Aðalfundur 2011

Hestmannafélagið Hörður Hestamannafélagið Hörður
Aðalfundur 2011

Dags. 24. nóvember 2011

Haldinn í Harðarbóli kl. 20.00

 

Mættir 54 manns, þar með talið aðalstjórn. Mættir frá aðal- og varastjórn: Guðjón Magnússon formaður (GM),  Guðný Ívarsdóttir gjaldkeri.(GÍ) ), Gyða Á. Helgadóttir meðstj.(GAH)., Sigurður Guðmundsson meðstj.(SG), Sigurður Ólafsson meðstj.(SÓ), Sigurður Teitsson meðstj. (ST), Ragnhildur Traustadóttir varam.(RT),  

 

Fjarverandi frá aðal- og varastjórn: Ingimundur Magnússon varam. Guðmundur Björgvinsson varam. og Hörður Bender meðstj.

Dagskrá skv.5. grein laga Hestamannafélagsins Harðar:

1)      Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

2)      Formaður flytur skýrslu stjórnar.

3)      Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör.

4)      Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

5)      Reikningar bornir undir atkvæði.

6)      Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.

7)      Árgjald ákveðið.

8)      Lagabreytingar.

9)      Kosningar samkvæmt 6. grein.

10)   Önnur mál.

11)   Fundarslit.

1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fund og stingur upp á Marteini Magnússyni sem fundarstjóra og Gyðu Árnýju Helgadóttur sem fundarritara sem er samþykkt af fundarmönnum.

Fundarstjóri þakkar traustið og kynnir dagskrá fundarins.

2. Formaður flytur skýrslu stjórnar

Fundarstjóri kynnir Guðjón formann sem flytur skýrslu stjórnar:

Haldnir voru 9 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.  Heimasíðan var notuð fyrir upplýsingaflæði til félagsmanna og upplýsingataflan  er einnig mikið notuð, upplýsingatöflu var bætt við, við innganginn í reiðhöllina. Fréttir af félagsstarfinu hafa svo birst reglulega í Fréttabréfi Harðar sem birtist reglulega í Mosfellingi en það samstarf hefur tekist vel.

 

Þau ár sem ég hef setið hér í stjórn hafa flest verið átakaár, það var barist við að fjármagna og undirbúa byggingu reiðhallarinnar, gengið var í gegnum erfiða samninga og mál sem drógu á tímabili úr manni allan mátt. Áskorunin að leiða félagið í gegnum hrunið og koma farssællega út úr byggingu reiðhallarinnar þrátt fyrir þær gríðarlegu forsendubreytingar sem fylgdu þessu svarta tímabili Íslandssögunnar. Eins og þið vitið sum sem hér sitjið, en ekki öll, þá munaði ekki miklu að hætt yrði við byggingu reiðhallarinnar haustið 2008, en þá átti ég örlagaríkt samtal við Harald bæjarstjóra, þegar hann sagði:" Guðjón, við erum ekki að fara að byggja reiðhöll núna, það er allt í rúst" og ég svaraði: „jú, við erum að fara að gera það". Það varð smá þögn, en svo svaraði hann: allt í lagi, ef þið treystið ykkur í það þá mun bærinn standa við sitt.  Þetta stutta samtal sýnir meira en nokkuð annað það traust sem hestamannafélagið Hörður nýtur hjá bæjaryfirvöldum, en þau hleyptu okkur af stað með framkvæmd sem á þeim tíma þótti óðs manns æði og við ollum þeim ekki vonbrigðum. Við þekkjum svo öll hvernið stór hópur félagsmanna innréttaði reiðhöllina og kláraði þar með dæmið, en nú eigum við eina glæsilegustu reiðhöll landsins.

Liðið ár hefur verið öðruvísi, margt er komið á lygnan sjó, stórframkvæmdunum er að mestu lokið svo hægt hefur verið að beita sér enn meir að félagsstarfinu, en það blés út og blómstraði samhliða átökunum við að koma reiðhöllinni upp.  Það er gott merki um velgengni þegar fólki finnst það geta gefið af sér til annarra, en það hefur Hörður svo sannarlega gert á liðnu ári, en félagsandinn sem hér ríkir er löngu orðinn landskunnur og samheldnin öðrum félögum fyrirmynd, en það kom berlega í ljós á formannfundi hestamannafélaga landsins sem haldinn var í byrjun nóvember. Þar voru fjölmargir sem ræddu við mig um þann frábæra félagsanda sem þau höfðu frétt af hér í félaginu.  Það sem ég er þó stoltastur af er það sem fær okkur til að gefa frá okkur til annarra. Við höfum það gott, höfum farið skynsamlega í okkar mál og erum með sterkari íþróttafélögum landsins hvort heldur að litið er til efnahags eða félagslegrar samstöðu. Það er okkur því ljúft og skylt að gefa frá okkur til samfélagsins. Við gerum það á ýmsan hátt í Herði. Við söfnum fé fyrir líknarfélög, við rekum heilbrigt barna og unglingastarf, við höldum reiðnámskeið fyrir fatlaða og reynum með því að auka hreyfigetu þeirra með aðstoð hestsins,  við höldum góð íþróttamót og styðjum okkar keppnisknapa til að standa sig í íþróttinni, við vinum að því að koma á kennslu í hestafræðum við framhaldsskóla landsins og fleira og fleira. Þessi vilji okkar til að gefa frá okkur hefur vakið athygli og má segja að það streymi til okkar viðurkenningar, nú síðast erum við tilnefnd til hvatningaverðlauna Öryrkjabandalags Íslands fyrir að stuðla að breytingu á ímynd fatlaðra og Samfélagssjóður Landsbankans veitir okkur 250.000.- kr. styrk til fræðslunefndar fatlaðra. Auk alls þessa er rekið blómlegt félagsstarf í félaginu  fyrir þann breiða hóp hestamanna sem þar eru félagsmenn, en félögum fjölgar stöðugt og eru nú komnir í á níunda hundraðið.

Á áðurnefndum formannafundi var okkur svo afhentur æskulýðsbikar Landssambands hestamanna, en það er æðsta viðurkenning sem hestamannafélag getur fengið fyrir vel unnið æskulýðsstarf og af öllum þeim viðurkenningum sem eru í boði í félagsstarfinu þá þykir mér best að fá þessi og hef litið þennan bikar löngunaraugum þegar honum hefur verið útdeilt til annarra félaga á liðnum formanna og landsfundum Landssambands hestamanna. En nú er hann kominn í hús.

Kvennadeildin stóð fyrir reiðtúrum fyrir Harðarkonur, annan hvern þriðjudag í vetur og voru þeir vel sóttir, þetta var nýjung í starfinu sem margar konur nýttu sér til æfinga, stuðnings og samveru. Endapunkturinn á þessu var svo formannsfrúarreiðin sem vikið verður að hér síðar.

Langbrókarmótið var haldið í Varmadal að þessu sinni og tóku húsráðendur vel á móti Harðarfélögum eins og svo oft áður.

Vetrarmótin voru öll haldin í reiðhöllinni og voru flestir fegnir að geta verið innan dyra, en veður voru með leiðinlegra móti í vetur.  Það var áberandi hvað margir nýir kepptu á mótunum og eru þau greinilega að þjóna þeim tilgangi sínum að koma fleiri að keppnisíþróttinni.

Páskaratleikurinn var haldinn þann 10. Apríl og er nú orðinn árlegur viðburður í starfi æskulýðsnefndar.

Þann 16. Apríl var riðið í Fák og fór Lilla þar fremst í flokki með stóran hóp félagsmanna.

Þann 30. Apríl tókum við á móti Fáksfélögum í kafaldsbil og kulda. Hópur reið á móti Fáki neðri leiðina, en þegar komið var upp fyrir Korputorg og ekkert bólaði á Fáksmönnum var snúið við, enda hafði þá borist boð frá þeim að þeir hefðu snúið við vegna veðurs.  Fararstjórinn okkar ætlaði ekki að trúa þessu á félaga sína í Fáki og þótti þetta ekki karlmannlegt. Mótreiðarhópurinn reið svo til baka og hitti um 20 Fáksfélaga í Harðarbóli sem höfðu komið akandi að þessu sinni.

Firmakeppni Harðar fór fram þann 1.maí að venju

Þann 13.-15. Maí var haldið opið WR íþróttamót Harðar

Formannsfrúarreið Harðarkvenna var farin 21.maí og tókst vonum framar. Hestar Harðarkvenna voru keyrðir á Skógarhóla um morguninn af Harðarmönnum og voru rúmlega 70 hross flutt á Þingvöll.  Eftir got stopp á Þingvöllum var riðið til baka í Mosfellsbæ, bill með kerru, járningartólum og fl. fylgdi hópnum, en lítið var fyrir hann að gera nema deila út kaffi og öðrum veitingum.  Síðan var haldin veisla í Harðarbóli langt fram á kvöld.

Náttúrureið var riðin í Kjalarnesrétt þann 28. Maí, þar var  grillvagninn mættur og fólk skemmti sér við gítarspil og söng fram eftir degi.

Kirkjureið var þann 29. Maí hún var með hefðbundnu sniði, riðið til kirkju að Mosfelli og að því loknu buðu Harðarkonur í kirkjukaffi í Harðarbóli.

Gæðingamót Harðar var haldið3.-5. Júní, en mótið var einnig úrtaka fyrir Landsmót

Landsmót á Vindheimamelum var haldið daganna 26. Júní - 3. Júlí, það er ánægjulegt frá því að segja að þar slógu Harðarfélagar met hvað varðar þátttöku í sjálfboðaliðastarfi af félögunum hér sunnanlands.  Landsmót ehf er að færa Landsmótin aftur til félaganna en liður í því er að bjóða félagsmönnum að vinna í sjálfboðavinnu á Landsmótinu við lét störf, 4 til 8 tíma hver. Landsmót greiðir síðan því félagi sem sjálfboðaliðinn er í 1500 kr. Fyrir hvern unninn tíma.  Eðli málsins samkvæmt þá voru félögin í Skagafirði með flesta tíma, en fast í hæla þeirra kom Hörður.             

Harðarkrakkar náðu frábærum árangri á Íslandsmótinu þetta árið.

Hörður heldur áfram með námskeið fyrir fatlaða og verða haldin 4 námskeið fram að jólum.

