Aðalfundur Harðar 11 nóvember 2016

Aðalfundur Harðar 11 nóvember 2016

Mættir 46 manns, þar með talið aðalstjórn. Mættir frá aðalstjórn: Alexander Hrafnkellsson (AH), Gunnar Steingrímsson (GS), Oddrún Ýr Sigurðardóttir (OÝS), Jóna Dís Bragadóttir formaður (JD), Ragnhildur Traustadóttir gjaldkeri (RT), Sigurður Guðmundsson (SG), Haukur Níelsson (HN), Gunnar Örn Steingrímsson (GÖS), Ólafur Haraldsson (ÓH).

  1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fund og stingur upp á Marteini Magnússyni sem fundarstjóra og Oddrúnu Ýr Sigurðardóttur sem fundarritara sem er samþykkt af fundarmönnum.

Fundarstjóri þakkar traustið og athugar hvort fundurinn hafi verið lögmætt boðaður. Fundarboð var sent út 21. október sem og fundurinn því boðaður í samræmi við lög félagsins, og því lögmætur. Næst kynnir fundarstjóri dagskrá fundarins sem er skv. 5 grein laga Hestamannafélagsins Harðar.

  • Dagskrá skv.5. grein laga Hestamannafélagsins Harðar:
  • Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.
  • Formaður flytur skýrslu stjórnar.
  • Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör.
  • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
  • Reikningar bornir undir atkvæði.
  • Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.
  • Árgjald ákveðið.
  • Lagabreytingar
  • Kosningar samkvæmt 6. grein.
  • Önnur mál
  • Fundarslit
  1. Formaður flytur skýrslu stjórnar

Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2016

 

Í stjórn Hestamannafélagsins Harðar árið 2016 sátu:

 

Formaður:

Jóna Dís Bragadóttir

Aðalstjórn kostin til tveggja ára, 8 meðstjórnendur:

Alexander Hrafnkelsson                    Síðast kjörinn 2015

Haukur Níelsson                                 Síðast kjörinn 2015

Oddrún Ýr Sigurðardóttir       Síðast kjörin   2015

Ragnhildur B. Traustadóttir   Síðast kjörinn 2015

Gunnar Ö. Steingrímsson       Síðast kjörinn 2014

Gylfi Þór Þorsteinsson                        Síðast kjörinn 2014

Ólafur Haraldsson                             Síðast kjörinn 2014

Sigurður Guðmundsson                     Síðast kjörinn 2014

Skoðunarmenn:

Ólöf Guðmundsdóttir

Sveinfríður Ólafsdóttir

 

Aðilar á þing UMSK:

Formaður Harðar og formaður æskulýðsnefndar

Árgjald fyrir árið 2016 var:

 

15 ára og yngri kr. 0.- (frítt)

16-21 árs. kr.5500.-

22-69 ára kr. 8500.-

70 ára og eldri kr. 0 (frítt)

Skýrsla stjórnar

Haldnir voru 15 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.  Tengiliður stjórnar situr í öllum nefndum félagsins. Jafnframt fundaði formaður, stjórnarmenn og nokkrir formenn nefnda með starfsmönnum Mosfellsbæjar reglulega. Formaður sat líka reglulega fundi með UMSK og áttum við líka gott samstarf við önnur íþróttafélög í Mosfellsbæ.

Formaður hefur fundað reglulega s.l. ár með formönnum hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir hin ýmsu mál.  Við héldum sameiginlegt jólaball í desember sl. og einnig nokkra fyrirlestra sem heppnuðust mjög vel.

Starfsmenn félagsins eru Örn Ingólfsson sem sér um reiðhölllina og fleira. Oddrún Ýr Sigurðardóttir sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námsskeið, senda út reikninga og fleira og Hólmfríður Halldórsdóttir sem sér um skráningu og utanumhald á Harðarbóli. Sonja Noack yfirreiðkennari lét af störfum í sumar og Ingólfur Sigþórsson lét af störfum í desember sl. Þökkum við þeim vel unnin störf.

