Stjórnarfundur 14.01.2008
- Nánar
- Skrifað þann Fimmtudagur, janúar 17 2008 23:03
Stjórnarfundur 14. jan. 2008 kl. 18.00 Fundur 3
Fundarstaður: Harðarból Fundur hófst kl. 18.00
Mættir voru:
Guðjón Magnússon
Guðmundur Björgvinsson
Guðný Ívarsdóttir
Ingvar Ingvarsson
Ólöf Guðmundsdóttir
Sigurður Teitsson
Þórir Örn Grétarsson
1. Fasteignagjöld hvaða form sjáum við fyrir okkur með endurheimtu skattsins
Ákveðið að ræða við Harald bæjarstjóra um hvaða aðferðir eru í boði varðandi endurgreiðslu álagðs fasteignaskatts þar sem ljóst er að hann verður innheimtur í ár, enda er bæjarfélaginu skylt að gera það skv. lögum. Við erum nú þegar með aðgerðir í gangi á Alþingi til að fá lögunum breytt fyrir næsta ár.
2. Upplýsing flugvallarhrings og viðbótarreiðleiðir
Við erum að reyna að koma á samstarfi milli okkar, Mosfellsbæjar og Leirvogstungu um endurbætur á Flugvallahringnum, þar sem bætt verður við reiðleið sem sneiðir framhjá bílastæði við íþróttasvæði. Auk þess er fyrirhugað að lýsa upp reiðleiðina. Samþykkt einróma.
3. Dagskráin fyrir 2008
Dagskráin fyrir árið 2008 liggur fyrir og var samþykkt með lítilsháttar breytingum.
4. Þrekþjálfun afreksmanna, fríkort í líkamsrækt Hjalta Úrsus og Höllu
Mosfellsbær hefur keypt líkamsræktarkort hjá nýrri líkamsrækt við Varmárlaug fyrir afreksmenn í Íþróttum í Mosfellsbæ. 10 kort koma í hlut Harðar. Ákveðið að deila þeim út eftir stigafjölda knapa þannig að stigahæsta knapa verði boðið þetta fyrst, síðan koll af kolli. Eina skilyrðið sem við setjum er að kortin verði notuð og menn mæti reglulega í ræktina, að minnsta kosti tvisvar í viku. Ef ekki þá missa þeir kortið og þeim sem næst kemur verður boðið það.
5. Ósk fræðslunefndar um eigin fjárhag og fjárframlag úr félagssjóði til að greiða niður reiðnámskeið og halda fyrirlestra.
Nýlega er búið að stokka upp fjármálastjórn félagsins og reikningum í notkun fækkað niður í tvo. Þetta var gert til að einfalda yfirsýn yfir fjármál félagsins. Við höfum ekki niðurgreitt námskeið fyrir fullorðna með beinum hætti, en lagt til aðstöðu í reiðhöll og reiðgerðum sem framlag félagsins til kennslumála. Stjórnarmenn styðja fræðslunefndina í því að fá áhugaverða fyrirlesara til okkar, en það þarf að gera í samráði við gjaldkera félagsins sem greiðir síðan framlagða reikninga.
6. Íþróttamaður Harðar
Eftir að stig hafa verið reiknuð út kom í ljós að Súsanna Ólafsdóttir var stigahæst og því lagt fyrir stjórn að hún verði útnefndur Íþróttamaður Harðar í ár. Samþykkt einróma. Aðrir afreksmenn síðasta árs voru þeir Sölvi Sigurðarson sem kom næstur að stigum á eftir Súsönnu og Halldór Guðjónsson sem vann Íslandsmeistaratitil í 250 m skeiði og dúxaði í Hólaskóla.
7. Félagsrit
Áveðið að gefa út fréttabréf í janúarlok, drög verða send út til stjórnar og nefndarmanna sem síðan eru hvattir til að koma með innlegg, fréttir og fræðsluefni. Prentsmiðjan Viðey mun síðan sjá um uppsetningu prentun og útsendingu.
8. Staða reiðhallarmála
Eins og öllum er kunnugt eru verulegar tafir orðnar á reiðhöllinni. Þetta stafar af því að GT verktakar réðu til sín verkfræðing sem átti að sjá um verkfræðihönnun reiðhallarinnar, en hann er ekki enn búinn að skila nauðsynlegum gögnum til byggingafulltrúa Mosfellsbæjar og á meðan er allt stopp. Púðinn er hins vegar tilbúinn og búið að þjöppuprófa. Einnig verður lögð áhersla á að ljúka við að setja niður ræsi sem er norðan við framkvæmdasvæðið , loka skurði og jafna svæðið út. Einnig verður gerð jarðvegsmön meðfram reiðstígnum sem lokar fyrir innsýn og ónæði frá framkvæmdasvæðinu eins og hægt er. Það tekur tvær til þrjár vikur að slá upp mótum fyrir undirstöður, steypan þarf síðan að þorna í 6 til 8 vikur áður en óhætt er að setja reiðhöllina ofan á þær. Reising hallarinnar tekur svo um mánuð og lagnir og annar frágangur annan mánuð þannig að ljóst er að það verður komið sumar áður en höllin er tilbúin. Við þurfum því að gera ráðstafanir til að leysa kennslu og þjálfunarmál félagsins í ár án reiðhallarinnar.
9. Dagatal
Dagatal er í vinnslu og stefnt á að það komi út í lok mánaðarins.
10. Upplýsingatafla
Frestað að fjárfesta í upplýstum upplýsingatöflum þar til reiðhöllin er risin og setja þá upp vandaða töflu utan á eða við hana. Þess í stað verði núverandi upplýsingatafla lagfærð.
11. Heygeymslusvæði
Enn fjölgar þeim sem geyma heyrúllur utandyra og því brýnt að fá heygeymslusvæði strax. Reynt verði að fá að geyma heyrúllur í gryfjunum aftan við Sorpu til bráðabyrgða í ár, eða þar til framtíðarsvæði hefur verið hannað.
12. Félagatal og innheimta
Senda þarf út gíróseðla sem allra fyrst, en koma þarf félagatalinu í gott lag áður. GÍ fer í að læra á Felix sem heldur utan um félagatalið og kemur því í lag. Stefna að því að ljúka þessu í fyrstu viku febrúar.
Fleira var ekki gert og fundi slitið