Markmið námskeiðsins:

  • Eiga frábæra stund saman í skemmtilegur umhverfi
  • Geti umgengist hesta af öryggi og óttaleysi
  • Að kynnast hestinum og læra undirstöðuatriði í umhirðu hestsins.
  • Lært undirstöðuatriði í reiðmennsku eftir getu hvers og eins
  • Auka sjálfstæði og færni í samskiptum við hesta
  • Að bæta líkamsvitund
  • Að auka samhæfingu handa, fóta og skynfæra.
  • Styrkja leiðtogahlutverk í samskiptum við hestinn.

Lagt er áhersla á fjölbreytni og að allir nemendur fái sem mest út úr námskeiðinu eftir þörfum hvers og eins.

Kennslan er í höndum reyndra leiðbeinanda með margra ára reynslu í reiðkennslu fatlaðra, sjúkraþjálfari verður til taks sem og aðrir aðstoðarmenn eftir þörfum.

Samdar voru og samþykktar reglur um það hvernig félagið tekur á einelti og áreiti ef það skyldi koma upp í félagsstarfinu.

Félagið hefur ráðið Rekstrarstjóra, en það stóð alltaf til með tilkomu reiðhallarinnar og hefur sýnt sig að vera nauðsynlegt. Reiðhöllin var farin að láta á sjá, enda ekki sinnt nema í sjálfboðaliðastarfi, en slíka vinnu er ekki hægt að fara fram á að menn vinni í sjálfboðavinnu til lengdar. Rekstrarstjórinn er Ragna Rós Bjarkardóttir.

Harðarból hefur verið málað og tekið í gegn eins og þið sjáið og verið er að undirbúa viðbyggingu hér vestan við húsið sem mun stækka salinn þannig að hann tekur um 150 manns þegar hann er full setinn. Þetta mun gera húsið leigjanlegra til veisluhalda, en það þykir full lítið eins og er fyrir margar veislur.

Framhaldsskólinn og Hörður hafa tekið upp samstarf og eru nú kenndar 4 stundir í viku í hestafræðum við skólann. Verið er að undirbúa viðamikið nám með 70 einingum til stúdents í samráði við Búnaðarsambandið og Félag tamningarmanna, en stefnt er á að full kennsla við þessa nýju braut hefjist haustið 2013. Ef vel gengur mun námið svo vera yfirfært á aðra framhaldsskóla landsins.

Samningum og öðrum formlegheitum varðandi skítalosun í Sogunum hér uppi við Stardal er nú lokið og er Herði heimillt að losa allan þann skít sem kemur frá hesthúsunum þar.  Um er að ræða metnaðarfullt samstarf Harðar, Mosfellsbæjar og skóræktarfélagsins um sjálfbæra förgun á skít og uppgræðslu og gróðursetningu. Unnið verður að því að þarna verð skjólsæl beitarstykki reið og göngustígar og útivistasvæði með snyrtingum og grillaðstöðu. Verkefnið hefur fengið vottun og er viðurkennt af stofnunum EB.  Rekstrarstjórinn okkar hún Ragna Rós mun halda utan um aðgang að svæðinu, en fyrirkomulagið verður kynnt fljótlega.

Vinna hefur staðið yfir hjá Mosfellsbæ um val á staðsetningu fyrir nýtt hesthúsahverfi, en núverandi hverfi er að verða fullbyggt og því verður fljótlega þörf á nýju hverfi. Sú staðsetning sem nú er unnið með er svæði ofan við vaðið sem er neðan við Oddsbrekkunna á móts við Tjaldanes. Ég sé ekki betur en þetta sé góð staðsetning út frá okkar sjónarmiði, stutt verður á milli hverfanna, landið hallar mót suðri, það er sólríkt og ekki í skugga af fjöllum.

Bent hefur verið á að Mosfellsbær hefur algjöra sérstöðu hvað varðar hlutfall bæjarbúa sem eru í hestamennsku, en það lætur nærri að um 10 % bæjarbúa séu í hestamannafélaginu, að auki telur LH að 2-3 til viðbótar stundi hestamennsku án þess að vera formlega skráð í félag, svo iðkendur hestamennsku í Mosfellsbæ gætu numið yfir 20 % af íbúafjöldanum.  Áætlanir sveitafélagsins byggja á því að þetta hlutfall haldist, þannig að þegar nýbúum fer að fjölga á ný þá muni skapast þörf fyrir fleiri hesthús.

Helgi Sigurðsson dýralæknir og sagnfræðingur hefur nú skilað handriti af sögu félagsins til Aðalstjórnar og liggur það hér frammi til skoðunar. Handritið er nú til yfirlestrar og er stefnt að því að gefa út veglega bók strax á næsta ári.  Áætlaður kostnaður við útgáfuna er um 2,5 millj. kr. en það verður fjármagnað með styrkjum og sölutekjum af bókinni.  Við munum standa fyrir forsölu á bókinni og munu þeir sem kaupa bókina í forsölu fá nafn sitt prentað í hana.  Þeir sem vilja skrifa sig á þennan lista geta gert það núna, en hann verður látinn ganga hér á eftir. Áætlað er að prenta um 200 eintök af bókinni til að byrja með og verður verð hennar í þessari forsölu 7.500.- krónur

