Harðarfélagar með forgang að klassískri reiðmennsku

Það hleypur heldur betur á snærið hjá unnendum klassískrar reiðmennsku í febrúar því væntanlegur er til landsins í seinni partinn febrúar þýskur reiðmaður í háum gæðaflokki sem kennir hina klassísku reiðmennsku sem oft er kennd við barokk. Hann heitir Christoph Müller og hefur meðal annars verið í læri hjá Richard Heinrich einum fremsta barokk reiðmanni þýskalandi og verið aðstoðarmaður hans við sýningar. Verður hann við reiðkennslu hjá Hestamannafélaginu Herði í Hindisvík í Mosfellsbæ frá 20. til 27. febrúar nk. Hafa félagsmenn í Herði forgang að skráningu í reiðtíma hjá þessum snjalla reiðmanni til fimmtudagsins 29. janúar. Tekur hann einn til þrjá nemendur í hvern tíma og verður hægt að fá hjá honum minnst þrjá tíma en mest átta tíma þar sem ljóst er að takmarkaður fjöldi kemst að hjá honum. Christop Müller hefur sjálfur átt og þjálfað íslenskan hest, Mugg frá Bakkakoti, sem hann meðal annars var búinn að kenna fljúgandi stökkskiptingu. Þá hefur hann all nokkra reynslu af þjálfun íslenskra hesta en hann hóf sína hestamennsku tíu ára gamall á íslenskum hestum hjá nágranna sínum í Allenbach í Þýskalandi. Um þessar mundir á hann töltlausan Saddlebred hest sem hann hefur þjálfað í tvö ár og var meðal annars með hann þann tíma sem hann vann hjá Richard Heinrich. Þá er hann með örfáa hesta í þjálfun fyrir aðra auk þess að sinna reiðkennslu. Samhliða þessu stundar hann nám í arkitektúr í háskóla. Hann er mjög ásetinn í reiðkennslu en ástæða þess að hann gefur kost á sér til reiðkennslu hér á landi er mikill áhugi hans á íslenska hestinum og töltinu. Þá hefur hann aðeins fengið nasasjón af skeiðinu og vísast á það eftir að heilla hann ennfrekar. Christoph hefur tvívegis kennt hér á landi í litlum mæli og meðal þeirra sem sótt hafa tíma hjá honum má nefna Sigurð Sigurðarson sem hefur fullan hug á að hitta hann á nýjan leik í febrúar og fræðast enn frekar um leyndardóma klassísku reiðmennskunnar. Hann kennir á þýsku og ensku en ekki verður boðið upp á túlkun á íslensku. Þeir sem hafa hug á að komast í læri Christoph Mueller geta fengið frekari upplýsingar og skráð sig í síma 896 6753. Fyrstir hringja, fyrstir fá!