Skýrsla stjórnar Hestamannafélagsins Harðar 2018

Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2018

 

Í stjórn Hestamannafélagsins Harðar:

 

Formaður:

Hákon Hákonarson

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir       Kjörin   2017

Erna Arnardóttir                       Kjörin   2017

Gígja Magnúsdóttir                   Kjörin   2016

Gunnar Valsson                        Kjörinn 2016

Haukur Níelsson                       Kjörinn 2017

Kristinn Már Sveinsson            Kjörinn 2017

Ragnhildur B. Traustadóttir      Kjörin   2017

Rúnar Guðbrandsson                Kjörinn 2016

Áheyrnarfulltrúi:

Thelma Rut Davíðsdóttir

Skoðunarmenn:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson

 

Skýrsla stjórnar

Haldnir voru 16 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.  Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins. Reglulega fundaði formaður, stjórnarmenn og nokkrir formenn nefnda með starfsmönnum Mosfellsbæjar og einnig áttum fundi með UMSK.

 

Formaður og aðrir stjórnarmenn félagsins, hafa fundað reglulega s.l. ár með formönnum Hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem farið er yfir hin ýmsu mál. 

Stjórn Harðar sendi bæjarráði bréf um frekari lóðaúthlutun á Harðarsvæðinu.  Erindinu var vel tekið og fyrirhugaður er fundur með formanni Skipulagsnefndar og skipulagsstjóra um miðjan nóvember.  Það er skoðun okkar Harðarmanna að rými sé fyrir 10 – 15 hesthúsalengjur hér á svæðinu og eðlilegt að fullnýta svæðið áður ráðist er í skipulagningu nýs svæðis.  Rétt er að geta þess að án samstarfs og  styrkja frá Mosfellsbæ væri félagið illa statt.

Starfsmenn félagsins eru Hólmfríður Halldórsdóttir, sem sér um skráningu og utanumhald á Harðarbóli, Sonja Noack sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námsskeið o.fl. auk þess að vera yfirreiðkennari félagsins.  Örn Ingólfsson sem sá um reiðhölllina, hringvöllinn og fleiri framkvæmdir.  Örn lætur af störfum um næstu mánaðamót og þökkum við honum áralangt starf og þjónustu við félagið.  15. september var Rúnar Sigurpálsson ráðinn í hlutastarf sem framkvæmdastjóri félagsins. Væntum við mikils af samstarfinu við Rúnar.

Reynir Örn Pálmason og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar og óskum við þeim innilega til hamingju með þann tiltil. 

Hörður og FMOS eru áfram í samstarfi og er skólinn að leigja reiðhöllina undir verklega kennslu.  Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri leigir höllina veturinn 2018 – 2019 undir kennslu í Reiðmanninum.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir þetta árið og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2019 verður gerð fyrir áramótin.  Kostnaður vegna framkvæmda nemur 15 – 17 milljónum króna, en enn hafa ekki allir reikningar skilað sér í hús.  Af framkvæmdum ber fyrst að nefna reiðhöll félagsins.  Loftræstikerfi var sett upp og var það löngu tímabært, en reiðhöllin lá undir skemmdum m.a. vegna engrar loftræstingar.  Nýtt og mun öflugra hitakerfi var sett upp, með blæstri undir áhorfendabekkina.  Með því næst betra og eðlilegra loftstreymi, auk þess sem  heitara verður á áhorfendabekkjunum, en áfram frekar kalt á gólfi reiðhallarinnar.  Verið er að þétta þak reiðhallarinnar og verið er að koma fyrir snjógildrum og niðurföllum, auk viðgerðar á lýsingu utanhúss.  Nokkrar skemmdir eru innanhúss og verða þær lagfærðar fyrir veturinn.  Að því loknu verður reiðhöllin þrifin og battarnir hvíttaðir og gólfið heflað og lagfært.

Búið er að steypa stétt við félagsheimilið og áætlað er að steypa restina af hringnum næsta vor.  Enn er verið að hanna lýsingu í gamla salinn og verða framkvæmdum vonandi lokið fyrir áramót.  Útleiga Harðarbóls hefur gengið mjög vel og er þegar pantaðar helgar vorið 2020 og einhverjar vorið 2021.  

Kerrustæðið var stækkað og keyrt í það efni og jafnað út.  Þar á að vera pláss fyrir allt að 70 kerrur.  Kerrustæðin verða merkt og leigð á sanngjörnu verði til félagsmanna. 

Árshátíð Harðar var haldin í Harðarbóli 24. febrúar og tókst mjög vel. Þangað mættu um 100 manns og skemmtu sér vel. Þökkum við árshátíðarnefnd fyrir hennar vinnu.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta.  Félagsmenn voru virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk.  Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni.

Firmakeppni Harðar fór líka fram sumardaginn fyrsta og var mikil þátttaka og fór verðlaunaafhending fram í Harðarbóli og seldar voru vöfflur, kaffi og kakó.