Notkun reiðhallarinnar verður að mestu leiti á vegum æskulýðsnefndar, fræðslunefndar og nýstofnaðrar fræðslunefndar fatlaðra,  en félagar geta keypt sér rafrænan lykil og notað höllina þegar ekki eru þar formleg námskeið. Vellinum verður tvískipt, þannig að reiðkennsla getur verið í einum endanum og almennir félagsmenn við æfingar í hinum. Það verður bannað að fara inn í reiðhöllina með hest án slíks lykils.  Sjálfvirkt eftirlitskerfi heldur svo skrá yfir það hverjir eru í reiðhöllinni hverju sinni.  Rafrænn lykill mun áfram kosta 4.000.- kr. fyrir fullorðna, yfir 22 ára, og 2.000.- kr. fyrir ungmenni undir 22. ára aldri.

Eins og ég hef áður sagt er það ekki markmið okkar að skila miklum hagnaði, þeim fjármunum sem við öflum á að beina út í félagsstarfið þar sem þeir gera félagi og félagsmönnum gang. Það er ekki okkar stefna að safna digrum sjóðum, nema þeim sem við bindum í eignum sem við notum í þágu félagsstarfsins.  Undanfarin ár höfum við skilað 200 til 300 þús.kr. hagnaði að meðaltali.  Hagnaður ársins 2010 var hins vegar um 3 millj. af  reglulegri starfsemi og jukust tekjur milli ára  úr um 13.8 millj. 2009 í 17,5 millj. árið 2010.  Þessi hagnaður varð einkum vegna þess að hestapestin dró úr félagsstarfinu og þar með kostnaði seinni hluta vetrar. Þessum hagnaði er svo  verið að skila út í félagsstarfið á þessu ári, en 10 mánaða uppgjör ársins 2011 sýnir tap upp á um eina milljón, sem skýrist af því að við erum að nota hagnað ársins 2010 til félagsstarfsins 2011. Ég vil benda á að árgjöld félagsmanna eru aðeins að skila um 2 millj. af veltu félagsstarfsins sem er nú um 20 mill. eða um 10% af tekjum félagsins. 90% af tekjum félagsins kemur því í formi styrkja, framlaga fyrirtækja og sjálfaflafés okkar sem rekum félagið í stjórn þess og nefndum.  Í þessum tölum er að sjálfsögðu ekki tekið tillit til þess hagnaðar sem rennur í félagið vegna fjármögnunar reiðhallarinnar, en sé tekið tillit til þess þá er hagnaðurinn rúmlega 22 millj. á árinu 2010. Efnahagsreikningurinn er orðinn stór og er  bókfært eigið fé nú orðið um 173 milljónir og staða félagsins betri en flestra sveitafélaga landsins, eins og einhver sagði.  Skuld vegna fjármögnunarsamnings reiðhallarinnar er um 49.millj. en framlög frá Mosfellsbæ höggva í þá skuld ár hvert.  Mosfellsbær samdi um að fá að lengja í framlögunum um tvö ár og var fjármögnunarsamningurinn stilltur af miðað við það og greiðir Mosfellsbær allan kostnað sem af því hlýst.

Sigurður Guðmundsson lögmaður okkar og bókari fer betur yfir fjármálin hér á eftir.

Kæru félagar, síðastliðið vor var ég farinn að undirbúa mig og félagið undir að ég hætti sem formaður, enda gera lög félagsins ekki ráð fyrir að formaður sitji nema fjögur ár. Þegar menn áttuðu sig á þessu komu félagsmenn til mín í tugatali og fóru þess á leit við mig að ég legði fyrir aðalfund breytingartillögu á lögunum þannig að formaður gæti setið lengur ef hann og félagsmenn kysu svo.

Hvað mig varðar þá er það skýrt að hefði þetta ákvæði ekki verið í lögunum þá hefði ég boðið mig fram til formanns annað ár.  Til þess liggja nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi þá eru fjögur ár í þessu starfi ekki langur tími, að minnsta kosti ekki þegar verkin sem unnin eru, eru jafn víðfeðm og við höfum verið að takast á við undanfarin ár. Það tekur tíma að kynnast innviðum félagsins, innviðum stjórnsýslunnar sem svo margt byggist á og öðlast traust þeirra sem við vinnum fyrir og með. Það er margt á mínum aðgerðarlista sem ég get sett hak við og sagt, þetta er búið, en enn eru þó eftir nokkur verkefni sem ég hefði kosið að klára sem formaður ykkar og ber þar hæst menntamálin í framhaldsskólanum sem eru á mjög viðkvæmu stigi núna.

Af hverju þetta ákvæði um takmarkaða formannssetu er í lögunum skil ég satt að segja ekki.  Mér hefur verið sagt að það hafi verið sett inn til að auðvelda félagsmönnum að losna við þaulsetinn latan formann ef til þess kæmi, eins konar sjálfvirkur sleppibúnaður, og ekki síður að gefa sitjandi formanni færi á að fara frá án þess að finnast hann vera að svíkja félagið.  Nú finnst mér að þið sem hér sitjið sæmilega ákveðinn og sjálfstæður hópur og varla ætti það að vefjast fyrir ykkur að kjósa burt óhæfan formann og ef formaður vill fara, þá fer hann, eins og hefur sýnt sig allt of oft í gegnum tíðina hér hjá Herði. Það er nefnilega þannig að þegar maður skoðar formannatalið þá kemur í ljós að formenn sitja almennt mjög stutt hin seinni ár og hafa því ekki þann tíma sem það tekur að ná almennilega utan um starfið.  Þegar ég tek við sem formaður þá kom á undan löng runa af eins til tveggja ára formönnum.

