Aðalfundur 2013

Dags. 7. nóvember 2013

                                                                                                           Haldinn í Harðabóli kl. 20.00.

Mættir 45 manns, þar með talið aðalstjórn. Mættir frá aðalstjórn: Alexander Hrafnkellsson (AH), Gunnar Steingrímsson (GS), Gyða Á. Helgadóttir (GAH), Gylfi Þór Þorsteinsson (GÞ), Jóna Dís Bragadóttir formaður (JD), Ragnhildur Traustadóttir gjaldkeri (RT), Sigurður Guðmundsson (SG).

Fjarverandi frá aðalstjórn: Auður Sigurðardóttir og Ólafur Haraldsson

1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fund og stingur upp á Marteini Magnússyni sem fundarstjóra og Gyðu Árnýju Helgadóttur sem fundarritara sem er samþykkt af fundarmönnum.

Fundarstjóri þakkar traustið og athugar hvort fundurinn hafi verið lögmætt boðaður, sem reyndist vera. Næst kynnir fundarstjóri dagskrá fundarins sem er skv. 5 grein laga Hestamannafélagsins Harðar.

Dagskrá skv.5. grein laga Hestamannafélagsins Harðar:

  1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.
  2. Formaður flytur skýrslu stjórnar.
  3. Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör.
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
  5. Reikningar bornir undir atkvæði.
  6. Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.
  7. Árgjald ákveðið.
  8. Kosningar samkvæmt 6. grein.
  9. Önnur mál.

2. Formaður flytur skýrslu stjórnar

Fundarstjóri kynnir Jónu Dís Bragadóttur formann sem flytur skýrslu stjórnar:

Haldnir voru 13 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.

Eftir að ný stjórn tók við keflinu í endaðan desember 2012 var rætt um það að fá bæinn til að standa við gerða samninga um styrki til félagsins og áttum við fundi með bæjarstjóra í janúar. Þar gerðum við grein fyrir því að bærinn þyrfti að standa við samning sem gerður hafði verið. Bæjarstjóri gerði okkur grein fyrir því að á meðan gjöld félagsmanna til afnota af reiðhöllinni væru eins lág og raun var að þá yrðu styrkir til félagsins ekki hækkaðir.

Stjórnin ákvað því í kjölfarið að hækka verð á lyklum í reiðhöllina. Styrkjunum var síðan fylgt eftir og seinnipart sumars var nýr samningur milli Hestamannafélagsins og Mosfellsbæjar undirritaðir og voru styrkir hækkaðir verulega og gilda þeir næstu 9 árin. Þeir eru aðgengilegir á heimasíðu Harðar.

Styrkur var jafnframt veittur til að laga keppnisvöllinn og er sá styrkur veittur á þriggja ára fresti næstu 9 árin.

Ákveðið var að reyna að koma upplýsingum betur til félagsmanna og byrjuðum við         á því að láta uppfæra og laga heimasíðuna og er hún að verða betri og betri. Við höfum einnig mikið notað fésbókarsíðu félagsins. Þá var miðum dreift í hús og má ef til vill gera meira af því. Fréttabréf Harðar birtist í Mosfellingi eins og undanfarin ár og voru upplýsingartöflur notaðar til að koma upplýsingum til félagsmanna. Einn liður í þeirri vinnu var að fara yfir félagatalið, safna netföngum og símanúmerum. Í framhaldi af þeirri vinnu sem er búin að vera mikil, höfum við tekið upp á því að senda póst á netföng félagsmanna og vonumst við til að geta komið upplýsingum betur til skila með þeim hætti.

Þorrablótið var haldið í janúar og var það með hefðbundnu sniði. Ágóðinn af því var 100.000 kr. og fór sú upphæði í stækkunarsjóðinn.

Árshátíð Harðar var haldin í fyrsta skipti í Harðarbóli 23. feb. Fagnaðurinn tókst vel og var almenn ánægja meðal félaga og ákveðið var að halda næstu árshátíð líka í Harðarbóli. Uppboðin á árshátíðinni skiluðu 210.000 kr. í stækkunarsjóð Harðar.