Hestamannafélagið Hörður hefur ekki haft framkvæmdastjóra í vinnu sl. þrjú ár eins og hestamannafélög af svipaðri stærð.  Mikil vinna hefur því verið á formanni og stjórnarfólki, ásamt sjálfboðaliðum.  Með þessu höfum við sparað félaginu mikla peninga og því höfum við getað framkvæmd meira og keypt meira heldur en ella.

Í byrjun janúar var Reynir Örn Pálmason Harðarfélagi valinn Íþróttamaður Mosfellsbæjar 2015 óskum við honum innilega til hamingju með þann tiltil.  Hestamannafélagið hélt Reyni Erni veglega veislu í tilefni af valinu.

Á uppskeruhátíð Harðar í október sl. Var Reynir Örn Pálmason valinn Íþróttamaður Harðar 2016 og Súsanna Sand Ólafsdóttir Íþróttakona Harðar 2016. Óskum við þeim innilega til hamingju.

Hörður og FMOS eru áfram í samstarfi og er skólinn að leigja reiðhöllina undir verklega kennslu.  Stjórnarmenn sitja jafnframt í vinnuhópi skólans varðandi kennsluna. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri leigði höllina á vorönn undir kennslu.

Mikið og óeigingjarnt sjálfboðaliðsstarf var unnið síðasta vetur við að klára viðbygginguna við Harðarból. Loftin voru klædd og lýsing sett í loftin. Allt húsið var málað og salernin stækkuð.  Einnig var gagnger breyting gerð á eldhúsinu þar sem allt var endurnýjað. Nú í haust verður parketið sett á gólfið og hljóðkerfi kemur í húsið.  Einnig voru nýjir stólar keyptir og gömlu stólarnir seldir.  Húsið var allt málað að utan.  Eftir þessar framkvæmdir er Harðarból orðið hið glæsilegasta félagsheimili sem Harðarfélagar geta verið stoltir af.  Næsta sumar verður farið í framkvæmdir fyrir utan félagsheimlið.  Mikil vinna hefur jafnframt farið í að endurnýja leyfi fyrir húsið, en margir aðilar koma að því og mikið af pappírum sem þurft hefur að fylla út og senda út og suður.

Nú er verið að vinna við  bílaplan norðan megin við reiðhöllina.

Snjógildrur og rennur verða settar á reiðhöllina nú í haust, en ekki tókst að klára það verkefni sl. vetur vegna veðurs.

Sjoppan í reiðhöllinn var kláruð og búin til kompa þar sem gamla sjoppan var og eru allir mjög ánægðir með þessa breytingu.

Auglýst var eftir reiðkennurum til starfa hjá félaginu eins og undan farin ár. Er þetta gert til að auka lýðræði og fá hugmyndir að námsskeiðum og hefur þetta mælst vel fyrir.  Reiðkennarar byrja þegar námsskeiðin hefjast.

Félagið tók þátt í því að fjármagna vegvísa sem settir hafa verið upp.  Hesthúseigendafélagið kom jafnframt að fjármögnunni líka.  Aðalhvatamaður þessa verkefnis og hönnuður er Sæmundur Eiríksson og þökkum við honum vel fyrir.

Útistandandi skuld Hestamannafélagsins Harðar við Íslandsbanka vegna fjármögnunar á byggingu reiðhallarinnar stendur nú í um kr. 20.000.000.  Samningaviðræður hafa staðið yfir við Íslandsbanka um uppgjör á skuldinni í langan tíma og hefur félagið nú vilyrði fyrir því að mögulegt sé að gera skuldina upp að fullu með kr. 10.000.000.  Stjórn Harðar hefur fundað með forsvarsmönnun Mosfellsbæjar um aðkomu sveitarfélagsins að uppgjöri á þessari skuld, en endanlegt svar frá sveitarfélaginu liggur ekki fyrir.  Vonir stjórnarinnar standa til þess að hægt verði að klára þetta mál með aðkomu sveitarfélagsins á næstu vikum.

Nokkrar konur tóku sig til og fengu Ragnheiði Samúelsdóttur til að koma og kynna Töltgrúppuna sem er starfrækt í Spretti og hugmyndin var að koma á stofn þannig hópi í Herði.  Um 40 konur mættu og tóku þátt í frábæru námskeiði í maí, sem endaði á glæsilegri sýningu.