Alls hafa18 manns gegnt formennsku í Herði þau 61 ár sem félagið hefur starfað.  Aðeins þrír formenn hafa enst lengur en fjögur ár, en það voru þeir Gísli Jónsson fyrsti formaðurinn okkar sem var formaður frá 1950-1953 og svo aftur frá 1962-1963 eða í fimm ár,  Kristján Þorgeirsson sem var formaður frá 1955-1961 eða í 6 ár, og Pétur Hjálmarsson sem var formaður frá 1964-1973 eða í níu ár. 1 hefur setið í fjögur ár, en það er ég sjálfur,  3 hafa setið í þrjú ár og 11 í eitt til tvö ár. Það vita það allir sem komið hafa að stjórn- og eða félagsmálum þar sem verið er að vinna með skipulags og uppbyggingarmál að það gerist ekkert á einu til tveimur árum. Það gerist hins vegar margt á fimm til tíu árum og þegar þannig stendur á þarf að vera svigrúm fyrir félagið að kjósa formann lengur en í fjögur ár samfleytt.

Það verður sem sagt lögð fram breytingartillaga hér á eftir þess efnis að felld verði út setningin sem takmarkar setu formanns við fjögur ár. Eftir þá umræðu og væntanlega kosningu um tillöguna mun ég taka ákvörðun um það hvort ég bjóði mig fram aftur til formanns. Tveir þriðju hlutar greiddra atkvæða þarf til að lagabreytingar nái fram að ganga, en  ef áberandi andstaða verður við tillöguna mun ég ekki gefa kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður, ég vil vera formaður allra Harðarfélaga eins og hingað til, ekki bara sumra.  Og þó ég vilji gjarnan halda áfram að vinna fyrir félagið, þá er það mér ekki það kappsmál að ég vilji stuðla að hinni minnstu sundrung til þess að svo megi verða og ég verð hvorki sár né leiður kjósið þið kæru félagar að halda lögunum óbreyttum.

Önnur breytingartillaga felur í sér að breyta  lögunum um kosningu í aðalstjórn félagsins. Eins og nú er þá hefur lagagreinin oft verið túlkuð á þann veg að þrír þurfi að ganga úr aðalstjórn ár hvert og þrír nýir að koma inn í staðinn.  Þetta  hefur verið leyst með því að taka þrjá út úr aðalstjórn og setja þá niður í varastjórn og færa varastjórnarmennina upp í aðalstjórn.  Þó allir segist skilja þetta, þá er það mjög vont fyrir félagið svo ég tali nú ekki um vandræðalegt að þurfa að biðja góðan stjórnarmann að hypja sig eða taka sæti í varastjórn eftir tveggja ára setu.  Raunin hefur líka verið sú að varastjórn er boðuð á alla stjórnarfundi og gefur þar frá sér til félagsins jafnt á við aðra stjórnarmenn. Það er því lagt til að átta meðstjórnendur verði kosnir til tveggja ára þannig að fjórir stjórnarmenn gangi úr stjórn ár hvert, en þeir sem ganga úr stjórn með þessum hætti geta verið endurkjörnir.  Þá eru allir þeir sem til stjórnarsetu eru kosnir jafn virkir og jafnt metnir.

Þriðja lagabreytingin lítur að því að samræma þann aldur sem aðilar þurfa að hafa náð til að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið við gildandi landslög um sjálfræði og fjárræði, en sá aldur hefur verið hækkaður úr 16 ára í 18 ára eins og menn þekkja.

3. Skýringar á reikningum félagsins og kynnt 9 mánaða uppgjör

Fundarstjóri þakkar Guðjóni fyrir skýrsluna og kynnir næsta dagskrálið, Sigurður Guðmundsson (SG) skýrir reikninga félagsins.

SG tekur til máls. Löggiltur endurskoðandi, Þórhallur Björnsson, yfirfór og áritaði ársreikning. Einnig hafa kjörnu endurskoðendurnir Birgir Hólm og Leifur Kr. Jóhannesson yfirfarið og áritað reikningana. Áritanir eru án athugasemda.

Sigurður skýrir út ársreikninga félagsins sem liggja frammi og gefur mjög greinagóðar upplýsingar.  Einnig kynnir hann árshlutauppgjör út október 2010 sem er einum mánuði meira en gert er ráð fyrir í lögum félagsins.

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

Fundarstjóri þakkar Sigurði fyrir útskýringar. Fundarstjóri óskar eftir athugasemdum frá fundarmönnum um skýrslu stjórnar og ársreikninga. 

Fyrirspurnir frá fundarmönnum:

  • Varðandi lið 7 í sundurliðun. Hvers vegna er allt á núlli fyrir árið 2010?

o   SG svarar og segir þetta vera þar sem þessi liður var fluttur yfir á rekstur reiðhallar sem telst eðilegra.

