Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2018
- Nánar
- Skrifað þann Miðvikudagur, nóvember 14 2018 12:59
Fundargerð aðalfundar
Haldinn í Harðarbóli 24.10.2018 kl. 20.00
Fundarstjóri: Ólafur Haraldsson
Fundarritari: Erna Arnardóttir
Mættir á fundinn: 51 félagsmenn
Dagskrá skv. aðalfundarboði og lögum félagsins.
- Fundur settur og skipaður fundarstjóri og ritari.
Hákon Hákonarson formaður setti fundinn og tilnefndi Ólaf Haraldsson fundarstjóra.
Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins og lýsti fundinn löglega boðaðan aðalfund. Fimmtíu og einn félagsmaður mætti á fundinn, auk þess sem aðalfundarboðið var gert með lögmætum fyrirvara. Fundarstjóri stingur upp a Ernu Arnardóttur sem fundarritara. Dagskrá fundarins er skv. 5 grein laga félagsins.
Samþykkt var dagskrárbreyting þess efnis að hefja fundinn á móttöku viðurkenningar frá stjórn ÍSÍ um að Hestamannafélagið Hörður fái endurvottun sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Þráinn Hafsteinsson stjórnarmaður í framkvæmdastjórn ÍSÍ afhenti formanni viðurkenningarskjal og fána og bar félaginu kveðjur forseta ÍSÍ og óskaði félaginu heilla.
- Skýrsla stjórnar.
Skýrsla formanns auk skýrslu nefnda félagsins verður aðgengileg á vef félagsins frá og með 27. október 2018. Handbók Hestamannafélagsins Harðar sem fyrirmyndarfélags ÍSÍ verður einnig birt á heimasíðu félagsins.
- Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins.
Ragnhildur Traustadóttir fór yfir ársreikning félagsins fyrir árið 2017 og rekstraráætlun fyrstu 9 mánuði ársins 2018. Hagnaður af rekstri Harðar 2017 var 5.076.368 krónur. Reikningurinn sýnir einnig fram á að farið hefur fram fullnaðar skuldaskil vegna reiðhallarinnar. Með eftirgjöf Íslandsbanka á skuld félagsins við bankann upp á 10.500.885 krónur, með styrk frá Mosfellsbæ upp á 7.000.000 krónur og 1.000.000 króna framlagi Harðar, er reiðhöllin nú að fullu skuldlaus eign félagsins.
- Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
Engar umræður né fyrirspurnir komu fram um skýrslu stjórnar né reikninga félagsins. Reikningarnir voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.
- Ákvörðun árgjalds fyrir 2019.
Stjórn lagði til að árgjald verði það sama og var árið 2018, 12.000 krónur fyrir fullorðna félagsmenn, minna fyrir unglinga. Börn og eldri borgarar greiði ekki félagsgjald.
Fram kom fyrirspurn um fjölskylduafslátt. Gjaldkeri svaraði fyrirspurn á þá leið að hætt hafi verið við slíkt fyrirkomulag þar sem utanumhald um það sé tímafrekt og erfitt.
Fundurinn samþykkti tillögu stjórnar um óbreytt árgjald.
- Lagabreytingar
Engar tillögur um lagabreytingar lágu fyrir fundinum.
- Kosningar skv. 6 grein laga um stjórnarkjör
- Fyrst var gengið til kosninga um formann. Hákon Hákonarson var einn í kjöri og því sjálfkjörinn formaður með lófaklappi.
- Fjórir stjórnarmenn gengu úr stjórn skv. lögum félagsins, en þrír þeirra gáfu kost á stjórnarsetu áfram til tveggja ára. Þau eru Gígja Magnúsdóttir, Rúnar Þór Guðbrandsson og Ragnhildur Traustadóttir. Kosið var um einn stjórnarmann og einungis einn var í framboði, Ólafur Haraldsson sem var kosinn í stjórn með lófaklappi.
- Önnur mál
Fundarstjóri opnaði mælendaskrá;
- Formaður þakkaði traustið og lýsti ánægju með kjör stjórnarmanna.
- Formaður upplýsti að Telma Davíðsdóttir hafi setið stjórnarfundi 2018 sem áheyrnarfulltrúi, skv. skilyrðum sem ÍSÍ gerir til fyrirmyndarfélaga um þátttöku ungmenna í félagsstarfinu. Telma hefur málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðarétt í stjórn félagsins. Hún hefur gefið kost á sér áfram sem áheyrnarfulltrúi í stjórn.
- Hólmfríður Halldórsdóttir brýndi stjórnarmenn og fundarmenn að gefa kost á sér í árshátíðarnefnd félagsins, þar sem árshátíð nálgast óðfluga. Hólmfríður upplýsti að bókanir í Harðarból séu farnar að berast fram til ársins 2022.
- Fundarstjóri bar fram tillögu um skoðunarmenn reikninga félagsins, Þröst Karlsson og Sveinfríði Ólafsdóttir. Fundurinn samþykkti það.
- Formaður upplýsti að Rúnar Sigurpálsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í hlutastarfi og hafi þegar tekið til starfa. Félagið væntir mikils af starfi hans. Örn Ingólfsson lætur af störfum fyrir félagið 31. otóber nk og er honum þökkuð unnin áralöng störf fyrir félagið.
- Formaður benti fundinum á að velvilji Mosfellsbæjar gagnvart félaginu og styrkveitingar frá bæjum væru forsenda framkvæmda á vegum félagsins.
- Formaður ræddi framkvæmdir á vegum félagsins og upplýsti fundinn um að eftir að tókst að semja um skuldaskil reiðhallar, hafi framkvæmdir farið af stað aftur. Meðal annars hafi verið farið í að setja upp nýja loftræstingu og hitakerfi í reiðhöll, steypa nýja stétt í kringum Harðarból, útbúa framtíðar kerrustæði ofl.
- Á framkvæmdaáætlun 2018 til 2019 eru eftirtalin verkefni:
- Lagfæring á flugvallarhring/Tungubakkahring
- Lagfæring á leku þaki reiðhallar
- Koma upp lýsingu í kringum reiðhöll
- Setja upp snjógildrur og þakrennur á reiðhallarþak
- Lagfæra ryðskemmdir í burðarvirki reiðhallar, sem stafar af skorti á loftræstingu og meintum hönnunargalla á samskeytum stálgrindar og sökkuls
- Fullnaðarfrágangur á kerrustæðum
- Klára að steypa stétt í kringum Harðarból
- Setja upp lýsingu í eldri sal Harðarbóls
- Setja upp stóra sjónvarpsskjái í báðum endum Harðarbóls
- Jarðvegsskipti í hvíta gerðinu
- Formaður færði Öglu Kristjánsdóttur formanni fræðslunefndar fatlaðra styrk sem er hagnaður af árlegri formannsfrúarreið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 22.00