Í maí var Formannsfrúarreið Harðar.  Þar mættu tæplega 50 konur úr Herði og endað var á mikilli veislu í Harðarbóli. Hagnaði reiðinnar, tæpar 40 þús kr. verður ánafnað Fræðslunefnd fatlaðra.

Í lok apríl var farið ríðandi í Fák og Fákarar heimsóttu okkur 5. maí.

Settar voru reglur um rekstur hrossa á Varmárbökkum og gerður samningur við 4 rekstrarhópa. Reglur þessar verða birtar á heimasíðu félagsins.

Einnig voru samdar nýjar reglur um úthlutun beitarhólfa.  Þær reglur verður einnig birtar á heimasíðu félagsins.

Landsmót 2018 var haldið á félagssvæði Fáks.  Hörður átti marga fulltrúa í hinum ýsmu greinum og stóðu keppendurnir sig mjög vel. Það var afar ánægjulegt hvað ungu knaparnir stóðu sig vel, en í þeim liggur framtíðin.  Oddur Arason komst í A úrslit í Barnaflokki og Egill Rúnarsson í Búrslit í sama flokki. Sérstaklega skal þó nefna Bendikt Ólafsson sem varð Landsmótmeistari unglinga á Biskupi frá Ólafshaga. Glæsileg tilþrif og stór viðburður. Við í hestamannafélaginu Herði erum mjög stolt af frammistöðu þessa efnilega knapa og óskum Benedikti enn aftur til hamingju með árangurinn.

Heldri menn og konur halda áfram að slá í gegn.  Haldnir voru 4 viðburðir hjá þeim á árinu og mæting hefur verið á bilinu 60 – 100 manns.  Boðið hefur verið upp á mat, fyrirlestra, hagyrðingakvöld, hópsöng og alltaf verið einstök stemming.    Harðarfélagar eru stoltir af þessu starfi, sem greinilega er komið til að vera.

 

Reiðveganefnd hefur verið ötul á árinu.  Vel þarf að fylgjast með framkvæmdum af hálfu Mosfellsbæjar, því stundum gleymast samráð við hestamannafélagið.  Formaður reiðveganefndar hefur staðið sig vel þar eins og svo oft áður. 

Frá Mosfellbæ koma í reiðveg kr. 3.200.000,-

Frá LH koma kr. 2.00.000 í reiðvegi hjá Herði og 1.500.000 í Skógarhólaleið.

Búið er að lagfæra reiðveg við Reykjaveg /Ísfugl með ræsi og fyllingu.

Búið er að laga reiðleið um Helgafellsland með Brjót og ofaníburði.

Lagfæring á reiðleið, heflun og ofaníburður með Helgadalsvegi er í vinnslu.

Framkvæmd við reiðveg austanmegin í hesthúsahverfi er í biðstöðu.

Á Skógarhólaleið er búið að lagfæra áningargerði í Stardal, Kjósarskarði og Selkoti,

Verið er að lagfæra reiðleið frá Skógarhólum til vesturs með grjóthreinsun, ofaníburði og jöfnun.

Mótanefnd stóð fyrir 3 vetrarmótum samkvæmt venju, auk Íþrótta- og Gæðingamóts.  Auk þess héldum við úrtökumót fyrir Landsmót, sem tókst mjög vel. Framkvæmd mótanna var til mikillar fyrirmyndar og á Mótanefnd þakkir skildar. Skýrsla Mótanefndar verður birt á heimasíðu félagins.

Fræðslunefnd stóð fyrir áhugaverðum fyrirlestrum og námskeiðum. Allir viðburðirnir, þ.e. bæði fyrirlestrarnir og námskeiðin, voru mjög vel sótt og tókust einstaklega vel. Fræðslunefndin þakkar öllum fyrirlesurum og/eða þeim sem héldu námskeið kærlega fyrir þeirra framlag. Skýrsla Fræðslunefndar verður birt á heimasíðu félagins.

Beitarnefnd. Starfsemi beitarnefndar var með svipuðu sniði og undanfarin ár. Þann 19. september voru beitarhólfin tekin út og var útkoman líklega sú besta frá upphafi. Handsömun lausagönguhesta er nú alfarið á vegum Harðar, en talsvert minna var um lausagöngu þetta árið og má eflaust rekja það til betri girðinga. Í fyrsta sinn þurftu beitarþegar ekki að sinna formlegum vöktum.  Skýrslu beitarnefndar má lesa í heild sinni á heimasíðu félagins. 

 

Æskulýðsnefnd.  Veturinn 2017-2018 var viðburðarríkur og skemmtilegur hjá æskulýðnum í Herði. Það var mikið að gera og margir viðburðir skipulagðir yfir veturinn fyrir börn og unglinga. Boðið var upp á fjölbreytt fræðslustarf þar sem bæði er sinnt þeim er vilja iðka íþróttina sem keppnisíþrótt og einnig sem félagsstarf og áhugamál. Við höldum líka viðburði þar sem við hittumst og gerum skemmtilega hluti án hestanna okkar því ekki geta allir riðið út.
Undirbúningur Landsmóts setti svo heilmikinn svip á starfið í vetur og voru margir krakkar og foreldrar sem tóku þátt í þeim undirbúningi. 

