- Nánar
-
Skrifað þann Þriðjudagur, nóvember 04 2025 12:55
-
Skrifað af Sonja
AÐVENTUKVÖLD HARÐAR
fyrir heldri Harðarfélaga 60+
VERÐUR HALDIÐ Í HARÐARBÓLI
MIÐVIKUDAGINN 19. nóvember
Húsið opnar kl. 18.30
LJÚFFENGUR, HOLLUR OG HÁTÍÐLEGUR
JÓLAMATUR
SÖNGUR, GLEÐI OG GAMAN
FJÖLMENNUM NÚ ÖLL
Miðaverð aðeins kr 6.500.-
Þóra sími: 862 4210
- Nánar
-
Skrifað þann Föstudagur, október 31 2025 08:35
-
Skrifað af Sonja
Hestamannafélagið Hörður óskar eftir metnaðarfullum einstaklingi til að taka við umsjón á félagshesthúsi Harðar. Starfið er kjörið fyrir þá sem eru með mikla reynslu í hestum og hafa áhuga á að miðla þeirri þekkingu áfram til unga fólks, hafa þekkingu á námskeiðahaldi og færni í samskiptum. Um er að ræða hlutastarf greitt í tímavinnu og vinnutími er eftir samkomulagi. Reiknað er með fastri viðveru 2 tíma á viku. Ekki er um reiðkennslu að ræða.
Aldurstakmark er 20 ára.
Tímabilið er frá janúar til maí loka.
Helstu verkefni og ábyrgð:
- Umsjónaraðili sér um samskipti við þátttakendur félagshesthússins og aðstandendur þeirra
- Skipulag ýmissa viðburða í samstarfi við æskulýðsnefnd eins og hindrunarstökksnámskeið, ratleik, þrifadag og fleira.
- Hjálpa þáttakendum í félagshesthúsinu við allt tilfallandi í hesthúsinu. Allt frá að aðstoða við að fara í reiðtúr til að leiðbeina við skítmokstur, spónamagn og aðra umhirðu, meðferð reiðtygja og svo framvegis..
Áhugasamir hafi samband við Sonju í síma 8659651 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sem allra fyrst.

- Nánar
-
Skrifað þann Föstudagur, október 31 2025 07:43
-
Skrifað af Sonja
Haldin voru námskeið 4 til 5 sinnum í viku yfir veturinn en leyfilegur hámarksfjöldi nemenda á námskeiði eru 5, en ef um mikið fatlaða nemendur eru að ræða þá er nemendum fækkað niður í 4.
Námskeiðin voru alla jafna vel sótt. Sex nemendur þurftu að nýta sér lyftu til að komast á hestbak, en meirihluti nemenda notaði sérútbúna hnakka.
Sumir nemendur þurftu tvo til þrjá aðstoðarmenn sér til stuðnings á meðan aðrir voru mun sjálfstæðari. Það er alltaf fastur hópur nemenda sem sækja námskeiðin ár eftir ár, en á síðastliðnu ári var töluverð nýliðun og þá sérstaklega í hópi barna og ungmenna.
Meirihluti nemenda voru börn og unglingar, yngsti nemandinn var fimm ára og sá elsti á fimmtugsaldri. Þátttakendur komu frá 5 sveitafélögum, frá Mosfellsbæ, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi.
Við sjáum töluverðar framfarir hjá nemendum okkar og hafa sumir þeirra haft getu til þess að taka þátt í reiðnámskeiðum sem haldin eru á sumrin hjá hestamannafélögunum eða farið á hestbak með fjölskyldu sinni. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að nemendur njóti þess að vera á hestbaki og eigi góða samverustund.
Boðið var upp á þrautabraut inni í reiðhöll og farið í útreiðatúr ef veður leyfði. Ekki hefur verið hægt að skipta nemendum í hópa eftir getu, en reynt var að bjóða upp á einstaklingsmiðaða reiðkennslu fyrir þá sem hafa áhuga og færni til þess.
SJÁLFBOÐALIÐASTARFIÐ.
Undanfarin ár hefur sjálfboðaliðastarfið gengið vel og hafa að jafnaði 15-20 sjálfboðaliðar tekið virkan þátt í starfinu á hverju ári og gefið af sér og sínum tíma. Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri og koma úr ólíkum áttum.