  • Nefndarkostnaður í lið 6, hvaða kostnaður er þetta og af hverju er ekki sundurliðað á nefndir s.s. æskulýðsnefnd, fræðslunefnd, mótanefnd osfv?

o   SG svarar og segir það aldrei hafa verið sundurliðað en hinsvegar mætti breyta því og í raun eðlilegt að gera og myndi auðvelda fjármálastjórnun.  Einnig mætti vera sundurliðaður hreyfingalisti frá nefndunum t.d. hvernig hvert mót kemur út osfrv.

  • Langtímaskuld félagsins vegna reiðhallarinnar. Hvenær verður hún greidd upp?

o   ST svarar og segir frá því að Mosfellsbær fór þess á leit við félagið eftir efnahagshrunið að fá að greiða sinn hluta sbr. samning á lengri tíma. Það átti að vera greitt upp skv. samningnum árið 2012 en verður í staðinn árið 2014.

Ekki voru fleiri fyrirspurnir. Fundarstjóri tekur fram að skoðunarmenn fóru vel yfir og samþykktu allir ársreikninginn.

5. Reikningar bornir undir atkvæði

Fundarstjóri ber upp ársreikninginn til samþykktar og er hann samþykktur samhljóða með handaruppréttingu.

6. Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Fjárhagsáætlun er á blöðum og liggur frammi, á borði stjórnar. SG kynnir fjárhagsáætlun félagsins fyrir næsta ár.

Fundarstjóri opnarfyrir umræður og fyrirspurning varðandi áætlunina

Fyrirspurnir frá fundarmönnum:

  • Hvernig er áætlað að greiða nýráðnum starfsmanni laun.

o   GM svarar. Sótt var um styrk, „sérstakt átaksverkefni" frá Vinnumálastofnun sem var samþykkt eftir töluverða eftirfylgni. Verkefnið tekur 6 mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að starfsmaður geti selt fleiri auglýsingar, að útleiga á félagsheimilinu verði meiri og að starfsmaður geti sinnt fjáröflun meira en sjálfboðaliðar geta gert.

Ekki fleiri fyrirspurnir varðandi ársáætlun.

7. Árgjald ákveðið

Ekki eru gerðar tillögur að breyttri gjaldskrá fyrir árgjaldið. Árgjaldið er:

  • 12 og yngri félagsgjald kr. 0.- (frítt)
  • 13-20 félagsgjald kr. 2.000
  • 21-69 félagsgjald kr. 7.500
  • 70 og eldri félagsgjald kr. 0.- (frítt)

Þetta er samþykkt.

8. Lagabreytingar

Með fundarboði voru sendar tillögur að lagabreytingu. Fundarstjóri les upp tillögu að breytingu. Um er að ræða breytingu á 6. grein laga félagsins.

6.grein í lögum félagsins hljóðar nú svo:

Stjórn félagsins skipa sjö manns. Stjórnin skiptir með sér verkum að undanskildum formanni sem kosin er beinni kosningu. Skal hún kosin á aðalfundi samkvæmt eftirfarandi reglum.

Formaður skal kosin til eins árs og getur verið endurkjörin þrisvar sinnum.

Sex meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að þrír gangi úr stjórn ár hvert.

Þrír varastjórnarmenn til eins árs sem taka sæti í aðalstjórn eftir atkvæðamagni.

Einnig skal á aðalfundi kjósa tvo skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs.

Þá skal og kjósa fulltrúa á ársþing og aðalfundi þeirra samtaka sem félagið á aðild að, að því undanskyldu að formaður er sjálfkjörinn. Einungis félagar eldri en sextán ára eru kjörgengir í slíkum kosningum.

Tillaga er gerð um að 6. grein í lögum félagsins hljóði eftirleiðis svo:

Stjórn félagsins skipa átta manns auk formanns.  Stjórnin skiptir með sér verkum að undanskildum formanni, sem kosinn er beinni kosningu.  Kosning stjórnar og formanns félagsins skal fara fram á aðalfundi félagsins samkvæmt eftirfarandi reglum:

Formaður skal kosinn til eins árs í senn og getur verið endurkjörinn.

Átta meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að fjórir stjórnarmenn gangi úr stjórn ár hvert.  Þeir sem ganga úr stjórn með þessum hætti geta verið endurkjörnir.

Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs í senn.

Þá skal og kjósa fulltrúa félagsins á ársþing og aðalfundi þeirra samtaka sem félagið á aðild að en formaður félagsins skal þó teljast vera sjálfkjörinn. 

Einungis félagar eldri en átján ára eru kjörgengir í kosningum til stjórnar, formanns félagsins, til að vera skoðunarmenn ársreikninga og til að vera fulltrúar félagsins á ársþingum og aðalfundum þeirra samtaka sem félagið á aðild að.

Allar síðari lagabreytingar skulu staðfestar af stjórn hlutaðeigandi héraðssambands og framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Skýring:

Markmiðið með þessum lagabreytingum tvíþætt,  Það fyrra er að formaður geti setið lengur en í 4 ár. Það tekur tvö til þrjú ár fyrir nýjan  formann að ná tökum á starfinu, kynnast fólki innan kerfisins og öðlast traust innan þess.  Það er fyrst á fjórða ári sem róðurinn fer að léttast.  Ef sitjandi formaður er tilbúinn að leggja það á sig að vinna áfram fyrir félagið og félagsmenn og aðalfundur óskar þess eindregið þá er óeðlilegt að lagasetning félagsins banni það.

