Fyrsti dagur Íslandsmóts

Þessa dagana iðar allt af lífi í hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ en þar fer fram Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna í hestaíþróttum sem væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum. Fyrsti keppnisdagur af fjórum er nú liðinn en mótið hófst með keppni í fjórgangi. Allt fór fram eins og best verður á kosið, keppendur riðu prúðmannlega og áhorfendur stóðu sig vel í klappliðinu á  milli þess sem þeir úðuðu í sig dýrindis veitingum. Veðrið var keppendum og áhorfendum nokkuð hliðhollt því þrátt fyrir að það rigndi af og til var hlýtt í lofti og lítill vindur.

Margar stórgóðar sýningar sáust og gáfu tilþrif hinna ungu knapa, eldri knöpum ekkert eftir. Glæsilegustu sýningu dagsins og hæstu einkunnina, hvorki meira né minna en 7,30, átti Rakel Nathalie Kristinsdóttir á stóðhestinum Vígari frá Skarði. Vígar er greinilega í feiknaformi og verður erfitt að toppa þau Rakel í úrslitunum á sunnudag. En það er aldrei neitt gefið eftir og enginn öruggur með sæti fyrr en spurt hefur verið að leikslokum.

Föstudaginn 26. júní hefst keppni með Fimi barna og unglinga kl. 10. Eftir hádegi tekur svo við keppni í tölti og má vænta þess að ekki verði minna um tilþrif þar en í fjórganginum. Við bjóðum alla hestaunnendur velkomna í áhorfendabrekkuna í Mosfellsbænum og lofum frábærri skemmtun næstu þrjá dagana.