Áttavilltir gáfu félaginu 1.000.000 kr. í stækkunarsjóð Harðarbóls. Mikil hvatning hefur komið frá félagsmönnum um að stækka Harðarból.

Lífstöltið fór fram í mars og tókst með eindæmum vel og safnaðist 1.550.000 kr. sem afhent var Lífi styrktarfélagi kvennadeildarinnar. Skráningar aukast ár frá ári og er þessi viðburður orðinn fastur liður.

Helena Kristinsdóttir hélt hestaspurningakeppni milli hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu og safnaði 120.000 kr. sem fór í stækkunarsjóð vegna Harðarbóls.

Hestadagar voru haldnir á höfuðborgarsvæðinu 4.-7 apríl. Hörður tók þátt og var reiðhöllin opin og gefin var kjötsúpa, svali og kaffi. Teymt var undir krökkum og var reiðhöllin full af fólki. Einnig voru nokkur hesthús opin og fólk gat komið og fengið að skoða þau.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann mjög vel. Félagsmenn voru mjög virkir í að hreinsa í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk. Margir félagsmenn mættu á svæðið og tóku til hendinni. Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni.

Formannsfrúarkarlareið var farin frá Þingvöllum í Mosfellsbæ í maí. Í þá ferð fóru 40 karlar úr Herði og endað var á mikilli veislu í Harðarbóli. Ágóði af ferðinni var 170.000 kr sem rann einnig í stækkunarsjóð vegna Harðarbóls.

Stjórnin bauð bæjarstjórn Mosfellsbæjar og bæjarverkfræðingi á hestbak í vor og mæltist það vel fyrir, en miklu máli skiptir að eiga gott samstarf við forsvarsmenn bæjarfélagsins.

Farið var ríðandi í Fák í apríl. Veðrið var heldur kuldalegt en þó voru um 30 manns sem fóru ríðandi og aðrir keyrandi.

Fáksmenn koma ríðandi til okkar (Hlégarðsreið) 27. apríl og sáu Harðarkonur um sölu veitinga í Harðarbóli. Einnig var farið ríðandi í Heimsenda.

Náttúrureiðin/Grillreiðin var farin í endaðan maí og var hún mjög vel heppnuð.

Fjáröflun gekk þokkalega á á árinu og gerðir voru samningar við mörg góð fyrirtæki sem hafa stutt okkur í mörg ár. Einnig eru margir samningar í vinnslu sem hefur tekið langan tíma að klára sem munu snúa að almennum styrkjum til félagsins.

Reiðveganefnd hafði til ráðstöfunar framlag frá Landssambandi Hestamannafélaga

2.500.000 kr., framlag frá Mosfellsbæ 2.000.000 kr. til nýframkvæmda og 550.000 kr. til viðhalds reiðvega. Þetta fé hefur farið í að lagfæra reiðvegi hér allt í kring.

Haldin voru 10 mót sl. vetur. Öll þessi mót voru vel sótt og félaginu til mikils sóma og margir sjálfboðaliðar sem lögðu hönd á plóginn eins og vanalega. Öll mótin voru styrkt nema eitt.

Yfir 100 manns sóttu reiðnámskeið á vegum fræðslunefndar veturinn 2013. Boðið var upp á 11 mismunandi námskeið. Tveir fyrirlestrar voru haldnir, annar með Gunnari Arnarssyni og hinn var með Ingimari Sveinssyni. Báðir þessir snillingar gáfu vinnu sína og rann ágóðinn í æskulýðsstarfið.

Fræðslunefnd fatlaðra hélt 9 námskeið á vormánuðum 2013. Núna í haust 2013 eru skipulögð fimm, tíu vikna námskeið. Námskeiðin eru áfram haldin í samstarfi við Hestamennt ehf. en þau hafa útvegað 2 reiðkennara auk hesta og útbúnað fyrir nemendur. Sjálfboðaliðastarfið hefur gengið þokkalega vel en betur má ef duga skal. Samstarf hófst við FMOS og nemendur FMOS fá einingar fyrir að koma og aðstoða á námskeiðunum.