Árshátíð Harðar var haldin í Harðarbóli 12. mars. Þangað mættu um 180 manns og var árshátíðin hin glæsilegasta.

Hestadagar voru haldnir á höfuðborgarsvæðinu 30. apríl og 1. maí.  Hörður tók þátt og var reiðhöllin opin og gefin var kjötsúpa, svali og kaffi.  Teymt var undir krökkum. Harðarkrakkar sýndu atriði úr Æskan og Hesturinn. Harðarfélagar tóku þátt í miðbæjarreiðinni eins og venjulega.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann mjög vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta. Félagsmenn voru mjög virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk. Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni.

Firmakeppni Harðar fór líka fram á sumardaginn fyrsta og var mikil þátttaka og fór verðlaunaafhending fram í Harðarbóli og seldar voru vöfflur, kaffi og kakó. Ágóðinn var um 400.000.

Formannsfrúarkarlareiðin var farin frá Þingvöllum í Mosfellsbæ í maí. Í þá ferð fóru um 50 karlar úr Herði og endað var á mikilli veislu í Harðarbóli. 

Farið var ríðandi í Fák 23. apríl. Mikil þátttaka var í ferðina og tókst hún mjög vel að venju í frábæru veðri. Fáksmenn koma ríðandi til okkar (Hlégarðsreið) 7. maí og vorum við með veitingarnar að þessu sinni  í reiðhöllinni sem tókst mjög vel í frábæru veðri. Í þessum báðum ferðum voru vel á annað hundrað manns sem mættu.

Náttúrureiðin/Grillreiðin var farin í 28. maí og var nú farið ríðandi uppí  Hrafnhóla þar sem grillað var og var vel mætt í þá ferð. Kirkjureiðin var daginn eftir þann 29. maí og kirkjukaffi í reiðhöllinni.

Félagsreiðtúrar voru farnir fyrsta laugardag í hverjum mánuði á vorönn og var mikil og góð mæting í þá reiðtúra.  Alla reiðtúrana var endað á kakói og vöfflum í reiðhöllinni í boði Harðar.

Eldri Harðarfélögum var boðið til samsætis fyrsta föstudag í mars.  Boðið var uppá súpu, brauð og köku í eftirrétt. Þarna voru sýndar myndir af gömlum félögum og frá starfi Harðar. Mikil ánægja var með þennan hitting og ákveðið að halda þessu áfram og hist var í apríl og endað á reiðtúr í maí og grilli í Harðarbóli.  Stofnuð hefur verið nefnd og sér hún um að skipuleggja starfið í vetur og nú þegar er hópurinn búinn að hittast einu sinni og mættu um 50 manns.

Reiðveganefnd hefur til ráðstöfunar á þessu ári framlag frá Landssambandi Hestamannafélaga kr.1.800.000,- til framkvæmda í Mosfellsbæ og kr. 450.000,- til viðgerða og merkinga á gerðum í Fellsendaflóa og viðgerða á ræsi.  Framlag frá Mosfellsbæ til nýframkvæmda er kr. 2.000.000,- og til viðhalds reiðvega kr. 900.000,- eða samtals kr. 5.150.000,-

Helstu verkefni og framkvæmdir á vegum reiðveganefndar árið 2016 :

Framlag frá Landssambandi Hestamannafélaga kr. 1.800.000, - var úthlutað í það að setja yfirlag á reiðleið með Köldukvísl milli Hrísbrúar og Mosfellskirkju og í nýjan reiðveg með Varmá austan við neðri hluta hesthúsahverfis.

Fram til þessa hefur ekki verið hægt að fá tilbúið yfirborðsefni í námum við Bolaöldu.   En nú er byrjað að vinna það efni og verður þá hægt að keyra út yfirborðsefni í reiðleiðina með Köldukvísl og aðrar reiðleiðir á næstunni.

