ÁRSSKÝRSLA FRÆÐSLUNEFNDAR FATLAÐRA 2024-2025

Haldin voru námskeið 4 til 5 sinnum í viku yfir veturinn en leyfilegur hámarksfjöldi nemenda á námskeiði eru 5, en ef um mikið fatlaða nemendur eru að ræða þá er nemendum fækkað niður í 4.
Námskeiðin voru alla jafna vel sótt. Sex nemendur þurftu að nýta sér lyftu til að komast á hestbak, en meirihluti nemenda notaði sérútbúna hnakka.
Sumir nemendur þurftu tvo til þrjá aðstoðarmenn sér til stuðnings á meðan aðrir voru mun sjálfstæðari. Það er alltaf fastur hópur nemenda sem sækja námskeiðin ár eftir ár, en á síðastliðnu ári var töluverð nýliðun og þá sérstaklega í hópi barna og ungmenna.
Meirihluti nemenda voru börn og unglingar, yngsti nemandinn var fimm ára og sá elsti á fimmtugsaldri. Þátttakendur komu frá 5 sveitafélögum, frá Mosfellsbæ, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi.
Við sjáum töluverðar framfarir hjá nemendum okkar og hafa sumir þeirra haft getu til þess að taka þátt í reiðnámskeiðum sem haldin eru á sumrin hjá hestamannafélögunum eða farið á hestbak með fjölskyldu sinni. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að nemendur njóti þess að vera á hestbaki og eigi góða samverustund.
Boðið var upp á þrautabraut inni í reiðhöll og farið í útreiðatúr ef veður leyfði. Ekki hefur verið hægt að skipta nemendum í hópa eftir getu, en reynt var að bjóða upp á einstaklingsmiðaða reiðkennslu fyrir þá sem hafa áhuga og færni til þess.

 

SJÁLFBOÐALIÐASTARFIÐ.
Undanfarin ár hefur sjálfboðaliðastarfið gengið vel og hafa að jafnaði 15-20 sjálfboðaliðar tekið virkan þátt í starfinu á hverju ári og gefið af sér og sínum tíma. Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri og koma úr ólíkum áttum.
Öllum sjálfboðaliðum gefst kostur á að fara í reiðtúr ef þeir vilja og hafa margir stígið þar sín fyrstu spor í hestamennsku. Haldin var sjálfboðaliðahittingur að vori og litlu jólin í desember. Að venju var vel mætt í jólahitting þar sem skipst var á gjöfum, skreyttar piparkökur og fleira skemmtilegt að ógleymdri pizzaveislunni sem hefur verið í boði Dominos undanfarin ár. Sjálfboðaliðar sáu sjálfir um að skipuleggja reiðtúra sl. vetur og héldu m.a. Bingó til styrktar starfinu. Allir sjálfboðaliðar voru leystir út með þakklætisvotti fyrir gott starf.

 

KYNNING
Kynning á starfinu hefur gengið vel og hefur verið gott samstarf við aðila sem sinna málefnum fatlaðra. Haldin var kynning á námskeiðunum og boðið upp á prufutíma í reiðhöll Harðar. Auk þess var nemendum á námskeiðum boðið að taka með sér gesti til að fylgjast með tímanum.

 

ÞAKKLÆTI.
Fræðslunefnd fatlaðra vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra aðila sem styrktu starfið á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir fá Rótarýklúbbur Mosfellssveitar, SS Búvörur og Allianz sem hafa stutt vel við bakið á starfinu undanfarin ár. Hestamannafélagið lét yfirfara öryggisbúnað og lyftu sem er notuð til að aðstoða nemendur við að komast á og af baki. Sett var á fót styrkjanefnd sem starfaði frá janúar til mars. Ekki komu neinir styrkir í gegnum nefndina, en samtalið var gott og hugmyndir mótaðar að nýjum leiðum við að styðja við starfið. Nefndarmönnum er þakkað fyrir að gefa sér tíma og sýna málefninu áhuga. Á hverju ári þarf að endurnýja eitthvað af beislisbúnaði, hjálmum og ofl. Við fögnum því alltaf ef að það leynist búnaður hjá Harðarfélögum sem þeir hafa ekki lengur not fyrir en getur komið að góðum notum í starfinu okkar. Nú vantar t.d. þykkar og góðar undirdýnur undir hnakkana sem eru margir komnir til ára sinna. Þökkum öllum Harðarfélögum fyrir tillitsemi og hjálpsemi á meðan á námskeiðunum stóð, en síðast en ekki síst öllum okkar frábæru sjálfboðaliðum, aðstandendum og aðstoðarfólki nemenda. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt.

Fræðslunefnd fatlaðra

aaaaaaa.jpg