Starfsemi beitarnefndar var með svipuðu sniði á núlíðandi ári og verið hefur. Starf nefndarinnar felst m.a. í útleigu beitarhólfa í landi Mosfellsbæjar úttekt á hólfunum og umsjón með vöktum beitarþega.

Kvennadeildin sá um reiðtúra annan hvern miðvikudag í vetur og einnig sáu þær um veitingar þegar Fákur kom í heimsókn og kirkjukaffi sem var núna í ár í reiðhöllinni. Kvennadeildin um jafnframt um veitingar á stærri mótum sem haldin voru.

Hesthúseigendafélagið sá til þess að keyptar voru tvær myndavélar sem settar voru upp hjá Eysteini og hjá Alexander Hrafnkelssyni. Þriðja myndavélin er hjá Sigvalda Haraldssyni. Félagið hefur lagt peninga í að laga hringgerðin og einnig á að laga girðingar í sjúkrahólfinu.

Hestamannafélgið og Hesthúseigendafélagið ætla að fara í sameiginlegt átak varðandi uppbyggingu á Varmárbökkum. Á það við um, sjúkragerði, tamingatunnur, gestagerði og síðast en ekki síst ætlum við að fara í umhverfistátak. Einnig ætla þessi tvö félög að hvetja einstaklnga sem eru að nota svæðið að gerast félagar í Hestamannafélaginu, þó að það sé ekki skylda að vera í hestamannafélaginu, þá eru þessi sameiginlegu mannvirki aðeins ætluð félagsmönnum, þá eigum við við að þeir sem vilja nota beit, sjúkragerði, keppnisvöll eða reiðhöll, verði að vera félagsmenn í Herði. Þeir sem eru eigendur hesthúsa verða að vera í Hesthúseigendafélaginu

Skólamálanefnd hefur náð tilsettum árangri, gerðar hafa verið „Hæfniskröfur og kennsluviðmið“ hjá Menntamálaráðuneytinu fyrir „starfs- og verknám í hestamennsku á framhaldsskólastigi“

Félagsmenn höfðu samband við stjórn Harðar og lýstu yfir áhuga á því að fá Reiðmanninn, þ.e. nám sem kennt er út frá Hvanneyri hingað í Hörð. Stjórnin skoðað málið frá öllum hliðum og það var ákveðið að ganga til samninga við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um þessa kennslu hér í Herði. Þetta nám hefur farið vel af stað, en þegar eru búnar þrjár kennsluhelgar.

Æskulýðsnefnd bauð uppá fjölbreytta dagskrá og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagskrá vetrarins var mjög fjölbreytt og skemmtileg og á hinar ýmsu uppákomur voru að mæta milli 50 og 60 börn. Haldin var uppskeruhátíð æskulýðsnefndar nú í október þar sem mættu um 80 manns og þáðu glæsilegar veitingar. Töframaður kom og skemmti og síðan voru veittar viðurkenningar fyrir sl. ár.

Haldinn var hugarflugsfundur í október þar sem boðið var uppá kjötsúpu og síðan skipti fólk sér í hópa og ræddi ákveðin málefni. Upp úr þessu komu miklar og skemmtilegar umræður sem nú er verið að vinna úr.

Verið er að vinna í starfslýsingum nefnda og verða þær vonandi tilbúnar núna um miðjan nóvember þegar nýjar nefndir taka til starfa . Í 7. grein laga Harðar kemur fram að stjórnin eigi að leggja nefndum til starfsreglur í skipurnarbréfi og er verið að fylgja þessum reglum eftir.

Nú seinnipart sumars fengum við samþykkt að hefjast handa við lagfæringu á plani fyrir framan reiðhöllina og eru þær framkvæmdir nú þegar hafnar. Þar verður skurður lagaður, sett niður ræsi, sett niður reiðgerði sem félaginu var gefið fyrir nokkrum árum og bílastæði lagað. Næsta vor er síðan ætlunin að ganga frá brekkunni við innganginn í reiðhöllina.

