.  Um var að ræða meint einelti á milli félagsmanna, félagsmanna sem öll stjórnin þekkti vel og búin að þekkja til margra ára. Eineltismál eru í eðli sínu mjög viðkvæm mál og því skiptir miklu máli hvernig til tekst.  Stjórnin ákvað strax að leita til fagaðila með málið.  Það tók því miður nokkuð langan tíma og biður stjórnin hlutaðeigandi aðila enn og aftur afsökunar á þeirri töf.  Að endingu fengum við álit fagaðila og á stjórnarfundi félagsins í apríl sl, var lagt til í ljósi álitsins, að málinu yrði vísað frá og var það samþykkt.  Formaður hafði samband við málsaðila og skýrði þeim frá samþykkt stjórnar og bað þá afsökunar á töfinni.

Benedikt Ólafsson og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar 2018 og óskum við þeim innilega til hamingju með þann tiltil. 

Hörður og FMOS eru áfram í samstarfi og er skólinn að leigja reiðhöllina undir verklega kennslu.  Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri leigir höllina aftur veturinn 2019 – 2020 undir kennslu í Reiðmanninum.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir þetta árið og framkvæmdaáætlun fyrir félagið til næstu 7 ára var gerð og lögð fyrir Mosfellsbæ.  Með slíkri áætlun er reynt að horfa heildstætt á svæðið og nauðsynlegar framkvæmdir, en áætlanir Mosfellsbæjar gera ráð fyrir mikilli fjölgun bæjarbúa og eðlilegt að gera ráð fyrir að sú fjölgun íbúa, kalli á aukna starfsemi íþróttafélaganna og þ.m.t. hestamannafélagins.

Kostnaður vegna framkvæmda ársins nemur um 15 – 17 milljónum króna, en enn hafa ekki allir reikningar skilað sér í hús. 

Árshátíð Harðar var haldin í Harðarbóli 23. febrúar og tókst mjög vel. Þangað mættu um 100 manns og skemmtu sér vel. Þökkum við árshátíðarnefnd fyrir hennar vinnu.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta.  Félagsmenn voru virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk.  Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni.

Firmakeppni Harðar fór líka fram sumardaginn fyrsta og var mikil þátttaka og fór verðlaunaafhending fram í Harðarbóli og seldar voru vöfflur, kaffi og kakó.

Í maí var Formannsfrúarreið Harðar.  Þar mættu 55 konur úr Herði og endað var á mikilli veislu í Harðarbóli.

  1. maí var Hlégarðsreið Fáks og buðum við upp á veislu í reiðhöll félagsins og við heimsóttum Fák 11. maí.

Ákveðið var að leggja niður beitarnefnd félagsins amk tímabundið.  Á vegum Mosfellsbæjar er verið að teikna upp beitarsvæði Harðar og verður sú teikning sett á heimasíðu bæjarins. Í framhaldinu verður beitarsvæðið endurskipulagt með það í huga að bæta nýtingu og að sem flestir hafi aðgengi að vatni, sé þess nokkur kostur.  Sú vinna er ekki hafin, en beðið er eftir teikningunni frá Mosfellsbæ.  Með þessu ætti gagnsæi að vera meira og auðveldara að sjá á netinu, hver er með hvert beitarhólf.  Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri úthlutuðu beit eftir nýju reglum félagsins og fengu nær allir beitarhólf sem þess óskuðu.  Úthlutunin gekk vel og fáar kvartanir.

Íslandsmótið 2019 var haldið á félagssvæði Fáks.  Öll hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu stóðu saman að mótinu, sem tókst afar vel. Hörður átti fulltrúa í hinum ýsmu greinum og stóðu keppendurnir sig mjög vel. Lítilsháttar tap varð á mótinu og var hlutur Harðar í tapinu liðlega 40 þús krónur.

Heldri menn og konur halda áfram að slá í gegn.  Haldnir voru 4 viðburðir hjá þeim á árinu og mæting hefur verið á bilinu 60 – 110 manns.  M.a. stóðu þau fyrir Þorrablóti og mættu yfir 100 manns.  Boðið hefur verið upp á mat, fyrirlestra,  hópsöng, einsöng og alltaf verið einstök stemming

 

Skýrslur frá nefndum félagsins verða birtar á heimasíðu félagsins, ásamt ársreikningi og skýrslu stjórnar.

 

Nefndirnar hafa lagt mikla vinnu af mörkum og staðið sig afburða vel.  Eiga nefndarmenn þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig fyrir félagið.  Án sjálfboðaliðastarfsins væri félagið ekki til.  Einnig vill stjórnin þakka Mosfellsbæ fyrir öflugan stuðning við félagið.  Framundan eru mörg og flest nauðsynleg verkefni fyrir félagið og má þar nefna öðru fremur að koma upp félagshúsi og þá er sérstaklega horft til nýliðunar í hestamennsku.  Önnur hestamannafélög víða um land hafa komið sér upp slíku húsi og hefur það gengið  vel og bætt nýliðun. Það er erfitt fyrir börn og unglinga að byrja í hestamennsku ef þau eiga ekki ættingja eða fjölskylduvini til þess að hýsa hestinn og að hjálpa þeim af stað í hestaíþróttinni.

Stjórn félagsins er ánægð með rekstrarafkomu ársins, en talsvert var fjárfest á árinu sem allt er gjaldfært. Félagið stendur all vel fjárhagslega og hefur bolmagn í frekari framkvæmdir. Skuldir félagsins eru engar. Horft er til þess að Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.  Stjórn félagsins þakkar félagsmönnum fyrir árið og hlakkar til samstarfs á næsta ári.