Frá formanni

Ágætu Harðarfélagar.  Ætlun mín er að birta reglulega frétta- og hugleiðingarpistla til upplýsinga fyrir félagsmenn.

Af framkvæmdum:  Búið er að setja upp loftræstikerfi í reiðhöllinni og að sögn þeirra sem nota höllina mest, er allt annað og miklu betra loft í höllinni.  Þörf var á, því loftið var oft mjög þungt og þegar heitt var úti var þetta „einsog að ríða í gróðurhúsi“ eins og einhver nefndi.  Höllin lá líka undir skemmdum sökum raka.  Elementið í hitakerfinu sprakk sl föstudag og er unnið að viðgerð.  Verið er að hanna nýtt hitakerfi fyrir höllina og líklega verður farið í framkvæmdir í sumar eða næsta haust.

Gólfið í reiðhöllinni skilst mér að sé í ágætu lagi núna, en sýnist sitt hverjum.  Ég er búinn að fá ca 30 tillögur um önnur og betri efni frá því að ég tók við sem formaður.  Við erum alltaf að reyna að gera betur og m.a. fylgjumst vel með því sem er að gerast hjá félögunum hér í kring.  Sprettarar eru búnir að skipta amk 6 sinnum um gólf og enn eru skiptar skoðanir um ágæti gólfsins þar.

Búið er að jafna út og keyra efni í planið norðan við reiðhöllina.  Einnig er búið að stækka verulega kerrustæðið og í undirbúningi er að afmarka stæði fyrir kerrur og verða stæðin síðan leigð út til félagsmanna gegn vægu gjaldi.  Þannig „ætti“ viðkomandi sitt stæði og gæti gengið að því vísu þó hann skreppi frá.

Á vormánuðum verða settar upp snjógildrur og þakrennur á höllina. (náðist ekki fyrir veturinn)  Í leiðinni verður gert við leka á þakinu  og sett upp ljós á norðurgaflinn.

Um næstu helgi verður aðalhátíð okkar Harðarmanna, árshátíðin.  Hvet ég alla félagsmenn til að mæta og skemmta sér og öðrum. 

Hestamannafélgið Hörður er þekkt fyrir góðan félagsanda.  Sínum það í verki með góðri mætingu.

Meira síðar........

kv

Hákon form  

es  Ef þið eruð með ábendingar eða fyrirspurnir, sendið þá á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. merkt til stjórnar.