Skýrsla ferðanefndar
- Nánar
- Flokkur: Fréttir
- Skrifað þann Miðvikudagur, október 29 2025 19:11
- Skrifað af Sonja
Skýrsla fyrir aðalfund Harðar 29.10.25
Guðný Guðlaugsdóttir ritar
Í ferðanefnd Harðar veturinn 2024-2025 sátu:
Guðný Guðlaugsdóttir
Ib Göttler
Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir
Helstu verkefni og áherslur:
Lögð var áhersla á að skipuleggja nokkra sameiginlega reiðtúra fyrir hinn almenna Harðarfélaga. Lagt var upp með að reiðtúrarnir væru misjafnir að þyngdarstigi og markmiðið var að skipuleggja eina sameiginlega sumarferð.
Dagskrá veturinn 2024-2025:
26. apríl: Fáksreið (Harðarfélagar riðu í Fák).
3. maí: Harðarfélagar riðu á móti Fáksfélögum (Hlégarðsreið)
24. maí: Náttúrureið - riðið inn í Helgadal.
26. - 29. júní: Kjósarreið.
Mat:
Fáksreiðin á sér langa hefð og er ljúft og skylt fyrir ferðanefnd að skipuleggja. Það var fámennur en góðmennur hópur sem reið í Fák að þessu sinni og óskandi væri að félagið gerði hér gangskör að því að hvetja fleiri til þátttöku.
Harðarfélagar tóku á móti félögum sínum úr Fáki viku seinna og mikill fjöldi úr Fák sem og öðrum félögum mættu í Harðarból og borðuðu þar súpu saman. Þessar móttökur voru félaginu til mikils sóma.
Það var einnig fámennur en góðmennur hópur sem tók þátt í náttúrureiðinni sem að þessu sinni var inn í Helgadal. Þar var kveikt bál og borðað nesti. Nokkuð margir og ólíkir viðburðir eru á vegum félagsins í maí og hér var náttúrureiðin í innbyrðis samkeppni við þá.
Ferðanefnd lauk starfi sínu með því að skipuleggja Kjósarreið, sem voru alls fjórir reiðtúrar á fjórum dögum, mislangir og erfiðir ásamt því að skipuleggja og sjá um tvær sameiginlegar máltíðir og beitarhólf fyrir hesta. Þessi ferð tókst mjög vel og yfir þrjátíu manns riðu saman alla daga með hátt í 50 hross. Í fyrsta legg var riðið úr hverfinu og að Skrauthólum á Kjalarnesi, annar leggur var frá Skrauthólum að Miðdal, þriðji leggur frá Miðdal að Hrosshóli í Kjós og í fjórða og síðasta legg var riðið frá Hrosshóli í heimahagana um Svínaskarð. Höfðinglega var tekið á móti Harðarfélögum á öllum stöðum sem þökkuðu fyrir sig með gjöfum, húfum og derhúfum merktu félaginu, sögu Harðar og ginflösku. Almenn ánægja var með þessa ferð og hlaut ferðanefnd talsvert lof og hrós fyrir.


