Stjórnarfundur 25. október 2023
- Nánar
- Skrifað þann Miðvikudagur, október 25 2023 17:11
Stjórnarfundur Hestamannafélagsins Harðar
haldinn í Harðarbóli,
miðvikudagur 25. október 2023 kl. 19:00
Mætt: Margrét Dögg Halldórsdóttir, Jón Geir Sigurgeirsson, Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir, Berghildur Ásdís Stefánsdóttir, Hermann Jónsson, Sonja Noack, Rúnar Geir Sigurpálsson.
Dagskrá:
- Fundargerð síðasta fundar
- Lógó félagsins
- Formannafundur og uppskeruhátíð
- Dagskrá vetrar
- Aðalfundur – hvað þarf að gera?
- Önnur mál
- Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar hefur ekki enn borist stjórn, er í vinnslu, ritari sat ekki þann fund.
- Lógó félagsins
Erindi barst inn til stjórnar varðandi að endurnýja lógóið. Kristín Ingimarsdóttir, félagsmaður og grafískur hönnuður, vill styrkja félagið með því að endurhanna lógó félagsins. Stjórn leist vel á tilboðið en frekar en að endurnýja lógó félagsins sem hefur staðist tímans tönn og stendur hjarta margra nærri þá kom upp hugmynd að athuga hvort hún vilji gera lógó fyrir fatlaðrastarfið. Margrét ætlar að heyra í Öglu sem sér um starfið og athuga hvort hún hafi áhuga á því og í kjölfarið athuga hvort Kristín myndi taka að sér verkið.
- Formannafundur og uppskeruhátíð
Formannafundur LH verður 18. nóvember og uppskeruhátíð hestamanna um kvöldið. Á fundinum verður áhersla á mótamál svo félögin eru hvött til að bjóða formanni mótanefndar með sér á fundinn. Margrét formaður, Jón Geir varaformaður og Sigurður Örnólfsson formaður mótanefndar ætla að mæta á fundinn.
- Dagskrá vetrar
Dagskrá vetrarins er í vinnslu. Enn er enginn kominn í ferðanefnd, en kvennaferðanefndir er að setja saman dagskrá fyrir sína reiðtúra. Mörg námskeið og viðburðir verða komandi vetur og dagskrá spennandi.
- Aðafundur – hvað þarf að gera?
Búið er að senda fundarboð á fundinn með lagabreytingum. Veitingar verða í boði fyrir fundargesti. Lagabreytingarnar snúast um fjölda fundargesta sem þurfa að mæta á aðalfund til þess að hann sé löglegur. Einnig að framboð í stjórn þurfi að berast viku fyrir aðalfund. Sonja er að safna skýrslum frá öllum nefndum og ársreikningurinn kemur frá gjaldkera. Ætlum að skrá fólk þegar það kemur inn til að taka fjöldann á fundinum.
Önnur mál
Beiðni kom um að kaupa hitalampa í stúkuna svo nemendur námskeiða fái ekki frostbit á rasskinnarnar. 😉 Margrét ætlar að athuga hvað kostar rafmagnshitalampi sem hægt er að fytja til og nota þar sem þörf er á.
Hugmynd um að setja inn á heimasíðuna að hægt sé að skrá sig á póstlista upp á að fá tilkynningar um viðburði og annað sem er í gangi hjá félaginu.
Stjórn ætlar að athuga stöðuna hvort grundvöllur sé til að sameina hesthúseigendafélagið við Hestamannafélagið að einhverju eða öllu leiti. Þarf að athuga hagsmunamál og önnur lagaleg atriði áður en farið er í viðræður. Varðandi verkefnið um lóðaleigusamningana ætti húseigendafélagið að taka það að sér því það viðkemur húseigendum en ekki íþróttafélaginu.
Í kjölfarið eftir að stjórn sendi erindi inn til bæjarráðs eru Margrét og Jón Geir að fara á fund með Jóhönnu og Regínu bæjarstjóra varðandi úthlutun nýju lóðanna.
Verkefni sem eru í gangi hjá Rúnari framkvæmdarstjóra eru að verið er að vinna í viðhaldi á stóra vellinum og er það alveg að klárast. Næst verður farið í að flytja reiðveginn fyrir neðan Skiphól og bera efni í reiðveginn hjá Tröllafossi.
Fundi slitið 20:30
Fundagerð ritaði Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir