Þriðji dagur á Íslandsmóti

4767_93489234607_736544607_1977811_3789720_nHeldur var þungbúið þegar keppni hófst í morgun á fimmgangi ungmenna. Hann hékk þó þurr sem betur fer og þeir fáu áhorfendur sem mættir voru í morgunsárið fengu að líta góðar sýningar og marga glæsilega skeiðspretti.

Valdimar Bergstað hélt uppteknum hætti og reið sig í efsta sætið í ungmennaflokknum á Oríon frá Lækjarbotnum. Í unglingaflokki stendur Arnar Bjarki Sigurðarson hins vegar efstu á Gammi frá Skíðbakka 3. 

Þegar B- úrslit í fjórgangi barna hófust var komið glaða sólskin og glaðnaði þá heldur yfir brekkunni. Heldur fjölgaði áhorfendum og hestar og knapar sýndu sitt allra besta. Harðarfélaginn Páll Jökull Þorsteinsson reið sig með glæsibrag í efsta sætið í fjórgangnum og það gerðu einnig Arnar Logi Lúthersson í unglingaflokki og Camilla Petra Sigurðardóttir í ungmennaflokki.

Í töltinu voru það Róbert Bergmann í barnaflokki, Arnar  Bjarki Sigurðarson í  unglingaflokki og Sigríður Sjöfn Ingvarsdóttir sem tryggðu sér sæti í A-úrslitum.

Að loknum kvöldverði fór svo fram keppni í 100m skeiði. Mörgum finnst þetta ein skemmtilegasta keppnisgreinin og skeiðáhugamenn fengu þarna algjöra veislu fyrir augað. Svo fór að Ragnar Bragi Sveinsson sigraði á einum besta tíma ársins 7,37 sek.

Framundan er síðasti og jafnframt mest spennandi dagurinn á Íslandsmótinu þegar fram fara B- úrslit í fimmgangi unglinga og ungmenna og síðan A-úrslit í öllum greinum. Miðað við þær einkunnir sem sáust í forkeppni má búast við skemmtilegri og spennandi keppni á morgun. Við hvetjum hestaunnendur til að fjölmenna í Mosfellsbæinn og styðja við bakið á þessum ungu framtíðarknöpum. Keppni hefst klukkan 10.