Mótanefndin hóf störf haustið 2015 við skipulagningu Íþróttamóts Harðar. Leitað var eftir styrkjum fyrir mótið sem gekk vel með hjálp sjálfboðaliða. Veturinn gekk vel, en erfitt var að fá fólk til þess að koma í nefndina. Stofnuð var Hrímnis mótaröð þar sem Hrímnir var aðal og eini styrktaraðilinn. Vinningar voru veglegir frá þeim hjá Hrímni og þökkum við þeim kærlega fyrir. Haldin voru vetrarmót, grímutölt og fleiri mót. Nefndarmenn voru duglegir að safna styrkjum fyrir öll mót á árinu og komu öll mót út í plús.

Yfir 100 manns sóttu reiðnámskeið á vegum fræðslunefndar veturinn 2015-2016. Boðið var upp á mörg mismunandi námskeið. Einnig var vinsælt að taka einkatíma og gátu nemendur þá valið sér kennara. Einnig voru hinir ýmsu fyrirlestrar m.a. komu Sæmundur Eiríksson og Halldór Halldórsson og héldu skemmtilegan fyrirlestur og kynningu á Kortasjánni.

Síðastliðinn vetur gekk vel hjá fræðslunefnd fatlaðra og alltaf bætast fleiri þátttakendur í hópinn. Fjöldi sjálfboðaliða hjálpuðu til við að láta þetta ganga upp og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir. Nú í vor var haft samband við UMSK og viðræður hafnar við önnur hestamannafélög innan þess um um að taka þátt í þessu verkefni með okkur þannig að hægt væri að þjónusta fleiri og dreifa álaginu. Væri frábært að fá fleiri hestamannafélög til að vinna þetta skemmtilega starf og þá kæmust fleiri á námskeið. Kristján Kristjánsson er byrjaður að vinna að þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir félögin. Verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu samstarfi, við bíðum spennt.  Nú í haust erum við með 7 námskeið í gangi alla daga vikunnar nema á sunnudögum. Erum við með 5 nemendur í senn en svo er einn hópur á fimmtudagsmorgnum (MS sjúklingar) sem eru 10 saman þannig að þetta haustið erum við með 40 nemendur.

 

Útleiga beitarhólfa var með svipuðu móti og verið hefur. Eitt nýtt hólf bættist

við í útleiguna en á móti féll annað hólf út. Mikilvægt er að nefndarmenn og

félagsmenn líti almennt vel í kringum sig í því augnamiði að sjá góðar

“matarholur” og góða staði sem hugsanlega mætti nýta til beitar í landi

Mosfellsbæjar og jafnvel víðar. Það hefur nokkrum sinnum gerst að félagsmenn

hafi komið með ábendingar sem hafa leitt til þess að ný hólf voru tekin í gagnið.

Þann 26. september sl. voru beitahólfin tekin út og var nú eins og undanfarin ár

fenginn til verksins Garðar Þorfinnsson frá Landgræðslu ríkisins. Með honum

við úttektina voru Valdimar Kristinsson og Haukur Níelsson dýragæslumaður

Mosfellsbæjar. Útkoman úr úttektinni var vel viðunandi í svo til öllum hólfanna

og á því voru engar slæmar undantekningar eins og oft hefur viljað brenna við. Í

nokkrum tilvikum var hluti hólfa í einkunn 4 sem sýnir vel að þörf er á aukinni

fræðslu og hvatningu til að bæta beitarstjórn. Voru úttektarmenn sammála um að

lokinni yfirferð að útkoman hafi verið með besta móti. Má niðurstöðuna

vafalítið rekja til góðrar tíðar í vor og sumar en einnig spilar þar sterkt inn í

aukin kunnátta félagsmanna í beitarstjórn. Þess má geta að skynja má ótvírætt

góða viðleitni og áhuga hjá beitarþegum að skila hólfunum í góðu ástandi í lok

beitartímans og þar með réttri einkunn.

Skemmtinefndin stóð fyrir kótiletturkvöldi 7. maí þar sem á annað hundrað manns mættu og borðuðu kótilettur og royalbúðing í eftirrétt.  Þessi fagnaður var haldinn til að safna fyrir stólum í Harðarból. Einnig stóð nefndin fyrir grilli í reiðhöllinni í lok maí.