Inni í reiðhöllinni eru framkvæmdir á næsta leiti, en þá verður kofinn sem þar er fjarlægður og stéttin steypt lengra fram og jafnframt á að koma upp handriði á stéttina til að minnka ágang frá moldargólfinu upp í stúkuna. Við vonumst til að þessar framkvæmdir muni koma í veg fyrir eða minnka óhreinindi á áhorfendapöllunum. Einnig verður byggt yfir þularstúku, en tæki sem þar eru liggja undir skemmdum.

Saga Harðar er að koma út næstu daga og er um mikið verk að ræða. Útgáfunefndin ásamt höfundi hefur lagt á sig mikla vinnu við að koma verkinu út. Nú þegar er búið að selja um 220 bækur. Búið er að hafa inn fyrir kostnaði. Prentuð verða 350 eintök af bókinni.

Ég hvet Harðarfélaga til að lesa ársskýrslur nefnda, þar sem ég fór á hundavaði yfir það sem nefndir hafa gert, en þar er nánar gerð grein fyrir þeirri starfsemi sem hver og ein nefnd stóð fyrir á árinu, skýrslunar liggja hér frammi og einnig fara þær á veraldarvefinn þar sem hægt verður að nálgast þær.

Eins og fram hefur komið er ljóst að mikið hefur verið unnið og gert hér í Hestamannafélaginu Herði á síðasta ári eins og undan farin ár. Það er mikill fjöldi félagsmanna sem leggur mikið á sig til að starfa fyrir félagið í sjálfboðavinnu, hvort sem það er fólk í nefndum félagsins eða ekki. Við í stjórninni erum ánægð með útkomuna á þessu ári og eins og fram hefur komið ætlum við að fara í hinar ýmsu framkvæmdir á næstu mánuðum. Við ætlum að leggja áherslu á það að hlúa að þeim eignum sem við eigum og viðhalda þeim, ásamt því að horfa fram á veginn. Við horfum því björtum augum til næstu ára, við eigum í góðum samskiptum við nærsamfélagið, skólana og bæjarfélagið og það er í raun ekkert sem getur stoppað félagið í að vaxa og dafna.

3. Skýringar á reikningum félagsins og kynnt 9 mánaða uppgjör

Fundarstjóri þakkar Jónu Dís fyrir skýrsluna og kynnir næsta dagskrárlið, Sigurður Guðmundsson (SG) skýrir reikninga félagsins.

SG tekur til máls. Breyting er á uppsetningu ársreikning en sundurliðun er ítarlegri og sýnir glöggt rekstur hverrar nefndar fyrir sig. Kjörnir endurskoðendur Birgir Hólm og Ólöf Guðmundsdóttir hafa yfirfarið og áritað reikningana. Áritanir eru án athugasemda.

Sigurður skýrir út ársreikninga félagsins sem liggja frammi og gefur greinagóðar upplýsingar. Einnig kynnir hann árshlutauppgjör til 31.09.2013

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

Fundarstjóri þakkar Sigurði fyrir útskýringar. Fundarstjóri óskar eftir athugasemdum frá fundarmönnum um skýrslu stjórnar og ársreikninga.

Fyrirspurnir frá fundarmönnum:

  • Fríða hefur athugasemd varðandi birgðir á ársreikningnum, skv. því þá eiga að vera til jakkar en þeir eru allir seldir.
    • SG þakkar henni fyrir ábendinguna, þetta verður lagfært.
  • Spurt um styrkinn frá Landsbankanum hvort hann hafi ekki komið?
    • RT svarar að það sé líklega öruggt.
  • Hákon spyr hversu lengi samningurinn er við Mosfellsbæ fyrir reiðhöllinni?
    • Guðjón svarar. Lánið hefði átt að klárast í ár (2013) en Mosfellsbær óskaði eftir að það yrði lengt í láninu.
  • Þröstur Karlsson þakkar stjórninni. Reikningar eru vel settir fram og gott að sjá tekjur. Smá tap frá almennri félagsstarfsemi en hefur athugasemd með liðina um sorphirðu og ræstingu í félagsheimili. Er þörf á að kaupa sorpþjónustu þegar Sorpa er hér steinsnar frá félagsheimilinu og svo er liðurinn um ræstingu og hreinlætisvörur hár. Óskar annars nýrri stjórn velfarnaðar.
    • RT svarar. Eins og sjá má þá var allt málað og húsbúnaður endurnýjaður í félagsheimilinu en svo getur hugsanlega verið einhver blöndun milli félagsheimilisins og reiðhallarinnar.

Fundarstjóri er ánægður með reikningana og þakkar sérstaklega fyrir þessa framsetningu. Félagsstarf gengur út á að það sé gegnsæi á reikningum.


 

5. Reikningar bornir undir atkvæði

Fundarstjóri ber upp ársreikninginn til samþykktar og er hann samþykktur með handaruppréttingu. Engin andmæli.

6. Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Fundarstjóri kynnir SG sem kynnir fjárhagsáætlun fyrir 2014.

Fundarstjóri opnar fyrir umræður og fyrirspurnir varðandi áætlunina

Fyrirspurnir frá fundarmönnum:

Engar fyrirspurnir komu frá fundarmönnum.

7. Árgjald ákveðið

Árgjaldið var:

  • 12 og yngri félagsgjald kr. 0.- (frítt)
  • 13-20 félagsgjald kr. 2.000
  • 21-69 félagsgjald kr. 7.500
  • 70 og eldri félagsgjald kr. 0.- (frítt)

Marteinn fundarstjóri flytur tillögu stjórnar að breyttum félagsgjöldum:

  • 15 ára og yngri kr. 0.- (frítt)
  • 16-21 árskr. 5000.-
  • 22-69 árakr. 8000.-
  • 70 ára og eldrikr. 0 (frítt)

Fyrirspurnir frá fundarmönnum:

Nokkur umræða varð um tillöguna. Verið er að bæta við þremur árum sem börn greiða ekki félagsgjald en á móti verið að hækka gjaldið lítillega á þeim sem greiða félagsgjald.

  • Spurt hvort það hafi verið kannað hvort það sé samræmi við félagsgjöld annarra félaga.
    • Ragna Rós svarar að þetta sé svipað og önnur félög.
  • Guðjón óskar er eftir rökstuðningi á hækkun félagsgjalda.
    • GÁH segir þetta eðlilegt og í raun ekki hátt miðað við þá verðbólguhækkun sem hefur orðið undanfarin ár.

Fundarstjóri ber tillöguna upp til samþykktar. Einn er á móti og skoðast tillagan því samþykkt.

8. Lagabreytingar

Fyrir fundinn lágu ekki fyrir neinar breytingar á lögum félagsins.

 

9. Kosningar skv. 6. grein laga félagsins

Tillaga að stjórn:

Jóna Dís Bragadóttir formaður. Samþykkt með lófaklappi.

Á aðalfundi 2012 voru fjórir kosnir til tveggja ára: Sigurður Guðmundsson, Gylfi Þór Þorsteinsson, Gunnar Steingrímsson og Ólafur Haraldsson. Stjórnarmenn sem voru kosnir til tveggja ára 2011 eru: Auður Sigurðardóttir, Alexander Hrafnkelsson, Gyða Árný Helgadóttir og Ragnhildur Traustadóttir.

Kjósa þarf því um FJÓRA stjórnarmeðlimi til tveggja ára. Þeir sem gefa kost á sér áfram er Alexander Hrafnkelsson og Ragnhildur Traustadóttir. Aðrir sem gefa kost á sér í stjórn Harðar til næstu tveggja ára eru:

Oddrún Ýr Sigurðardóttir              This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.      GSM 849-8088

Haukur Nielsson                               This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  GSM 865-8153

Engin önnur tillaga barst og engin andmæli og því er stjórnin réttkjörin.