Öllum sjálfboðaliðum gefst kostur á að fara í reiðtúr ef þeir vilja og hafa margir stígið þar sín fyrstu spor í hestamennsku. Haldin var sjálfboðaliðahittingur að vori og litlu jólin í desember. Að venju var vel mætt í jólahitting þar sem skipst var á gjöfum, skreyttar piparkökur og fleira skemmtilegt að ógleymdri pizzaveislunni sem hefur verið í boði Dominos undanfarin ár. Sjálfboðaliðar sáu sjálfir um að skipuleggja reiðtúra sl. vetur og héldu m.a. Bingó til styrktar starfinu. Allir sjálfboðaliðar voru leystir út með þakklætisvotti fyrir gott starf.
KYNNING
Kynning á starfinu hefur gengið vel og hefur verið gott samstarf við aðila sem sinna málefnum fatlaðra. Haldin var kynning á námskeiðunum og boðið upp á prufutíma í reiðhöll Harðar. Auk þess var nemendum á námskeiðum boðið að taka með sér gesti til að fylgjast með tímanum.
ÞAKKLÆTI.
Fræðslunefnd fatlaðra vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra aðila sem styrktu starfið á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir fá Rótarýklúbbur Mosfellssveitar, SS Búvörur og Allianz sem hafa stutt vel við bakið á starfinu undanfarin ár. Hestamannafélagið lét yfirfara öryggisbúnað og lyftu sem er notuð til að aðstoða nemendur við að komast á og af baki. Sett var á fót styrkjanefnd sem starfaði frá janúar til mars. Ekki komu neinir styrkir í gegnum nefndina, en samtalið var gott og hugmyndir mótaðar að nýjum leiðum við að styðja við starfið. Nefndarmönnum er þakkað fyrir að gefa sér tíma og sýna málefninu áhuga. Á hverju ári þarf að endurnýja eitthvað af beislisbúnaði, hjálmum og ofl. Við fögnum því alltaf ef að það leynist búnaður hjá Harðarfélögum sem þeir hafa ekki lengur not fyrir en getur komið að góðum notum í starfinu okkar. Nú vantar t.d. þykkar og góðar undirdýnur undir hnakkana sem eru margir komnir til ára sinna. Þökkum öllum Harðarfélögum fyrir tillitsemi og hjálpsemi á meðan á námskeiðunum stóð, en síðast en ekki síst öllum okkar frábæru sjálfboðaliðum, aðstandendum og aðstoðarfólki nemenda. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt.
Fræðslunefnd fatlaðra

- Nánar
-
Skrifað þann Miðvikudagur, október 29 2025 19:47
-
Skrifað af Sonja
Markmið fræðslunefndar að stuðla að fjölbreyttri fræðslu fyrir félagsmenn og þannig að efla hestamennskuna á faglegan hátt.
Fræðslunefnd var með öðrum hætti en undanfarin misseri þar sem ekki var starfandi eiginleg fræðslunefnd innan félagsins. Yfirreiðkennari Harðar tók að sér að halda utan um almenna fræðslu í samvinnu við Sonju Noack starfsmann félagsins.
Nýtt og spennandi starf fór af stað veturinn 2025 en þá tók hópur af fulltrúum fræðslunefnda hestamannafélagana á höfuðborgarsvæðinu (Hörður, Sprettur, Fákur og Sörli) sig saman og stofnaði sameiginlega fræðslunefnd fyrir þessi félög. Markmiðið var að sameina fræðsluviðburði, safna fleira fólki saman og efla samheldni og samstarf milli félaganna. Þetta samstarf mun halda áfram og markmiðið er að standa að ákveðnum fjölda viðburða á ári í sameiningu og halda áfram að stækka og efla þetta samstarf.
Viðburðir á vegum sameiginlegra fræðslunefnda á höfuðborgarsvæðinu:
21.nóvember 2024 Hvað ungur nemur gamall temur
Sýnikennsla með Sigvalda Lárusi Guðmundssyni
17.febrúar 2025 Knapaþjálfun
Fyrirlestur með Bergrúnu Ingólfsdóttur
Hefðbundin námskeið fóru af stað í janúar með einhverjum skemmtilegum nýjum viðbótum. Opnir æfingatímar voru haldnir fyrir öll vetrarmótin þar sem knöpum var frjálst að mæta innan ákveðinna tímamarka og fá aðstoð frá reiðkennara þeim að kostnaðarlausu. Þessa nýjung var vel tekið í og var vel nýtt meðal félagsmanna. Farið var af stað með keppnisnámskeið fyrir fullorðna sem var vel sótt og eins var boðið upp á sérstakt ásetunámskeið.
Námskeið á vegum Harðar veturinn 2025:
- Leiðtogafærni og samspil kennt af Ragnheiði Þorvaldsdóttur. Námskeiðið var upprunalega sex skipti en var svo framlengt um fjögur skipti að ósk nemenda. Kennsla hófst 28.janúar og var kennt í formi 45 mínútna hóptíma.