Æskulýðsnefnd bauð upp á fjölbreytta dagskrá og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Á hinar ýmsu uppákomur voru að mæta milli 50 og 60 börn. Farið var m.a. í heimsókn í Fák. Haldnir voru fyrirlestrar, farið í reiðtúra, bogfimi og fleira.  Harðarkrakkar tóku þátt í Hestadögum og Æskan og Hesturinn.  Einnig voru Harðarkrakkar fánaberar á bæjarhátíðinni Í túninu heima.  Æskulýðsnefndin skipulagði í samráði við reiðkennara kennslu fyrir þá sem fóru á Landsmót á Hólum og nefndin hélt vel utan um æskulýðinn sem þangað fór. Glæsileg uppskeruhátíðin var haldin október og mættu um 100 manns, þar sem veittar voru viðurkenningar til afreksknapa og hvatningarverðlaun. Einnig fengu allir sem hafa tekið þátt í viðburðum á vegum félagsins viðurkenningu.

Á árinu voru haldnir 4 stjórnarfundir í Hesthúseigendafélaginu.   Félagið tók þátt í stauramerkingum í nágrenni Harðar, merkingum um reiðleiðir og lengdir þeirra í km. Hesthúsaeigendafélagið lagði 700 þús kr í það verkefni á móti hestamannafélaginu.  Reiðveganefnd hefur umsjón með verkefninu.   Félagið tók einnig þátt í að laga reiðgötur í hverfinu og lagði 185 þús kr í það verk.

Aðalfundur 8villta félagsins var haldinn 8. janúar.  Stjórnarfundir á árinu voru 6.  Sameiginlegir reiðtúrar félagsmanna voru 7.   Dagsferð 8villtra var farin 11. júní og riðnir Ölfusárbakkar.  Sumarferðin var farin helgina 17. – 19. júní og var farið um Norðurárdal í Borgarfirði en gist á Bifröst.  Haustferðin var farin 19.-21. ágúst  og var gist og farið frá Syðra Langholti í Hrunamannahreppi. 8villtur var heimsóttur á Margrétarhof.  Folinn sýndur – grill og gleði.  Reynir Pálmason keppti á honum í Unghestakeppni hér í Mosó og lenti hann í 2. sæti með einkunnina 8.23. Á félagsfundi 30. ágúst var samþykkt að gelda 8villtan og selja.  Andvirðið verður nýtt til þess að kaupa efnilegan fola til ræktunar.  Stefnt er að því að bjóða 8villtan upp á Hrossakjötsveislunni 12. nóv nk.

Þær nefndir sem starfa í félaginu eru allar virkar og starfa vel eins og fram hefur komið.  Það eru mismargir í nefndum, en öllu máli skiptir að þeir sem í nefndinni eru séu virkir.  Einnig er til fólk í félaginu sem ekki vill vera í nefnd en er alltaf til í að starfa og er það frábært.

Allar nefndir félagsins komu saman sl. haust fljótlega eftir aðalfund þar sem formenn sögðu frá því sem gert hafði verið og kynntu dagskrá vetrarins. Þetta er gert til að hrista fólk saman og einnig til að samræma dagskrána svo engir árekstrar verði varðandi viðburði hjá félaginu, í fyrra tókst þetta mjög vel.

Þegar farið er yfir árið er ótrúlega mikið búið að gera á árinu, eins og undanfarin ár hér í Hestamannafélaginu Herði. Það sem hér hefur komið fram og það sem þið lesið í skýrslunum er samt auðvitað bara brot af því sem hefur verið gert, því mikil vinna liggur að baki hverju verki. En þó við séum ánægð með árið, þá má ekki sofna á verðinum og verðum við alltaf að vera á tánum um það sem betur má fara, því  „betur sjá augu en auga. Það er margt sem þarf að huga að í svo stóru félagi, en við höfum ekki ótakmarkað fjármagn og því þarf að forgangsraða. 

Nefndir hafa flestar skilað hagnaði og hjálpar það við að halda upp góðu starfi, en

mikill fjöldi félagsmanna leggur mikið á sig til að starfa fyrir félagið í sjálfboðavinnu, hvort sem það er fólk í nefndum félagsins eða ekki.  Ber að þakka öllu því góða fólki sem er tilbúið til að leggja mikla vinnu á sig fyrir félagið, án þeirra væri félagið ekki neitt.