Kosning á þing og ársfundi fyrir félagið:

Tillaga lá fyrir fundinn frá fráfarandi stjórn að aðalfundur felur það í hendur stjórn félagsins að tilnefna úr röðum félagsmanna fulltrúa þess á ársþing LH og UMSK. Þetta var samþykkt með lófaklappi.

Skoðunamenn reikninga:

Birgir Hólm og Ólöf Guðmundsdóttir gáfu aftur kost á sér. Það var samþykkt af fundarmönnum með lófaklappi.

Menntasjóður Laxness:

Guðjón gefur kost á sér til setu í Menntasjóði Laxness. Þetta var samþykkt með lófaklappi.

10. Önnur mál

Fundarstjóri gerir grein fyrir tillögu stjórnar að lagfæringum á lögum félagsins. Tillaga stjórnar er að skipuð verði laganefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög félagsins í heild sinni og að nefndin skili tillögum til lagabreytinga í október 2014. Lagt er til að nefndin skipi fimm manns og þar af tvo úr stjórn félagsins.

Fundarstjóri ber tillöguna til samþykktar með handaruppréttingu. Allir samþykkir, enginn andvígur.

Gunnar Örn gerir grein fyrir stækkun á Harðarbóli og gerir jafnframt grein fyrir byggingarnefndinni en í henni sitja: Gunnar Örn, Guðmundur (Brói), Steini raf, Gunni Vals, Sæmundur og Guðjón. Hann sýnir fundarmönnum teikningu sem var gerð af Guðjóni í Arkform og fyrrverandi formanni. Meiningin er að loka bíslaginu og að geymsla, ræstikompa og eldhús verði stækkað. Fjölga þarf jafnframt um eitt klósett á kvennasalerninu sem þá uppfyllir kröfur m.t.t. stækkunar félagsheimilisins. Nú þegar hafa safnast í sjóð fyrir stækkuninni um 2.000.000.- kr.

Hólmfríður Halldórsdóttir (Fríða) óskar eftir að eldhúsið verði stækkað strax.

Gunnar Örn upplýsir jafnframt að draumurinn sé að byrja nú í haust og fokheldi verði komið fyrir næstu árshátíð. Kostnaðurinn við þennan fyrsta áfanga yrði um 4.000.000.- kr. Hann hafi fengið góð viðbrögð frá birgjum, tilboðin eru betri en hann hefur séð. Guðjón og Sæmundur hafi líka lagt þessu lið með vinnu sinni.

Hákon spyr hvort það sé rétt skilið að það verða ekki notuð félagsgjöld. Gunnar svarar því að það sé réttur skilningur það verður aðeins notað styrktarfé.

Guðjón segir frá því að það hafi verið gerð kostnaðaráætlun fyrir nokkrum árum sem hafi verið um 18.000.000.- kr, hann mun ekki rukka fyrir hönnun og ekki Sæmundur heldur. Gunnar segir að hann hafi tekið þetta saman og hann reikni það út að kostnaður verði um 10.000.000.- kr. Eldhúsið verður ekki stækkað í þessum áfanga.

Fundarstjóri þakkar Gunnari fyrir og býður orðið.

Hólmfríður Halldórsdóttir (Fríða) kveður sér hljóðs og segir frá fræðslunefnd fatlaðra. Auður sem hefur verið í formennsku nefndarinnar er nú hætt og hún hafi tekið við en það vantar fleiri aðila til að starfa í og með nefndinni. Nú eru 5 námskeið sem eru fyrir einstaklinga 2-40 ára en þátttakendur eru 20 einstaklingar og hver einstaklingur þarf 3 aðstoðarmenn á námskeiðinu. Því óskar hún eftir aðstoðarmönnum. Hún er mjög stolt af þessu starfi en það er ekki hægt að gera þetta nema fyrir tilstuðlan Beggu (Berglindar Árnadóttur hjá Hestamennt). Það þarf að hafa fjóra í nefndinni en hún ætlar að fá gjaldkera félagsins til að aðstoða sem gjaldkeri nefndarinnar. Auglýsir eftir fleiri aðstoðarmönnum og sjálfboðaliðum.