Skýrslu Æskulýðsnefndar má lesa í heild sinni á heimasíðu félagsins.

Félag hesthúseigenda.  Haldnir voru þrír stjórnarfundir á starfsárinu. Félagið hefur óskað eftir því við Mosfellsbæ að sett verði dren í skurðinn sem liggur fyrir ofan veginn sem aðskilur efra og neðra hverfið, til að vatn leki ekki í það neðra. Sæmundur Eiríksson hefur skilað inn teikningu fyrir skurðinn og ætla bæjarstarfsmenn að ganga í verkið þegar frost fer úr jörðu. Tré voru klippt og snyrt í hverfinu. Kerrustæðið var stækkað og greiddi félagið helming af þeim kostnaði á móti Herði. Staðsetning fyrir heybagga og rúllur er í ferli hjá Herði. Samþykkt var að setja nýja möl í neðra hringgerðið og er það í vinnslu. Stjórnin fór í skoðunarferð um hverfið og hvetur eigendur hesthúsa að taka til og snyrta í kringum sig. Betur má ef duga skal.

 

Fræðslunefnd fatlaðra.  Starfsemin hefur gengið vel.  Nemendur hafa tekið vel á móti Fredricu Fagerlund sem nýjum reiðkennara í stað Berglindar  og við erum með metþátttöku ungra sjálfboðaliða þetta árið. Við erum í einstaklega góðu samstarfi við grunnskólana í Mosfellsbæ, sem hafa auglýst sjálfboðaliðstarfið með okkur og  boðið nemendum sínum að fá sjálfboðaliðastarfið metið sem valgrein.  

Í  haust var farið af stað með 5 námskeið og hámarksfjöldi á hverju námskeiði eru fjórir til fimm, allt eftir því hversu mikið fatlaðir einstaklingar eru í hverjum hópi.   Því miður þurftum við að fella niður reiðnámskeið fyrir fólk sem hefur greinst með MS- sjúkdóminn, þar sem ekki var hægt að bjóða upp á námskeið á morgnana þessa önnina, sökum þess hversu mikið reiðhöllin er bókuð.  Þetta er afar leiðinlegt þar sem 10 einstaklingar sóttu þessi námskeið í fyrra og mikill áhugi innan hópsins að fá tækifæri til að halda áfram. Auk þess sem það gerir starf-seminni erfiðara fyrir, þegar við missum námskeiðsgjöld en rekstrarkostnaður lækkar lítið sem ekkert á móti. 

Við viljum þakka Gulla í Blíðubakkanum fyrir að styrkja starfið fram að áramótum með því að útvega okkur hey og Líflandi fyrir að gefa spæni og skeifur. Síðast en ekki síst Ólöfu dýralækni, sem hefur undanfarin ár séð um að ormahreinsa og raspa hestana okkar án endurgjalds.   

Kristján Kristjánsson stjórnarformaður 8villtra hefur verið öflugur í að liðsinna nefndinni á liðnu ári og m.a. átt þátt í að afla styrkja. Á árinu fengum við einnig 200 þúsund króna peningastyrk frá bræðrunum og Harðarfélögunum Guðmundi og Guðbirni.  

All þetta skiptir verulegu máli þar sem að einungis um 1/3 af heildarkostnaðinum er greiddur af nemendum á námskeiðunum.  

 

Það sem ég hef talið hér upp og það sem þið lesið í skýrslum nefnda er samt auðvitað bara brot af því sem hefur verið gert, því mikil vinna liggur að baki hverju verki. Það er margt sem þarf að huga að í stóru félagi, en við höfum ekki ótakmarkað fjármagn og því þarf að forgangsraða.  

Nefndir hafa skilað góðri vinnu og hjálpar það við að halda uppi góðu starfi, en

mikill fjöldi félagsmanna leggur mikið á sig til að starfa fyrir félagið í sjálfboðavinnu, hvort sem það er fólk í nefndum félagsins eða ekki.  Ber að þakka öllu því góða fólki sem er tilbúið til að leggja mikla vinnu á sig fyrir félagið, án þeirra væri félagið ekki starfhæft.

Stjórn félagsins er ánægð með rekstrarafkomu ársins, en talsvert var fjárfest á árinu sem allt er gjaldfært. Félagið stendur all vel fjárhagslega og hefur bolmagn í frekari framkvæmdir. Félagið er í góðum samskiptum við Mosfellsbæ, skólana og önnur íþróttafélög bæjarins. Horft er til þess að Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndar hestamannafélag innan ÍSÍ, en endurnýjun félagsins sem fyrirmyndarfélag var samþykkt af ÍSÍ í liðinni viku.