Annað er að það hefur tíðkast í að minnsta kosti áratug að bæði aðalstjórn og varastjórn er boðuð á stjórnarfundi. Þar vinna allir saman að málefnum félagsins og veitir ekkert af. Það virkar því illa að sumir séu í aðalstjórn en aðrir í varastjórn. Einnig er það óþægilegt og vandræðalegt að þurfa að biðja duglegan aðalstjórnarmann að víkja og færa sig niður í varastjórn þar sem lög félagsins kveða svo um að þrír þurfi að ganga úr stjórn ár hvert. 

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 verða menn sjálfráða og fjárráða átján ára en fyrir gildistöku laganna urðu menn sjálfráða sextán ára.  Eðlilegt og rétt er að þeir aðilar sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið séu sjálfráða.

Fundarstjóri opnar fyrir umræðu um lagabreytinguna:

  • Þórhildur biður fólk að staldra við og spyrja sig hvað þetta þýðir. Núverandi formaður stendur sig vel og hefur gert. Þetta snýst ekki um Guðjón. Hún kvetur fundarmenn að ræða lagabreytinguna. Í félaginu eru ólíkir hópar en það er mjög erfitt að einhver bjóði sig fram gegn sitjandi formanni. Getur þetta leitt til þess að ákveðnir hópar verði ekki eins virkir. Með nýju fólki koma nýjar áherslur - ferskir vindar sem er gott en það getur verið óþægilegt að taka afstöðu um þessa breytingu . Tölum opinskátt. Það er óviðeigandi að hafa kosninguna opna og leggur til að hafa hana skriflega.
  • Helena. Hver tekur við ef kosning verður núna og bendir á að það er ekki sjálfssagt að fá annan formann.

o   SG svarar. Um er að ræða tillögu um lagabreytingu. Formenn eru kosnir til eins árs í senn. Engin breyting á því

  • Lína spyr, af hverju voru lögin sett svona og hvenær?

o   Fundarstjóri svarar. Það var gert til að koma í veg fyrir að formenn sætu of lengi og erfitt að bjóða sig gegn sitjandi formanni.

  • Ólafur biður fundarmenn að hafa í huga að iðulega er vandamál að fá fólk til starfa og við eigum að vera þakklát fyrir þá sem vilja vera lengur en 4 ár. Hann vinnur hjá Mosfellsbæ og hefur átt mikil og góð samskipti við Hörð. Þessi takmörkun á hversu lengi formaður má sitja er mjög óvanaleg grein í lögum félags.
  • Pétur spyr Sigurð Guðmundsson lögfræðing. Má fara millileið?

o   GM gefur ekki kost á sér ef farin verður millileið. Hann vill ekki valda úlfúð og gefur aðeins kost á sér ef mikill meirihluti sé samþykkur því.

o   SG upplýsir að 2/3 hlutar fundarins verði að samþykkja til að þetta verði samþykkt. Annars verður að koma önnur tillaga á fundinum. Með þessari breytingu er verið að auka lýðræðið í félaginu

  • Guðmundur Borgar. Það er klárt að verið er að auka lýðræðið í félaginu.
  • Nýr og óháður félagsmaður (ónefndur). Eins og fram hefur komið á fundinum þá hafa formenn ekki setið nema stuttan tíma í einu. Erfiðast er því að fá góða formenn til starfsins.
  • Þórhildur segir gott að tala um þetta, það hafi skapast flott umræða. Hún segist sátt við hvaða niðurstöðu sem er en vildi skapa umræðu.

Fleiri voru ekki á mælendaskrá. Fundarstjóri skipar menn til að halda utan um leynilega kosningu. Miðum er dreift. Skrifa á annað hvort „Já" eða „Nei" á miðann. Miðunum safnað saman og talningamenn fara afsíðis.

Niðurstaða kosningar:

  • 47 sögðu Já
  • 7 sögðu Nei

Lagabreytingin telst því samþykkt.

9. Kosningar skv. 6. grein laga félagsins

Tillaga að stjórn:

Guðjón Magnússon formaður.

Á aðalfundi 2010 voru þrír kosnir til tveggja ára: Sigurður Guðmundsson, Sigurður Ólafsson og Hörður Bender. Því þarf að kjósa um fimm stjórnarmeðlimi til tveggja ára. Þeir sem gefa áfram kost á sér í stjórn félagsins eru: Ragnhildur Traustadóttir, Guðmundur Björgvinsson og Gyða Á. Helgadóttir. Óskað er eftir að fundarmenn gefi kost á sér. Þeir fundarmenn sem gefa kost á sér eru: Karl Már Lárusson, Auður Sigurðardóttir og Alexander Hrafnkellsson.

Í Kjöri eru því:

  • Ragnhildur Traustadóttir
  • Guðmundur Björgvinsson
  • Gyða Á. Helgadóttir
  • Karl Már Lárusson
  • Auður Sigurðardóttir
  • Alexander Hrafnkellsson

 

Skoðunamenn reikninga: Leifur Kr. Jóhannesson og Birgir Hólm

Fulltrúar á þing UMSK: Auk formanns félagsins sem er sjálfkjörin er tillaga að formaður æskulýðsnefndar muni sitja þingið fh. Hestamannafélagsins Harðar.