Sigurður Straumfjörð Pálsson (Siggi Straumur) biður um orðið. Hann vill ræða tvennt, annars vegar viðskipti þar sem fjórhjól félagsins var selt og fenginn í staðinn traktor sem hann spyr hvort sé nothæfur og hinsvegar samskipti stjórnar varðandi Sumarsmell Harðar sl sumar, mínusinn var tap á mótinu en niðurstaðan að Magnús Ingi Másson (fyrrverandi formaður mótanefndar) sagði sig úr félaginu.

Guðjón fyrrverandi formaður var beðinn að útskýra viðskiptin varðandi traktorinn. Traktorinn átti að verða betri en fjórhjólið til að geta dregið herfið í reiðhöllinni. Tveir félagsmenn voru fengnir til að skoða umræddan traktor, annar þeirra keypti traktorinn og lét gera við hann á sinn kostnað. Félagsmaðurinn skipti svo á fjórhjólinu og traktorinum. Í dag er verið að nota traktorinn.

Varðandi Sumarsmellinn þá er Jóna Dís fyrir svörum. Jóna Dís var áður í mótanefnd. Stefna stjórnar var að hafa stjórnarmann í hverri nefnd. Eðlileg vinnubrögð mótanefndar hefur lengi verið sú að yfirfara hvert mót að yfirstöðnu móti. Gjaldkeri mótanefndar var ekki á svæðinu þegar umrætt mót var haldið og því tók gjaldkeri félagsins Ragnhildur Traustadóttir að sér að halda utan um fjármál mótsins. Magnús fékk aðila, Guðmund Björgvins til að sjá um veitingar án þess að ræða við kvennadeildina sem venjulega sér um þennan þátt. Þetta var gott mót en sjálfboðaliðar unnu um 12-14 klst. á sólarhring. Eftir mótið var haldinn rýnifundur með Ragnhildi, henni (Jónu Dís), Magnúsi Inga Mássyni og Guðmundi Björgvins. Gjaldkeri félagins Ragnhildur Traustadóttir upplýsti að mótið var í heild sinni í tapi. Keyptar voru veitingar fyrir um 430.000.- en veitingasalan var um 450.000.-kr Skráningargjöldin dugðu ekki fyrir verðlaunum, dómaralaunum og veitingum til dómara.

Sigurður vill benda á að samskiptin eru ekki eðlileg en í kjölfarið sagði öll mótanefndin af sér.

Jóna Dís bendir á að Sigurður var ekki á fundinum en það verður að vera hægt að hafa skoðannaskipti á fundum

Hólmfríður H (Fríða) var í eldhúsinu og var mjög ánægð að gefa kaffi alla helgina og uppskar góðan móral á svæðinu.

Súsanna Ólafsdóttir segir að það sé vont að samskipti eru ekki góð í flestum nefndum að þeim sé ekki treyst fyrir fjármálum og öðru sem það er að gera. Það þarf að passa að það kraumi ekki ólund í félaginu.

Jóna Dís segir að ekki sé rétt að vera að tjá sig um þessa hluti þegar aðilar eru ekki á staðnum. Magnús ætlaði alltaf að segja sig úr félaginu enda fluttur austur fyrir fjall.

Björk M bendir á að það þurfi að flýta að klára starfslýsingu nefnda.

Sigurður Straumfjörð segir þetta ábendingu um að bæta samskipti.

Súsanna Ólafsdóttir segir áhugamálið / hestamennskan margbreytileg og allir stunda hana á sinn hátt. Ekki láta slæm samskipti eyðileggja. Gott viðmót og gagnkvæm virðing skiptir máli.

Hólmfríður Ólafsdóttir fráfarandi formaður kvennadeildar segir að það hafi verið tekin ákvörðun sl vor að hafa einfalda veitingasölu sem skilar betri hagnaði því áður var mikið tap á veitingasölunni. Hún setur spurningamerki um hvort það hefði verið hægt að ræða það við kvennadeildina.