Stjórn félagsins er ánægð með rekstrarafkomu ársins og við lítum björtum augum til næsta árs.  Félagið er í góðum samskiptum við Mosfellsbæ, skólana í Mosfellsbæ og önnur Íþróttafélög.  Við leitum til þeirra og þeir til okkar með hin ýmsu mál, því það er horft til þess að Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndar félag innan ÍSÍ.

 

Ég hvet Harðarfélaga til að lesa ársskýrslur nefnda, hér er stiklaði á stóru um það sem nefndir hafa gert á starfsárinu, en þar er nánar gerð grein fyrir þeirri starfsemi sem hver og ein nefnd stóð fyrir. Nú prentum við ársskýrsluna ekki út heldur hvetjum fólk til að lesa hana á netinu.

  1. Skýringar á reikningum félagsins og kynnt 9 mánaða uppgjör

Fundarstjóri þakkar Jónu Dís fyrir skýrsluna og kynnir næsta dagskrárlið, Sigurður Guðmundsson (SG) skýrir reikninga félagsins, þá má sjá í árskýrslu félagsins vegna 2015-2016.

  1. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

Fundarstjóri þakkar Sigurði fyrir útskýringar á reikningum félagsins. Fundarstjóri óskar eftir athugasemdum frá fundarmönnum um skýrslu stjórnar og ársreikninga.

  • Á eftir að skrifa
  1. Reikningar bornir undir atkvæði

Fundarstjóri ber upp ársreikninginn til samþykktar og er hann samþykktur með handaruppréttingu. Engin andmæli.

  1. Árgjald ákveðið

Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að breyttum félagsgjöldum:

15 ára og yngri kr. 0.- (frítt)

16-21 árskr. 5500.-

22-69 ára kr. 8500.-

70 ára og eldri kr. 0 (frítt)

Umræður:

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.  Engin mótatkvæði. 

  

  1. Kosningar skv. 6. grein laga félagsins

 Tillaga að stjórn:

Hákon Hákonarson formaður.

 Fimm voru í framboði sem eru, Gígja Magnúsdóttir, Gunnar Valsson, Sveinfríður Ólafsdóttir, Helena Kristinsdóttir, Rúnar Guðbrandsson.

Þeir sem eru kosnir í stjórn til tveggja ára:

Gígja Magnúsdóttir, Gunnar Valsson, Sveinfríður Ólafsdóttir, Rúnar Guðbrandsson.

Á aðalfundi 2015 voru fjórir kosnir til tveggja ára: Ragnhildur Traustadóttir, Oddrún Ýr Sigurðardóttir, Alexander Hrafnkelsson og Haukur Níelsson. Stjórnarmenn sem voru kosnir til tveggja ára 2014 eru: Ólafur Haraldsson, Gylfi Þór Þorsteinsson, Sigurður Guðmundsson og Gunnar Steingrímsson og gefa þeir ekki kost á sér aftur.

Kosning á þing og ársfundi fyrir félagið:

Tillaga lá fyrir fundinn frá fráfarandi stjórn að aðalfundur felur það í hendur stjórn félagsins að tilnefna úr röðum félagsmanna fulltrúa þess á ársþing UMSK. Þetta var samþykkt með lófaklappi.

Kosning skoðunamanna reikninga félagsins: (Skoða hvort að það koma nýjir inn)

Erna Arnardóttir og Ólöf Guðmundsdóttir gáfu aftur kost á sér sem skoðunarmenn félagsins. Það var samþykkt af fundarmönnum með lófaklappi.

Önnur mál

Jóna Dís Bragadóttir fráfarandi formaður félagsins þakkar fundarmönnum fyrir góðan fund og óskar þeim góðarar heimferðar.

Þröstur Karls þakkar fráfarandi stjórn og formanni fyrir vel undir störf

Bryndis talar um hvort hægt væri að laga völlinn. Jóna svarar að bærinn hafi styrkt okkur, keyrt var vikri og það var ekki nógu gott. Í vor átti að laga völlinn en ekki þótti þörf á og bíða aðeins. Best að fá nýtt efni eins og er notað í Fáki og Sörla, eigum pening og verður nýttur í völlinn.

