Beitarmál

Nú er sá tími árs sem beitarnefnd félagsins fer yfir beitarmálin og úthlutar beit á þeim beitarstykkjum sem hestamannafélagið hefur til umráða til félagsmanna.  Reglurnar eru þannig að beit er úthlutað til eins árs í senn, það hefur þó verið vinnuregla til langs tíma að reyna að leigja sömu einstaklingum sömu beitarstykkin frá ári til árs. Þannig hefur fólk getað komið sér fyrir, lagað, sett upp girðingar og gengið að því frá ári til árs. 

Þegar fólk hefur af einhverjum sökum þurft að fara af stykkjunum, (hætta í hestamennsku, flytja úr bæjarfélaginu, stykkið tekið undir byggingar eða annað) hefur hestamannafélagið séð til þess að þær fjárfestingar sem fólk hefur lagt í séu keyptar upp að frádregnum eðlilegum afskriftum.  Það er því ekki um neinn hefðarrétt, áunninn eignarrétt eða erfðarrétt að ræða.  Um þetta fyrirkomulag hefur verið tiltölulega góð sátt í gegnum tíðina.  Það er þó ljóst að

beitarstykkin eru takmörkuð auðlind, sérstaklega þau stykki sem næst eru hesthúsahverfinu og félögum í hestamannafélaginu fjölgar frá ári til árs.  Það var því fyrir fimm árum að aðalstjórn félagsins fór yfir beitarmálin í heild sinni.  Þá var ákveðið að reyna að nýta þau stykki sem næst eru hesthúsahverfinu betur, eða skipta upp þeim stykkjum sem þyldu meiri beit, en jafnframt að fækka hestum ef einhverstaðar reyndist vera ofbeitt.  Hlutlaus aðili tekur út öll beitarstykki Harðar árlega og leggur mat á hvort hæfilega sé beitt.   

Það er langt frá því að núverandi fyrirkomulag þurfi að vera það eina rétta, þegar farið var yfir þessi mál komu fram margar tillögur að fyrirkomulagi.  Ein var sú að Hörður keypti upp og sæi um allar girðingar og síðan yrði dregið úr umsóknum hver fengi hvert stykki til árs í senn (lýðræðislegt og félagslega réttlátt fyrirkomulag sem tryggði jafnan rétt félagsmanna hvort sem þeir væru gamlir eða nýir félagsmenn). 

Önnur tillagan var sú að halda árlegt uppboð á stykkjunum, þá yrðu eftirsóttustu stykkin dýrust og önnur ódýrari.  Þriðja tillagan var að verðleggja stykkin misjafnlega þannig að þeir sem kysu að vera næst hesthúsahverfinu greiddu aukalega fyrir þau fríðindi.  Niðurstaðan fyrir fimm árum var hins vegar sú að búa við það fyrirkomulag sem hefur verið að mestu leiti óbreytt, en þó væri nauðsynlegt að aðlaga útleiguna að breyttum tímum þar sem beitarstykkjum fækkar en félagsmönnum fjölgar.  Það var líka ákveðið að fara ekki í þetta með látum, heldur reyna að gefa beitarnefnd og leigjendum nokkurra ára aðlögunartíma og yrði sá tími nýttur til að laga til eftir því sem hægt væri og helst að nota tækifærið til breytinga þegar fólk þyrfti að flytja sig til eða hætti. Það eru ekki alltaf vinsælar ákvarðanir sem beitarnefnd félagsins þarf að taka og ekki eftirsóknarvert að vera í stöðu nefndarmanna þegar þær eru teknar.

Félagsmönnum er að sjálfsögðu fullkomlega heimilt að vísa málum til aðalstjórnar telji þeir á rétt sinn gengin af nefndum félagsins, einnig má benda á aðalfundi sem vetvang fyrir skoðanaskipti og umræður.  Félagsmönnum er að sjálfsögðu einnig  heimilt að leita til annarra stofnanna æðri félaginu svo sem bæjarstjórn, eins og einn félagsmaður hótaði mér í gærkvöldi.  Einnig má benda á umboðsmanns Alþingis eða mannréttindadómstólinn í Haag.  En þangað til úrskurður einhvers æðra yfirvalds krefst annars þá mun beitarnefnd Harðar, í umboði aðalstjórnar, uppfylla þá skildu sína að úthluta beitarstykkjum til félagsmanna til eins árs í senn eftir þeim reglum sem gilt hafa í félaginu um árabil. 

Ég er formaður félagsins og hjá mér stoppar peningurinn.  Það hafa ekki verið margar kvartanirnar sem ég hef fengið frá félagsmönnum þau bráðum þrjú ár sem ég hef verið formaður, og ef kvartanir berast þá tek ég á þeim eigi þær við rök að styðjast, enda hef ég oft heyrt að samhugurinn og friðurinn sem hér ríkir um flest málefni séu öðrum íþróttafélögum öfundarefni.  Ég tek því glaður á móti kvörtunum frá félagsmönnum (og/eða hótunum eins og gerðist í gærkvöldi) og reyni að leysa úr þeim ágreiningsefnum sem upp kunna að koma ef ég get, eða vísa þeim í réttan farveg geti ég, nefndir félagsins eða aðalstjórn félagsins ekki leyst þau.  Síminn minn er 894 5101 eins og fram kemur á heimasíðunni og hvet ég Harðarfélaga til að hafa samband við mig ef þeim liggur eitthvað á hjarta.  Hótunum og óeðlilegum yfirgangi tek ég þó aðeins við í þessu númeri á eðlilegum símatíma, ekki í heimasímann klukkan hálf tíu á kvöldin.  Annars er, grínlaust, algjörlega óviðunandi að nefndar og/eða stjórnarmenn sem eru að vinna sín störf í sjálfboðavinnu fyrir félagið af bestu samvisku sitji undir hótunum.

Með bestu kveðju, Guðjón Magnússon formaður