Oddrún Ýr Sigurðardóttir gremst þá umræðu að veitingar hafi verið slæmar hjá kvennadeildinni.

Þröstur Karlsson, stjórnin ber ábyrgð á störfum nefnda og rekstrarstjóri félagsins á að fylgjast með milli nefnda og stjórnar.

Hákon Hákonarson formaður Áttavilltra segist vera með tvö mál.

Hann gerir stutta grein fyrir félagsskapnum. Áttavilltir er opinn öllum karlmönnum í Herði. Í félagsskapnum eru 30 félagar. Félagið hefur verið að störfum í 2 ár og tilgangurinn er að efla samskipti og kynningu félaga. Þeir ríða út saman aðra hverja viku og grilla á eftir. Eiga fola – Áttavilltur frá Norður-Nýjabæ. Félagsmenn greiða félagsgjald til að reka folann en allur afrakstur fer í stækkunarsjóð Harðarbóls en m.a. fóru félagar og makar á Löngufjörur í sumar og afraksturinn var 270.000.- kr í tekjur.

Hitt málið er varðandi Húseigendafélagið.

  • Keyptar voru myndavélar sem sjá í myrkri og einfalt er að spila af vélunum.
  • Það stendur til að gera sjúkragerðið upp.
  • Færa reiðveginn við hringgerðið austan megin við.
  • Laga kerrustæðin og merkja stæðin fyrir eigendur.
  • Útbúa rúllustæði og setja umgengisreglur um það.
  • Snyrta umhverfið og setja lýsingu.
  • Gestagerðið verður byggt upp sem er mjög nauðsynlegt.

Það er til skammar að innheimta félagsgjalda gengur eins illa og raun ber vitni. Allir eru að nýta aðstöðuna sem verið er að byggja upp. Hann hvetur leigendur að ganga í félagið.

Þröstur Karlsson bendir á hvort ekki sé hægt að birta lista yfir fullgilda og skuldlausa félagsmenn. Marteinn svara því til að hann haldi að persónunefnd samþykki það ekki.

Anna Björk Eðvarðsdóttir bendir á hvort ekki sé hægt að hafa lykil að gerðunum sbr. reiðhallarlykilinn.

Þórir Kristmundsson segir að kerrur séu út um allt. „Naflinn sé fullur af greftri“. Þar eru kerrur, traktorar, bílar og fleira um allt og krakkar séu að reka sig í gálgann á traktorinum.

Marteinn fundarstjóri þakkar stjórninni og óskar nýrri stjórn til hamingju og öllum þeim sem koma að starfinu. Hann bíður Jónu Dís í pontu til að ljúka fundi.

Jóna Dís segir að ánægjulegt starfsár sé að baki. Hún tók við góðu búi. Hún var lengi í djúpu löginni með engan kút. Hún hafi tekið við starfinu 17.des sl. og þá hafi vetrarstarfið verið komið af stað. Nefndir voru þá fullmannaðar en það vantaði aðeins í mótanefnd. Hún segir frá því að mótanefndin verði tvískipt, önnur verði vetrarmótanefnd og Helena Kristin mun verða formaður hennar og hin mun sjá um stóru mótin. Hún leggur til að Sigurður Straumfjörð taki að sér að verða formaður þeirrar nefndar.

Það eru tveir stjórnarmenn að hætta í stjórn félagsins. Hún þakkar Gyðu Á. Helgadóttur fyrir vel unnin störf en hún er búin að sitja í stjórn félagsins í um 6 ár að henni minnir og var áður formaður æskulýðsnefndar. Auði Sigurðardóttir þakkar hún einni g góð störf en hún er að hætta í stjórn og einnig sem formaður Fræðslunefndar fatlaðra en Fríða (Hólmfríður H) tekur við af henni þar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22.10


Fundargerð ritaði: Gyða Árný Helgadóttir