Sveit í borg

Póstur sem var sendur á öll framboð í Mosó

Sveit í borg

Hestamenn hér í Mosfellsbæ njóta þeirrar sérstöðu að hverfið þeirra er sveit í borg.  Eftir aðeins 5 mínútna reið bíður ósnortin náttúran og fjölbreyttar reiðleiðir.  Hesthúsahverfið hefur byggst upp á löngum tíma, en nú er svo komið að engar lóðir eru í boði sem hamlar mjög fjölgun félagsmanna.  Mosfellsbær hefur byggst hratt upp og spár bæjaryfirvalda er að á næstu árum telji íbúar bæjarins 30 þúsund.  Í þeirri fjölgun þarf að gera ráð fyrir fleira fólki sem vill stunda útivist þ.m.t. hestamennsku og hesthúsahverfið í sínu náttúrulega umhverfi getur átt þátt í því að fólk kýs að búa í Mosfellsbæ.  Í nýlegum könnunum erlendis ræðst búsetuval ungs fólks oft á því að stutt sé í góða íþróttaðstöðu og að vera í nálægð við náttúruna.

Hestamannafélagið Hörður hefur lagt mikla áherslu á barna - og unglingastarf, en  helsti keppinautur okkar í þeim hópi eru tölvurnar og snjalltækin.  Því þurfum við að geta boðið börnunum upp á góða aðstöðu til kennslu, æfinga og keppni, en reiðhöllin er þéttsetin og því þörf á viðbyggingu til æfinga og upphitunar þegar mót eru í gangi.  Einnig gæti sú viðbygging nýst Reiðskóla fatlaðra vel, en ásóknin þar fer stöðugt vaxandi.

Hestamannafélagið hefur notið góðs stuðnings frá Mosfellsbæ, en alltaf má gera betur.  Þar ber helst að nefna:

  • Tungubakkahringinn, sem er langmest nýtta reiðleið félagsmanna.  Hringurinn er aðeins upplýstur að litlum hluta, en afar mikilvægt er að lýsa allan hringinn.  Lýsing var samþykkt hjá bænum fyrir nokkrum árum, en síðan var forgangsröðuninni breytt og frekari lýsingu slegið á frest.  Ekki komið á dagskrá enn.  Þar sem undirbygging reiðvegarins er engin, myndast hættuleg drulluslökk á nokkrum stöðum, sem geta valdið stórslysi á hestum og knöpum. 
  • Undirgöng undir Reykjaveginn voru sett á áætlun 2007, en hafa einhverra hluta vegna ekki komið til framkvæmda enn.  Þarna er verið að bjóða hættunni heim, því oft hefur mátt litlu muna þegar hestamenn hafa þurft að sæta lagi við að komast yfir veginn í þungri umferð.
  • Reiðleið með þrautabraut um Ævintýragarðinn eykur möguleika hestamanna á góðum og upplýstum reiðleiðum.
  • Brú yfir vað Varmánnar við enda sjúkragerðis.  Varmáin ryður sig reglulega með tilheyrandi vegrofi og vandræðum fyrir hestamenn og löngu búið að setja slíka brú á dagskrá, en vantar framkvæmd verksins.

Mjög brýnt að breyta deiliskipulagi og úthluta fleiri lóðum undir hesthús.  Það er mikil eftispurn eftir hesthúsum og engir möguleikar á fjölgun félaga nema með nýjum húsum.  Það er gert ráð fyrir frekari nýtingu á svæðinu í aðalskipulagi bæjarins og skynsamlegt að nýta það.  Það skapar líka tekjur fyrir Mosfellsbæ, bæði með lóðargjöldum sem og fasteignagjöldum. 

Það er óraunhæft að huga að nýju hverfi á öðrum stað, nema að gera ráð fyrir nýjum hringvelli og nýrri reiðhöll í því hverfi.  Með frekari nýtingu á núverandi svæði, nýtast öll mannvirki mun betur og mun ódýrara að byggja upp og bæta við það sem fyrir er.

Nýlega hélt hestamannafélagið stefnumótunarfund þar sem m.a. var rætt um hvar við sjáum félagið næstu árin.  Það var samdóma álit fundarmanna að með stækkun á núverandi svæði væri þörfinni mætt næstu 15 – 20 árin.

Hestamannafélagið hyggur á áframhaldandi gott samstarf við komandi bæjarstjórn og að bæjarbúar horfi stoltir á gróskumikið félag, félag sem býður bæjarbúum og þá ekki síst unga fólkinu upp á heilbrigðar tómstundir í náttúrulega umhverfi.

Gangi þér og þínum sem best nk laugardag.

Virðingarfyllst,

Hákon Hákonarson

Formaður Hestamannafélagsins Harðar