Æskan og hesturinn

Við viljum hvetja fólk til að mæta tímanlega þar sem aðsóknin að þessari sýningu hefur verið mjög mikil undanfarin ár. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis fyrir alla fjölskylduna en meðal skemmtiatriða þetta árið eru: Heiða (Idol-stjarna), Gunni og Atli úr Strákunum, Sproti frá Landsbankanum gleður yngstu gestina og síðast en ekki síst mun Unnur Birna ungfrú Heimur koma í heimsókn. Um 250 börn úr 7 hestamannafélögum úr Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Álftanesi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ hafa undanfarnar vikur lagt mikla vinnu í æfingar og búningagerð til að þessi sýning verði sú besta hingað til, einnig munu fötluð börn sýna að íslenski hesturinn er fyrir alla og að ekkert er ómögulegt ef viljinn er fyrir hendi. Yngstu knaparnir á sýningunni eru aðeins 3ja ára og þeir elstu eru komnir að tvítugu þannig að bilið er breytt og sýningaratriðin fjölbreytt.