Afreksmannasjóður: Auk formanns félagsins sem er sjálfkjörin er tillaga að gjalkeri félagsins sitji í nefnd

um afreksmannasjóð.

Fundarstjóri skipar menn til að halda utan um leynilega kosningu. Miðum er dreift. Skrifa á fimm nöfn af þeim sem eru í kjöri á miðann. Miðum safnað saman og talningamenn fara afsíðis. Ákveðið að fara beint í dagskrárlið 10, meðan beðið er eftir niðurstöðu kosningar.

Eftir talningu og kosningu með handauppréttingu lá eftirfarandi fyrir:

Samþykkt Guðjón Magnússon formaður

Úrslit leynilegrar kosningar í aðalstjórn:

  • Ragnhildur Traustadóttir - 51 atkvæði
  • Auður Sigurðardóttir - 50 atkvæði
  • Gyða Á. Helgadóttir - 48 atkvæði
  • Alexander Hrafnkellson - 37 atkvæði
  • Karl Már Lárusson - 36 atkvæði
  • Guðmundur Björgvinsson - 31 atkvæði

Í aðalstjórn eru því: Sigurður Guðmundsson (2010), Sigurður Ólafsson (2010), Hörður Bender (2010), Ragnhildur Traustadóttir (2011), Auður Sigurðardóttir (2011), Gyða Árný Helgadóttir (2011), Alexander Hrafnkellssonn (2011) og Karl Már Lárusson (2011)

Samþykktir skoðunamenn reikninga: Leifur Kr. Jóhannesson og Birgir Hólm

Samþykkt sem aðilar á þing UMSK: formaður félagsins (sjálfkjörin) og formaður æskulýðsnefndar.

Samþykkt í stjórn afreksmannasjóð: formaður félagsins(sjálfkjörin) og gjaldkeri félagsins

Fundarstjóri óskar nýrri stjórn velfarnaðar

10. Önnur mál

Guðjón tekur til máls. Rætt hefur verið um stækkun á Harðarbóli og fundarmönnum er sýnd teikning af breytingunni. Reiknað hefur verið út arðsemina af stækkuninni. Þar sem félagsheimilið hefur aðeins leyfi fyrir um 80 manns þá takmarkar það útleigumöguleika. Því eru hugmyndir að byggja eftir því sem efnahagur félagsins leyfir.

1.       Teikningar

2.       Plata

3.       Gert fokhelt

4.       Klára

Fundarstjóri segir það megi gera umhverfið huggulegra. Það má alltaf gera betur.

Lína spyr um frágang við reiðhöllina hvort það megi ekki setja gras fyrir neðan hana.

GM segir að Mosfellsbær muni setja fjármuni í frágang fyrir ofan reiðhöllina eftir áramót og þá verði farið í það. Verið er að deiliskipuleggja hverfið og hugmyndin er að gera kennsluaðstöðu t.d. litla höll eða hesthús  fyrir neðan hana (milli reiðhallar og reiðvegar) en það má samt snyrta þar þangað til. Áætlað er að setja bílastæði þar sem hvíta gerðið er, færa hvíta gerðið þangað sem kerrustæðið er og kerrustæðið fært efst í brekkuna. Ábending kom frá fundarmönnum að fegra umhverfið betur við vellina eins og að setja tré meðfram skeiðbrautinni. Margt gott hefur gerst í hverfinu en það má alltaf bæta það.

Guðmundur Borgar spyr hvort borin von sé að fá stækkun á hverfinu. Guðjón svarar að hverfið er fullbyggt en við erum að reyna að fá byggingaleyfi fyrir tveimur til þremur lengjum í viðbót austast í efra hverfinu (fyrir neðan Sorpu). 

Ekki voru frekari umræður. Fundarstjóri Marteinn Magnússon kvetur fundarmenn að skrá sig á blöðin sem liggja frammi til að tryggja sér sögu Harðar þegar hún verður gefin út. Marteinn þakkar fundarmönnum gott hljóð, óskar nýrri stjórn velfarnaðar og býður formanni orðið.

Lokaorð og fundarslit

Guðjón nýendurkjörinn formaður Harðar tekur til máls.

Guðjón þakkar innilega það traust sem honum hefur verið veitt til að starfa áfram fyrir félagið.

Allir sem starfa fyrir félagið eiga miklar þakkir skilið og sérstaklega þakkar hann þeim Sigurði Teitssyni,  Guðnýju Ívarsdóttur, Ingimundi Magnússyni og Guðmundi Björgvinssyni fyrir það mikla starf sem þau hafa unnið fyrir félagið undanfarin ár.

Því miður hafa innbrot aukist í hverfinu undanfarið. Það er myndavél á svæðinu en það stendur til að leita leiða til að fjölga þeim og tengja við myndavélakerfið í reiðhöllinni. Einnig að setja skilti við innkeyrsluna í hverfið sem varar fólk við að það sé í mynd.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21.55

Fundargerð ritaði: Gyða Árný Helgadóttir