Marteinn talaði um að á LM hafi verið blandað saman vikri og sandi saman.

Hefur ekkert verið gerð athsemd við aðkeyrsluna við Tungabakkavöll spyr Solla. Jóna svarar neitandi því miður. Er eitthvað nýtt og um að gera láta vita af því.

Ragnhildur spyr hvort að gaddavírsgirðing á Tungubakkavegi fari. Jóna svarar að þetta hafi verið rætt og stjórn reyndi eins og hún gat að láta banna þetta verður að koma frá bænum.  Valdimar segir að þetta hafi komið inn til beitanefndar og það er búið að tala við vikomandi. Sá er búin að skipta út hluta af girðingu. Valdimar talar um að gaddavír eigi ekki að vera á fjölförnum reiðvegi.

Valdimar talar um að hestamannafélagið sé komið með vörslu hrossa hjá bænum. Búið er að búa til battery í kringum þetta og lítið hefur verið að óskilahrossum núna í haust. Þarf að skipuleggja hóp í kringum þetta. Búið er að hækka handtökugjaldið á hross. Securitas er líka með símanr hjá þeim sem er á vakt hverju sinni. Hluti af hverju gjaldi rennur að hluta til þess sem er á vakt og hluti í sjóð.

Kristján spyr hvort samingurinn sé ekki endursemjanlegur, Valdimar segir að það hafi verið erfitt að semja um hann.  Talar um að þetta eigi að vera einhverjar kvaðir á félagsmenn. Enginn neyddur til þess að taka vaktir.

Þröstur Karls: Talar um Tungubakkahringinn, hvort það sé hægt að gera hlið með hjólastand þar sem hjólin eru lokuð inni og allir sáttari. Jóna Dís segir að þetta sé á leiðinni, hjólin eiga ekki að liggja í vegkantinum.

Hörður Bender þakkar Jónu og stjórn fyrir gott starf. Hörður býr í Mosfellsdal og er með hesta þar. Eru miklar áhyggjur af aukinni umferð um Dalinn, mikill hraði. Munaði litlu í sumar að það hefði farið illa. Erum búin að berjast mikið um að fá undirgöng ofar í Dalnum svo ekki þurfi að ríða yfir götuna. Þetta er í ferli og biðlar hann til fundsins að aðstoða við að áskorun frá stjórn að beiðni fundarins að þrýsta á að framkvæmdir fari að byrja. Tillagan var samþykkt af fundinum. Jóna talar um að mikið sé búið að senda bref vegna þessa mála og þetta hefur verið í brennidepli hjá félaginu.

Valdimar: Varðandi hjólin á Tungubakkavegi , þetta sé ófremdarástand. Hugmynd um að taka horn af beitarholfi til að finna lausn á þessu. Finnst honum þetta ekki góð lausn. Segir þetta vera spuring um einhverja 100 til 200 m sem betri lausn sé. Tillaga til stjórnar að fylgja þessu máli vel eftir. Ragnheiður talar um hvort ekki sé best að girða bara alveg fyrir.

Bryndís þakkar Jónu Dís gott samstarf, Jóna Dís þakkar fyrir það.

Helena talar um efnið sem var á enda vegsins við Tungubakka, talar hún um að starfsmaður Mos hafi sagt að þessi mön ætti að loka á milli reiðvegs og vegs. Jóna Dís kannast ekki við það.

Hákon Hákonarson, þakkar traustið. Ástæða félagsstarf gott og góð samstaða. Hlakka til að eiga samstarf við felögum. Vill að fundarmenn klappi fyrir fráfarandi stjórn og formanni.

Minnir jafnframt á hrossakjötsveisluna sem er haldinn um næstu helgi, hagnaður veislunnar er búið að ráðstafa í Harðarból sem styrkur.

Ragnhildur Traustadóttir þakkar Jónu Dís og gefur henni blóm í þakklætisskyni.

Fráfarandi formaður þakkar fyrir sig og slítur fundi.

Fundi slitið kl 22:00

Fundargerð ritaði: Oddrún Ýr Sigurðardóttir