- Vinna í hendi námskeið var haldið í Blíðubakkahúsinu og var kennt aðra hverja viku. Kennari var Ingunn Birna Ingólfsdóttir en námskeiðið var sex skipti og hófst 16.janúar.
- Ásetunámskeið var haldið í fyrsta skipti í Blíðubakkahúsinu en það var sex skipti kennt aðra hvora viku. Kennari var Thelma Rut Davíðsdóttir og hófst námskeiðið 23.janúar.
- Kvennatölts hópur var á sínum stað kenndur af Ingunni Birnu Ingólfsdóttur. Námskeiðið var sex skipti og hófst 30. Janúar.
- Keppnisnámskeið fullorðinna hóf göngu sína en námskeiðið var átta skipti kennt vikulega í formi 30 mínútna einkatíma. Kennari var Ylfa Guðrún Svafarsdóttir en námskeiðið var svo framlengt um sex skipti að ósk nemenda.
- Knapamerkin voru svo á sínum stað en á þessu misseri var kennt verklegt knapamerki 1, 2, 3 og 4. Knapamerki 1 og 4 var kennt af Thelmu Rut Davíðsdóttur, Knapamerki 2 af Sonju Noack og Knapamerki 3 af Ragnheiði Þorvaldsdóttur.
- Einkatímapakkar voru í boði en þá geta nemendur keypt fimm einkatíma sem kenndir eru í Blíðubakkahúsinu með kennara að eigin vali. Þeir kennarar sem stóðu nemendum til boðanna voru Thelma Rut Davíðsdóttir, Ingunn Birna Ingólfsdóttir, Sonja Noack, Ragnheiður Þorvaldsdóttir og Fredrica Fagerlund.
- Einkatímapakkar með Antoni Páli Níelssyni voru í boði frá desember og reglulega fram í maí. Nemendur keypti þá tvo 45 mínútna einkatíma í hvert sinn og höfðu reiðkennarar félagsins forgang á þetta námskeið en lausir tímar fóru svo í opna sölu. Stefnt er á að breyta fyrirkomulagi skráningar á þetta námskeið á komandi tímabili í samráði við stjórn félagsins.
Helgarnámskeið á vegum félagsins veturinn 2025
- Endurmenntun reiðkennara með Mette Mannseth. Hestamannafélagið Hörður stóð fyrir endurmenntun reiðkennara 10.-12.janúar 2025 í samstarfi við Mette Mannseth. Námskeiðið fór eftir kröfum FEIF um endurmenntun reiðkennara en aðeins útskrifaðir reiðkennarar höfðu aðgang að þessu námskeiði. Við erum stolt að geta stutt við bak reiðkennara félagsins sem og reiðkennara almennt sem stuðlar að betri kennslu fyrir félagsmenn og kennslu almennt. Námskeiðið voru þrír dagar og byrjuðu á fyrirlestri á föstudagskvöldinu og verkleg kennsla fór fram í reiðhöll Harðar á laugardegi og sunnudegi.
- Undirbúningur fyrir Gæðingalist með Fredricu Fagerlund. Helgina 8.-9. Febrúar var haldið helgarnámskeið í gæðingalist í formi tveggja 45 mínútna einkatíma í reiðhöll Harðar.
- Knapaþjálfun með Bergrúnu Ingólfs. Stefnt var á að halda knapaþjálfunar námskeið með Bergrúnu 22.-23. Febrúar í kjölfar fyrirlesturs 17.febrúar en vegna dræmrar skráningar var það námskeið fellt niður.
Aðrir viðburðir á vegum fræðslunefndar
- Hvað eru dómarar að hugsa? Fyrirlestur var haldin þann 30.apríl með þeim Svafari Magnússyni og Halldóri Victorssyni dómurum til að gefa keppendum og áhugafólki um keppni betri innsýn inn í dómsstörf í íþróttakeppni. Fyrirlesturinn stóð í tvo klukkutíma og var ágætlega sóttur.
Fræðslunefnd þakkar félagsmönnum liðið tímabil og vinnur nú að fleiri skemmtilegum og fræðandi námskeiðum og fræðsluefni fyrir komandi tímabil.
Nefndin tekur fagnandi tillögum og/eða óskum félagsmanna um tiltekna fræðslu og á sama tíma bíður áhugasama félagsmenn velkomna í Fræðslunefnd!
Thelma Rut Davíðsdóttir
Yfirreiðkennari